26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þó að þetta mál verði nú tekið af dagskrá, áður en þessari umr. lýkur, þykir mér rétt að minnast fáum orðum á ræðu hv. 2. landsk., sem nú hefir lokið máli sínu.

Hv. þm. taldi það fyrst og fremst mikið bráðræði að ætlast til þess, að þetta frv. verði að l. á yfirstandandi þingi, og tók sem dæmi, að í öðrum löndum væru slík mál sem þessi undirbúin af allskonar n. og veltust siðan á þingi ár eftir ár, áður en þau væru afgr. Jafnvel þó að segja megi, að þetta sé rétt, þá getur nú verið álitamál, hvort þetta sé nokkur fyrirmynd. Ég er alveg sammála hv. 2. landsk. um það, að þetta mál verði að vera vel undirbúið, enda tel ég, að svo sé, þar sem það hefir verið athugað allrækilega af mönnum, sem álitnir voru að vera vel til þess hæfir. Síðan var það lagt fyrir siðasta Alþingi, að ég hygg í nóvember, og siðan tekið upp strax í byrjun þessa þings. Hv. þm., sem nú sitja á þingi, hafa því átt þess fullan kost að kynna sér þetta frv. frá því í nóvember s. l. Ég hygg því, að það sé engin goðgá, þó að við í allshn. höfum mælt eindregið með því, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi.

Hv. 2. landsk. gat þess, að frv. bæri þess merki, að um það hefðu fjallað menn, sem miðuðu mest við Reykjavík. Það má að vísu til sanns vegar færa, að frv. sé þannig úr garði gert, að mikið sé mest miðað við Reykjavík, en það kemur til af þeirri einföldu ástæðu, að meiri hluti allra dómsmála á landinu kemur fyrir í Reykjavík. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, þó sagt sé, að yfir 90% allra dómsmála komi fyrir í Reykjavík, en aðeins tæpur 1/10 hluti utan Reykjavíkur. Frv. gerir líka ráð fyrir því, að það gildi nokkuð sérstakt um meðferð mála hér í Reykjavík, þar sem enginn hörgull löglærðra málflutningsmanna er.

Þá hafði hv. 2. landsk. það við 2. gr. frv. að athuga, að sáttanefndarmenn væru skipaðir af bæjarstjórnum og hreppsnefndum, og taldi vafasamt, að orðalagið „skipun sáttanefnda“ þýddi það sama og val sáttanefnda. En ég álít, að það geti ekki verið neinum vafa bundið. Það eru til ákveðin fyrirmæli um það og verða nú, þegar afgr. verður frv. til 1. um kosningar í málefnum sveita og bæja, að ef kosnir eru fleiri en einn maður af bæjarstjórn og hreppsnefnum, þá skuli farið eftir hlutfallskosningareglum. Og frá því 1932 hafa sáttanefndarmenn í Reykjavík verið kosnir af bæjarstjórninni þar, og ég veit ekki til þess, að undan því hafi verið kvartað á nokkurn hátt, enda skilst mér, að sú kosning hafi ekki verið neitt pólitísk. Ég hygg, að ég megi fullyrða, að val á sáttanefndarmönnum í Reykjavík, eftir að bæjarstjórnin fór að kjósa þá, hafi ekki tekizt verr heldur en áður, og ég vænti þess, að svo verði annarsstaðar, að bæjarstjórnir og hreppsnefndir velji þá menn eina til sáttanefndarstarfa, sem þær hyggja, að séu bezt til þess fallnir. Ég hygg, að þetta val á sáttanefndum sé öllu heppilegra heldur en hjá héraðsdómurum, því að það er svo, t. d. þar sem um víðáttumikil lögsagnarumdæmi er að ræða, að hrepps- nefndir hafa miklu betri skilyrði til þess að velja góða menn í þessu tilliti heldur en héraðsdómarar, þó að ég vilji ekki halda því fram, að þetta hafi mistekizt hjá dómurum yfirleitt.

Þessi sami hv. þm. var að tala um laun sáttanefndarmanna. En fyrir mér er það aukaatriði. Ég tel, að þeir eigi að hafa hæfilega þóknun, og virðist mér sæmilega frá því gengið í frv., en hinsvegar tel ég, að í væntanlegum brtt. hv. þm. Ak. felist ákvæði, sem séu sanngjörn og eðlileg, og ég hefi eftir lauslega athugun á þeirri brtt., sem þetta snertir, komizt að þeirri niðurstöðu, að ég geti vel fylgt henni.

Um bústaði dómara ræddi hv. 2. landsk. líka, og mér skildist á honum, að hann væri hræddur um, að í höndum dómsmálaráðuneytisins kynni það að vera vafasamt, hvernig tækist til með skipun um bústaði dómara. En ég ætla þó, að þetta hafi verið þannig undanfarið, að dómsmálaráðuneytið hafi þurft að samþ. bústaði dómara, þó að oftast hafi verið farið að ráðum hlutaðeigandi dómara, ef ekki hefir þótt einhver sérstakur staður alveg sjálfsagður. Ég álít því, að með þessu ákvæði 31. gr. frv. verði engu breytt frá því, sem tíðkazt hefir til þessa með bústaði dómara.

Hv. 2. landsk. taldi það vafasamt, að bankastjórar og sendiherrar hefðu haldið vel við lærdómi sínum í lögvísindum og að þeir væru vel til þess fallnir að gegna þeim starfa, sem ræðir um í 32. gr. frv. En ég hygg þó, að þeir lögfræðingar, sem hafa verið bankastjórar, sendiherrar eða fulltrúar sendiherra, hafi átt þess nægan kost í starfi sínu að rifja upp fyrir sér fræði sín og jafnvel nota þau. Ég hygg því, að það megi til sanns vegar færa, að þessi störf geri menn frekar hæfa til dómarastarfs heldur en mörg önnur störf, þar sem engin lögfræðiþekking þarf til að koma. Annars er þetta í sjálfu sér mjög mikið aukaatriði.

Þá skildist mér, að hv. þm. hefði út á það að setja í 55. gr. frv., þar sem svo er fyrirskipað, að í Reykjavík mætti maður ekki flytja mál annars manns í hans eða sjálfs sín nafni, nema hann standi í því sambandi við aðilja, sem tilgreint er í þessari gr., eða sé löggiltur málaflutningsmaður. Þetta ákvæði nær aðeins til Reykjavíkur, en dómsmálaráðuneytinu er heimilt að láta sömu reglu gilda um aðra kaupstaði landsins, ef þar er enginn hörgull löglærðra málflutningsmanna. Reynslan er sú, bæði hér á landi og annarsstaðar, að það hefir orðið mörgum manninum bjarnargreiði að leita til ólöglærðra mann, með mál, og ég veit þess mörg dæmi, að dýrara hefir verið fyrir menn að leita til slíkra manna með mál sín, því að þeir hafa sökum kunnáttuleysis síns, sem eðlilegt er, gert það að verkum, að það hefir ekki náðst sá árangur af málinu, sem hefði getað fengizt, ef þeir menn hefðu fjallað um málið, sem með kunna að fara. Ég hefi sjálfur tekið við fleira en einu máli, sem flutt hafa verið fyrir undirrétti af ólöglærðum mönnum, sem hafa gengið þannig frá málunum, að mjög illt hefir verið að koma fram málstað umbjóðendanna, sökum aðgerða hinna ólöglærðu manna fyrir undirrétti, og nú er svo komið hér í Reykjavík, að það er mjög lítið leitað til annara manna í þessu efni heldur en löglærðra manna, og ég tel það yfirleitt óheppilegt fyrir menn, sem þurfa að fara í mál, að leita til ólöglærðra manna. Frá sjónarmiði dómaranna get ég fullyrt, að þeir eru þess mjög hvetjandi, að aðeins löglærðir menn fjalli um mál, og telja þeir, að oft sé erfitt að taka við máli úr höndum ólöglærðra manna, sem ekki hafa athugað að upplýsa málið þannig, að öruggt væri að leggja dóm á það. Ég ætla því, að bæði frá sjónarmiði almennings, dómaranna og eins frá því sjónarmiði, að það sé æskilegt að sem bezt lausn fáist í hverju máli, þá sé yfirleitt öruggast, að löglærðir menn fari með málflutning, þar sem þess er kostur. Í nágrannalöndum okkar er það fyrirskipað, að löglærðir menn fari með málin. — Hv. 2. landsk. taldi, að mál gæti orðið dýrara í höndum málflutningsmanna, og nefndi dæmi í því sambandi, en ég verð að segja, að þótt ólöglærður maður hefði farið með þetta mál, sem hv. þm. gat um, þá efast ég um, að það hefði orðið ódýrara í hans höndum. Ég þekki fleiri en eitt dæmi þess, að í höndum ólöglærðra manna eru mál sízt ódýrari fyrir skjólstæðinginn.

Út af 137. gr. hafði hv. þm. það að athuga, að þess er ekki getið, hverjir eigi að stjórna mati, þar sem matsmenn eru tilnefndir. Í Reykjavík hefir það tíðkazt um langan aldur, að aldrei hefir verið tekið fram, þegar matsmenn hafa verið útnefndir, hverjir eiga að stefna þeim saman, heldur hefir sá, sem útnefndi matsmennina, séð um, að þeir kæmu saman. Ég ætla því, að með þessari gr. sé engin breyt. gerð á því, sem áður var, því að mér er ekki kunnugt um það, að í lögum hafi gilt einhverjar aðrar reglur um það, að svo skuli fyrir mælt, að einhver matsmaður skuli stjórna matinu og kveðja matsmenn til funda. Með þessari gr. er því engin breyt. gerð frá því, sem áður ríkti í þessu efni, enda var engin ástæða til þess.

Það voru yfirleitt smáatriði, sem hv. þm. sá eitthvað athugavert við, og þykir mér það góðs viti, því að hann hefir fengizt við dómarastörf í mörg ár.

Um málfarið á frv. má náttúrlega alltaf deila, og getur vel verið, að það mætti orða einstaka setningu betur, og er sjálfsagt að taka til greina till. til bóta í þá átt, en ég held, að það séu ekki mörg atriði í frv., sem geta verið sérstakur ásteytingarsteinn frá málfarslegu sjónarmiði.

Það mun vera ákveðið af hæstv. forseta, að þetta mál verði tekið af dagskrá, og þar sem hv. þm. Ak. mun bera fram brtt. við það, þá gefst hv. 2. landsk. líka kostur á því að bera fram brtt. við það, ef hann æskir þess, út af þeim atriðum, sem hann hefir drepið á í sinni ræðu.