27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vil aðeins vekja athygli á brtt. frá mér á þskj. 234, sem er leiðrétting á 71. gr. frv. Þar hafði við 2. umr. slæðzt inn sú villa, að dómari ætti sjálfur að sjá um að áfrýja dómi, sem hann hefir kveðið upp samkv. síðustu málsgr. þessarar greinar. En slíkt er vitanlega ekki tilætlunin, enda ekki leyfilegt, þegar um einkamál er að ræða. Ég hefi því komið fram með brtt. þessa, þar sem svo er ákveðið, að slíkum dómi megi áfrýja innan viku frá dómsuppsögn. En það er vitanlega ekki dómarinn, sem á að gera það, heldur málsaðiljar.

Um brtt. hv. þm. Ak. á þskj. 241 hefi ég ekkert að segja umfram það, sem ég tók fram í gær, og legg því til, að þær verði samþ.