24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv. allýtarlega og leggur til, að það verði samþ. með nokkrum breyt., sem n. flytur á þskj. 395. Vil ég drepa á brtt., áður en ég tala um málið almennt.

1. brtt. er við 29. gr. Þar er gengið út frá því, að stj. hafi heimild til þess að fjölga lögmönnum í Rvík. N. vill láta þetta bíða, enda álítur hún, að það eigi að vera á valdi löggjafarvaldsins sjálfs að ákveða tölu og verkaskiptingu þeirra. Annars áleit n., að réttara væri að kalla þessa menn dómara, þar sem lögmaður myndi halda sínum framkvæmdastörfum og hinir því eingöngu fást við dómsmál. Seinni brtt. við þessu gr. er leiðrétting á ónákvæmni í frv. Lögreglustjórar í kauptúnum úti um land eiga lögum samkv. að fara með bæði lögreglumál og einkalögreglumál. En nú er með frv. felld niður hin sérstaka meðferð einkalögreglumála og því gengur brtt. út á að taka það fram berum orðum, að þau mál, sem hingað til hafa sætt meðferð einkalögreglumála, séu einnig framvegis á valdsviði þessara sérstöku lögreglustjóra kauptúnanna.

Þá er brtt. við 31. gr. viðvíkjandi embættisbústöðum sýslumanna. Í stað þess, að ráðh. er ætlað samkv. frv. að ákveða allsstaðar, hvar þeir eigi að vera, er slíkt vald takmarkað með till. n. þannig, að ráðh. skuli aðeins ákveða um bústaðinn, ef ágreiningur rís um hann, og þá að fengnum till. sýslunefnda.

Þá er brtt. við 33. gr. Hún stendur í sambandi við brtt. við 29. gr. Samkv. henni fá fulltrúar lögmanns meira vald og frjálsræði en verið hefir. Þetta er gert með tilliti til þess, að með hinni munnlegu málfærslu aukast afskipti dómara af málum mjög frá byrjun.

Brtt. við 41. gr. er lítilfjörleg. Hún kveður svo á, að vottagjöld skuli aldrei vera minni en 50 aurar. Þetta er gert með tillit til þess, að borgunin yrði annars of lítil.

Þá er breyting gerð á 55. gr. þess efnis, að stofnanir, sem hafa embættisgenga lögfræðinga í fastri þjónustu sinni, megi láta þá flytja mál sín. Eftir frv. mega engir flytja mál, nema málfærslumenn, aðiljar sjálfir eða venzlamenn þeirra; „þjónar“ mega hinsvegar ekki flytja mál lengur. N. telur rétt að taka þessa brtt. upp. Með „fastri þjónustu“ er átt við, að aðalstarf mannsins sé við viðkomandi stofnun.

Þá er með brtt. við 56. gr. lagt til að fella niður, að lögfræðingar þurfi að hafa flutt eitt opinbert mál af fjórum til þess að öðlast málfærsluréttindi. Þetta er gert með tilliti til Rvíkur, þar sem lögmaðurinn hefir engin opinber mál með höndum. Er þá hver sjálfráður um, hvort hann hefir eitt prófmálanna opinber mál eða ekki.

Næsta brtt. er leiðrétting, og sama er að segja um 8. brtt. 9. brtt. er við 86. gr.gr. er orðuð að nýju, þótt innihaldið sé svipað og áður, en tilvísanavillur eru leiðréttar.

Þá er 10. brtt. við 191. gr. Hún heimilar dómurum sem aðalreglu að hafa 3 vikur til að kveða upp dóm, þegar málaflutningur er skriflegur, í stað tveggja vikna í frv. N. fannst 2 vikur of knappur tími, þar sem dómarinn getur samtímis haft fjölda mála til meðferðar. Að vísu segir í seinni hl. gr., að dómsuppkvaðning megi dragast fram yfir þetta, ef um miklar embættisannir sé að ræða. En n. vildi ekki gera undantekninguna að aðalreglu og leggur því þetta til.

Þá er a-liður 12. brtt. Þar er bætt við tilvísun í 83. gr., sem er nauðsynlegt vegna þess, að oft eru í barnsfaðernismálum fleiri en einn varnaraðili. Þá er b-liðurinn um, að í upphafl 3. málsgr., þar sem stendur „héraðsdómara er skylt“ komi: dómara er skylt.

Brtt. við 214. gr. gengur út á það, að meðan á rannsókn máls stendur, geti barnsmóðir átt kröfu á aðstoð barnaverndarnefndar, eftir því sem dómari telur þörf á. En utan kaupstaða, þar sem ekki starfa barnaverndarnefndir, þá á barnsmóðir kröfu á aðstoð manns eða konu, sem hún nefnir til. Eftir bendingu frá barnaverndarnefndinni í Rvík þótti n. rétt að verða við þeim tilmælum að taka upp þetta ákvæði. Ég sé, að hv. form. n. hefir flutt um þetta aðra brtt., en um hana mun ég ekki ræða, fyrr en hv. flm. hefir talað fyrir henni. Ég vil þó segja, að ég skil ekki, að aðrir séu kunnugri þessum málum en barnaverndarnefndir, enda taldi hv. flm. þessarar nýju till. sig fylgjandi till. n., og undrar mig því þessi brtt. hans. ,

Þá skal ég taka 14. og 15. brtt. í einu, því að þær eru um ógildingu skjala með dómi. Þessi ógildingarmál hafa verið dýr og að ýmsu leyti viðhöfð aðferð, sem ekki er í samræmi við önnur mál. Þó virðist ekki ástæða til að fyrirskipa margbrotnari aðferð við að ónýta skjal en við aðra dóma ekki sízt þar sem það mun aldrei hafa átt sér stað hér á landi, að skjal, sem átti að ógilda með dómi, hafi verið lagt fram í rétti og ógildingunni þess vegna neitað.

Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, þó að létt væri undir með þeim, sem þurfa að fá slíka dóma, því að það hefir mátt heita mjög erfitt hér á landi. Stafar það einkum af tvennu, kostnaði við að fá úrskurð, áður en stefna er gefin út, og birtingu stefnunnar í Lögbirtingablaðinu, sem er ákaflega dýr, a. m. k. 30 kr. Þess vegna leggur n. til. að þessi úrskurður á undan málshöfðuninni sé felldur niður, þegar dómari gengur inn á að gefa út stefnu. En telji dómari, að skjal, sem beðið er um að ógilda, teljist ekki til þeirra skjala, sem ógilda má með dómi, þá synjar hann beiðninni með úrskurði, sem þá má áfrýja til æðra dóms. En telji dómari þau skilyrði fyrir hendi, er heimila að gefa út stefnu, er ástæðulaust að tefja málið og auka kostnað með því að heimta fyrst úrskurð, áður en stefna er gefin út, ekki sízt þegar þess er gætt, sem ég sagði áður, að skjal hefir aldrei verið sýnt í rétti, sem átt hefir að ómerkja með dómi.

Annað atriði, sem n. hefir lagt til að breyta til þess að draga úr kostnaði, er, að ekki þurfi að birta stefnuna nema einu sinni í Lögbirtingablaðinu.

Þá er 16. brtt. við 222. gr., þar sem gildistaka l. er færð frá 1. sept. 1936 til 1. jan. 1937. Er þetta gert eftir eindreginni beiðni margra dómara utan Reykjavíkur, sem óttast, að tíminn til 1. sept. verði of skammur fyrir sig til þess að kynna sér 1., en hafa gert sig ánægða með, að gildistökunni væri frestað til 1. jan. 1937. Í sambandi við þetta get ég nefnt, að það er ekki lítill uggur í dómurum úti á landi um, að þetta frv., ef að lögum verður, valdi meiri kostnaði og persónulegri fyrirhöfn en nú er. Hafa margir þeirra farið fram á að fá skrifstofufé greitt eftir reikningi, og er sjálfsagt sanngjarnt, að þeir fái það, eða a. m. k. er ekki sanngjarnt, að sumir fái það, en aðrir ekki. En n. tók þetta atriði ekki til verulegrar athugunar vegna þess, að ákvæði um það eiga ekki heima í þessu frv., þar sem það er ekki réttarfarsatriði, hvernig dómarar taka borgun fyrir störf sín. Þá hafa dómarar talsvert hreyft því að fá hækkuð ritlaun fyrir afrit og útskriftir, og má segja nokkuð það sama um það og skrifstofuféð.

Þá er a-liður 17. og síðustu brtt., við 224. gr., þess efnis að bæta við ýmsum lagaákvæðum, sem eiga að falla úr gildi; sérstaklega úr Norsku lögum. Virðist þetta hafa fallið úr í ógáti eða það hefir brenglazt í prentun. Í b-lið er leiðrétt skökk tilvisun, sem var í frv.

Fleiri brtt. hefir n. ekki flutt. En ég skal taka það fram fyrir mitt leyti, að þó ég hafi farið talsvert gegnum málið, vil ég ekki ábyrgjast, að ekki geti verið fleiri tilvísana- eða prentvillur, en það verður að sýna sig í framkvæmdinni.

Ég vil að lokum segja, að frv. er prýðilega samið, betur en veujulegt er um frv., enda samið af þeim manni, sem ég veit færastan til að semja frv., hæstaréttardómara Einari Arnórssyni.

Er vitanlegt, að frv. var algerlega tilbúið, áður en n. sú var skipuð, sem um þetta mál fjallaði. Var frv. afhent mér nokkru fyrir síðustu stjórnarskipti, og veit ég, að það var að mestu undirbúið af E. A. í Kaupmannahöfn. Einhverjar smábreyt. hafa verið á því gerðar, en engar stórvægilegar. Sú breyt. á meðferð einkamála í héraði. sem frv. veldur, ef að l. verður, er ákaflega mikil. Hingað til hafa dómarar venjulega ekki vitað um innihald máls, nema að örlitlu leyti, fyrr en eftir að það hefir verið tekið til dóms. Dómarinn hefir ekki átt nein tök á því að afla sér upplýsinga um það, sem verulega skiptir máli, eða hversu rétt og skýrt er flutt málið sjálft. Það hefir oft verið svo, að málin hafa verið dregin og flækt með löngum innleggum, án þess nokkuð hafi verið á þeim að græða eðu nokkuð gott leitt af. Nú er dómurunum ætlað að fylgjast með frá upphafi, en af því mun leiða tvennt. Fyrst og fremst mun svo fara hér sem annarsstaðar, að dómarinn sætti mörg mál. Þegar annar aðili hefir algerlega á röngu að standa, tekst dómaranum oft með góðu að sýna fram á það, og er þetta ákaflega mikill kostur, enda sýnt sig annarsstaðar, að þannig er hægt að ná sætt í upp undir helming mála. En þegar dómari sér ekki strax, hvernig í máli liggur, eða getur ekki fengið nægilegar upplýsingar, eða aðiljar vilja ekki sættast við fortölur dómarans, þá getur hann þó fyrirbyggt, að mál bólgni mjög upp með því að vísa frá málalengingum og spyrja um meginatriði. Þetta eru miklir kostir við munnlegan málflutning, auk þess sem mál taka skemmri tíma. Samkvæmt 109. gr. frv., eins og það var upprunalega, var dómara ætlað að ákveða, hvort mál skyldi flytja munnlega eða skriflega. En n. telur heppilegra, eins og Nd. hefir samþ., að ákveðið sé sem aðalregla, að málflutningur sé munnlegur, en dómari geti þó leyft undantekningar um skriflegan málflutning:

1) ef hann telur hættu á því, að málið skýrist ekki nægilega með munnlegum málflutningi, t. d. ef mikið er af tölum eða öðru, sem erfitt er að átta sig á, eða

2) ef annarhvor aðilja eða umboðsmenn þeirra óska skriflegs málflutnings, og dómari telur þau tilmæli á rökum byggð.

Ég held, að það sé hyggilegt að lögbjóða munnlegan málflutning sem meginreglu, en hafa skriflegan málflutning sem undantekningar, og að dómari sé nokkuð sjálfráður um, hvenær hann veitir þær. Ég skil vel, að eldri dómarar, sem óvanir eru munnlegum málflutningi, séu með nokkurn ugg yfir honum, en þeir munu venjast honum smám saman. Það sýndi sig í hæstarétti. að í byrjun var talsverð andúð gegn munnlegum málflutningi, einkum meðal dómaranna, en nú er sú andúð horfin, og það er nú undantekning, að mál sé þar flutt skriflega. Margar fleiri breytingar gerir frv. á gildandi lögum, en ég ætla ekki að fara út í þær, endu yrði það of langt mál. Ég vil þó geta þess, af því flestir hafa heyrt getið um gestarétt, að slík málsmeðferð fellur niður, enda óþörf við munnlegan málflutning, þar sem allt gengur miklu fljótar. Ég vil svo vænta, að hv. d. samþ. frv. með brtt. n., sem hún er sammála um.