24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi ekki neinu að bæta við málið sjálft, en ég á hér smávægilega brtt. á þskj. 412 við 13. lið í brtt. n. á þskj. 395. Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að till. n. er sett eftir bendingu frá lögmanninum í Reykjavík og að ég var samþykkur þeirri stefnu, sem í henni felst, og gekk inn á hana. En það er svo hér í Reykjavík, að barnaverndarnefndin er að mestu skipuð karlmönnum; það munu ekki vera nema 1–2 konur í henni. En ég býst við, að karlmönnum sé heldur ósýnt um að aðstoða konur á þennan hátt, en að það heyri fremur undir kvenmenn. Ég býst við, að reynslan sanni, að það sé full þörf á að aðstoða ístöðulitlar barnsmæður, því að ég hefi heyrt, að sumar stúlkur komi sér ekki að að gefa nauðsynlegar upplýsingar. Hér í Reykjavík er starfandi mæðrastyrksnefnd, sem ég hygg, að væri fús að láta slíka hjálp í té. Að vísu eru þessar n. ekki til nema í Reykjavík nú, en munu koma víðar upp.

En eftir till. geta stúlkur leitað aðstoðar hvers, sem þær vilja, á þeim stöðum, sem mæðrastyrksnefndir eru ekki.

Ég legg þetta svo undir dóm hv. þdm., hvort þeir telja betra, en þetta er tilfinningamál, og ég hygg, að heppilegra sé, að það séu konur, sem aðstoðina veita. — Þá hefir því lauslega verið hreyft, að mæðrastyrksnefndirnar ættu ekki stoð í 1., en ég hygg, að það þurfi ekki að verða þessari till. til farartálma. Vænti ég, að hv. þdm. geti við nánari athugun fallizt á að samþ. brtt.