30.04.1936
Efri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Þorsteinn Briem:

Það var aðeins ræða hv. form. allshn., sem gaf mér tilefni til að standa upp. Eins og hann tók fram, talaði hann meir frá eigin brjósti, að ég ætla, en fyrir hönd n. Að því er 1. brtt. snertir, þá ætla ég, að meiri hl. n. hallist að því, að forstjóri fyrir stóru fyrirtæki sé hliðstæður bankastjórum, a. m. k. við smáútibú, en af frv. verður ekki séð, að þeir séu undanskildir. Það má t. d. líta svo á, að lögfræðingur, sem unnið hefir í stjórnarráðinu í eitt ár og síðan veitt stóru fyrirtæki forstöðu í 2 ár, sé ekki lakar búinn undir að taka að sér dómarastarf en sá, sem verið hefir 3 ár bankastjóri við smáútbú, þar sem viðskiptalíf er fábreytt.

Þessari skoðun hygg ég, að meiri hl. n. fylgi og muni samþ. 1. brtt. á þskj. 453 við 32. gr. Um 2. brtt., við 33. gr., má vera, að frekar séu skiptar skoðanir í n. En þó má benda á, að þar er aðeins um 3 tegundir dómsathafna að ræða. Í fyrsta lagi uppskriftir í sambandi við skipti búa, sem ég ætla, að hingað til hafi verið framkvæmdar af ólöglærðum mönnum. Í öðru lagi fógetagerðir. Og í 3. lagi uppboðsgerðir. Allt hefir þetta a. m. k. í viðlögum verið framkvæmt af ólöglærðum mönnum og ekki þótt koma að sök. Hinsvegar er það tekið fram í 33. gr., að fulltrúi megi því aðeins kveða upp úrskurð í sambandi við dómsathöfn, að hann hafi lögfræðipróf. Þar sem um svo takmarkað verksvið er að ræða, verð ég að vera brtt. fylgjandi.

Um 3. brtt. hefi ég engu við að bæta það, sem hv. form. n. sagði, og er ég henni fylgjandi, því að ég tel hana réttari en brtt. á þskj. 146, sem hnígur í sömu átt, en er víðtækari.