30.04.1936
Efri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 446, sem var útbýtt á undan brtt. 453, og sé ég, að n. hefir að mestu tekið til greina það, sem ég vildi láta taka fram. — Í kaupstöðum utan Rvíkur er ekki þörf að halda bæjarþing oftar en einu sinni í hálfum mánuði. Þetta hefir n. tekið til greina á þann hátt, að vitalaust sé, þó að þau séu ekki oftar haldin, ef dómari er í embættisferðum í lögsagnarumdæminu, en þessu vildi ég breyta á þann veg, að einnig vegna embættisanna á skrifstofu mætti dómari láta niður falla að halda bæjarþing vikulega. Það er í nálega öllum tilfellum óþarft að halda það oftar en hálfsmánaðarlega utan Rvíkur. Ef dómarinn gæti komið því við vegna anna, er ekki að óttast, að hann vildi ekki eins vel halda bæjarþingið vikulega, því að annars hrúgaðist þeim mun meira fyrir, og mundi hann því kosta kapps um að halda það svo oft sem annir leyfðu.

Ég vil taka undir það, sem hv. 10. landsk. sagði um nauðsyn þess, að sem flestir geti framkvæmt lögtök o. fl., en aðalfulltrúi, sem framkvæmir dómarastörf, þarf að vera lögfræðingur. Enda er það svo, að lögreglustjórar hafa haft fulltrúa, sem á þeirra ábyrgð hafa framkvæmt ýms störf fyrir bæjarfélögin. Svo hefir það verið á Ísafirði um langt skeið, að bæjarfógeti hefir fengið útnefndan mann til þess að annast lögtök, innheimtu bæjargjalda o. fl.

Ég vildi um leið og ég get tekið aftur brtt. á þskj. 446, bera fram skrifl. brtt. um, að í stað „embættisferðar í umdæmi sínu“ komi: embættisanna.