07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1937

*Garðar Þorsteinsson:

Á þskj. 547 hefi ég leyft mér að koma fram með þrjár brtt. Í fyrstu till. er farið fram á, að veittur sé 300 króna styrkur til Jóns Einarssonar í Rauðhúsum vegna fávita, sem hann sér um. Þessi fáviti er rúmlega þrítugur, ófær til allrar vinnu og þess vegna algerlega ómagi. Í stað þess að setja þennan fávita á hæli, sem yrði þess valdandi, að það opinbera yrði að sjá fyrir honum, þá hefir Jón Einarsson af fátækt sinni séð fyrir honum til þessa dags. Á Alþingi í fyrra var samþ. samskonar styrkveiting, og vona ég, að hv. þm. verði ekki mótfallnir að sami styrkur sé veittur nú.

Þá er brtt. við 14. gr. BXXIV, nýr liður, að veita 101 mönnum ferðastyrk á alheimsskákmót í München. Er aðaltill. um 800 kr., en varatill. um 500 kr. Skáksambandið hefir áður orðið góðs aðnjótandi hjá ríkinu og fengið fasta upphæð. 1600 kr., og er nú á fjárlögum, en þá fjárhæð hefir skáksambandið aðallega notað til að efla skáklistina innanlands á þann hátt að styrkja menn til að sækja skákmót hér í Reykjavík og til þess að gefa út blað, og skáksambandið er þess vegna ekki aflögubært. Í sumar verður haldið skákmót í München, og munu um eða yfir 30 þjóðir taka þátt í því. Hefir hverri þjóð verið boðið að senda þangað 10 menn. 8 menn til að tefla og 2 varamenn. og verða 8 frá hverju landi sem tefla í hverri umferð. — Íslendingar hafa tvisvar áður tekið þátt í alþjóðaskákmóti, en þá þannig að frá hverju landi kepptu aðeins fjórir menn; þótt það þyki ef til vill undarlegt, þá var reynslan sú, að á þessum skákmótum vöktu Íslendingar sérstaka eftirtekt ekki fyrir það, hve ofarlega þeir urðu, heldur fyrir það, hve mikla skákkunnáttu þeir sýndu, og skákir, sem þeir tefldu á þessum mótum, hafa verið birtar í blöðum og tímaritum, sem lesin eru um allan heim. Eins og hv. þm. ef til vill muna, kom á síðasta ári út bók, sem gefin var út eftir skákmótið í Folkestone á Englandi. Þar voru teknar upp beztu skákirnar, sem tefldar höfðu verið á mótinu og annarhvor teflandinn hafði unnið, og í þessari bók voru 11 skákir, sem tefldar voru af heimsmeistaranum Aljechin, en eftir okkar meistara, eða þann, sem ég hiklaust tel meistara okkar í því að tefla góðar skákir, Eggert Gilfer, voru þar 10 skákir. Ég er sannfærður um það, að þessi bók hefir áreiðanlega vakið úti um allan heim athygli á landi voru og þjóð og ef á annað borð nokkuð er gefið fyrir auglýsingar, þá er slíkt ómetanlega mikils virði. Ég hygg, að sú eina list, sem við Íslendingar getum tekið þátt í og mætt jafnfætis við aðrar þjóðir, sé skáklistin. Ég hugsa ekki, að það sé nein íþrótt, sem við keppum í og getum nálgazt aðrar þjóðir, nema þessi eina. Nú er það svo, eins og ég tók fram, að héðan hefir 10 mönnum verið boðið á skákmótið í München. Þeir fá allt frítt á meðan mótið stendur, og í ferðakostnað fá þeir 800 ríkismörk. Ég geri ráð fyrir, að þetta verði nægilegt fyrir ferðakostnað og uppihald í Þýzkalandi frá skipi til skips. Nú er það vitanlegi, að nokkuð kostar að komast héðan til Þýzkalands, og býst ég við, að það yrði um 2500 kr., sem sú ferð kostaði fram og aftur. Að skáksambandið fer ekki fram á hærri styrk en 800 kr., er bæði vegna þess, að Alþingi hefir áður verið því svo vinsamlegt, að ekki er réttlátt að knýja þar mjög fast á dyr og svo eru margir einstaklingar, sem hafa mikinn áhuga fyrir því, að þessi för verði farin, svo að stjórn skáksambandsins telur ekki útilokað, að hægt sé að fá nokkurt fé til fararinnar annarsstaðar frá. Ég er sannfærður um, að þeir skákmenn, sem verða valdir til fararinnuar, koma ekki fram á annan hátt en þann, sem er þjóð vorri til sóma. Ég hygg, að öðru eins hafi verið varið til auglýsinga eins og þó þessi upphæð væri veitt til þess, að íslenzkir skákmenn gætu komið fram á þessu móti, þar sem keppt verður af meira en 30 þjóðum. Þarna mæta fréttaritarar frá öllum þjóðum. Fréttaritarar, sem skrifa fyrir fjöllesnustu blöð heimsins, og þessir menn taka jafnt eftir skákunum, hvort sem þær eru tefldar af Íslendingum eða öðrum.

3. till., sem ég flyt, er um að gefa Siglufjarðarkaupstað eftir ábyrgð á ca. 30 þús. kr., er kaupstaðurinn stendur í gagnvart ríkissjóði vegna kaupa samvinnufélags sjómanna á Siglufirði á s. s. Bjarka. Þessi skuld eða ábyrgð er þannig til orðin, að ríkissjóður átti skip sem Bjarki hét og stóð ríkissjóði í ca. 40 þús. kr. Samvinnufélag sjómanna sem var stofnað á Siglufirði, réðst í að kaupa þetta skip og fékk Siglufjarðarkaupstað til að ganga í ábyrgð fyrir and virðinu. Útgerð félagsins gekk illa og félagið hætti. Eyþór Hallsson keypti þá skipið og samdi um afborganir á andvirðinu og greiddi fyrstu afborgun, en þegar að síðari afborgunum kom, gaf þáverandi forsrh., Ásgeir Ásgeirsson, eftir um greiðsluna. Þessar afborganir áttu að greiðast í síld, en í stað þess að afborganir færu fram og ábyrgð Siglufjarðarkaupstaðar lækkaði, var þessum samning ekki framfylgt, og það fór þannig, að eigandinn hélt áfram að gera skipið út og safnaði á það sjóveðsskuldum, og að lokum var svo skipið selt til lúkningar á þeim, og ríkissjóður missti það veð, sem hann hafði í skipinu, en Siglufjarðarkaupstaður stendur áfram í ábyrgðinni. Mér finnst þess vegna, að það sé sanngirniskrafa, að bærinn losni undan þessari ábyrgð, sem ekki var látin lækka vegna þess, að kaupandi skipsins var ekki krafinn um greiðslur á réttum gjalddögum, enda þótt ríkissjóður þá hefði aðstöðu til að láta hann borga. Sá ábyrgi hefir að þessu leyti verið gerður réttlaus, en skuldasúpan er svo látin skella á honum. Auk þess að þetta er réttlætiskrafa, þá má líka taka tillit til þess, að Siglufjarðarkaupstaður er þess ekki megnugur að greiða þessa skuld.

Ég hefi svo ekki fleiri till. að mæla með, en vil út af till. hv. a. þm. Reykv., um styrk til Guðmundar Árnasonar, til þakskífugerðar, aðeins mæla með, að sú till. verði samþ. Ég vil geta þess, að þessi maður fékk fyrir 2–3 árum hjá búnaðarfélaginu 300 krónur og aðrar 300 krónur hjá ríkisstjórninni til þess að fara til Noregs og læra að vinna þakskífur. Hann fór þá til Voss og lærði þar að fara með þakskífur á þann hátt, sem Norðmenn gera, og á þaki þessa húss, eru slíkar skífur. Í landi föður hans er þakskífunáma, og þar eru álitnir möguleikar til að vinna skífur, svo að vel sé. Þessi maður keypti í Noregi verkfæri fyrir 1000 krónur og atlar að nota þau við þessa vinnu, og er farinn með þau austur. Nú hagar svo til, að um langan veg er að flytja frá námunni og allt verður að flytja á hestum. Loks þarf að senda þetta til efnafræðilegur rannsóknar til þess að vita, hvort það er of mikill leir í skífunni eða hvort hún er nægilega hörð og slétt. — Hv. 2. þm. N.-M. gæti kannske gefið einhverjar upplýsingar um þetta, því að hann er sá eini maður, sem ég hefi talað við, sem komið hefir á þennan stað, og hann segir, að skífan sé slétt og að hægt sé að kljúfa hana niður í ½ cm. Og ef þetta er svo og það sýnir sig við efnafræðilega rannsókn, að það megi nota þessa skífu, eins og skozka skífan er notuð, til þess að þekja hús, þá er þarna vissulega möguleiki til þess að spara erlendan gjaldeyri fyrir þakjárn og þakskífur. Ég vildi þess vegna mæla með því, að þessi litli styrkur yrði veittur, því að hér á hlut að máli mjög fátækur maður, sem hefir kostað upp á sig nokkru fé til að læra að vinna þetta og keypt til þess verkfæri.