06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal ekki hafa langt mál um þá brtt., sem við hv. 2. þm. Árn. berum fram á þskj. 533. Við ætluðum að bera þessa brtt. fram við 3. umr. málsins hér í hv. d., en málinu lauk þá, áður en við værum tilbúnir með hana, svo að við afréðum að flytja hana nú.

Það má vafalaust telja, að þetta frv. hafi margt það, sem sé til bóta. En ég tel það óþarft og galla á frv. að gera málflutning einokaðan í höndum hinna svokölluðu málaflutningsmanna. Nú er það vitanlegt, að það hafa ýmsir leikmenn unnið þessi störf og farizt það vel úr höndum, og þeir hafa reynzt ódýrari en lærðir lögfræðingar, og því hafa menn oft gripið fremur til þeirra heldur en til hinna löglærðu.

Ég álít þetta ákvæði bæði ranglátt og óþarft. Það er ranglátt gagnvart almenningi, sem getur komizt að hagkvæmari greiðslu fyrir málaflutning með því móti, að frjálst sé að leita til þessara ólærðu manna, sem svo eru kallaðir, en reyndar geta oft haft mjög mikla verklega þekkingu og sjálfsmenntun, og það er líka ranglátt gagnvart þessum mönnum, sem hafa varið bæði fé og fyrirhöfn til þess að gera sig færa til þessa starfs. Óþarft tel ég það, ef það á að vera til þess að vernda alþýðu manna frá fúskurum, því að ef reynslan yndi það, að þessir menn væru ófærir til að taka að sér málflutning, þá myndi almenningur vitanlega ganga eingöngu til þeirra löglærðu með mál sín. Ég hefði viljað, að þetta væri rýmra en svo, að það væri bundið við þá eina, sem hafa haft opna skrifstofu í þessu skyni á undanförnum 10 árum, en ég hugði, að ekki mundi blása byrlega með að fara lengra en eins og till. er nú orðuð. Þetta nær þannig aðeins til örfárra manna, og ég sé enga ástæðu til að svipta þá þessari atvinnu sinni.