06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Pétur Ottesen:

Við leikmennirnir stöndum nú nokkuð höllum fæti að deila við dómarana um jafnhájúridisk efni eins og frv. það, sem hér liggur fyrir. Hinsvegar dylst það ekki okkar augum, að lögfræðingarnir ota fram sínum tota og að frv. ber full einkenni þeirra stéttarhagsmuna, sem vaða uppi nú á dögum. Það er augljós sá tilgangur að skáka öllum út úr meðferð og flutningi mála, sem ekki hafa tekið lögfræðipróf, og það þótt þeir standi lögfræðingum fyllilega á sporði í meðferð mála og skilningi á íslenzkri löggjöf. (GSv: Hverjir eru það?). Það eru margir ólöglærðir menn, sem hafa tekið að sér flutning mála og farizt vel, og sumir hafa jafnvel verið settir sýslumenn um lengri eða skemmri tíma. Þeir hafa verið settir af sýslumönnum og vitanlega á þeirra ábyrgð, en það ber vott um, að sýslumennirnir hafa borið það traust til þessara manna, að þeir hafa álitið, að málunum væri vel borgið í þeirra höndum.

Það verður sjálfsagt ekki miklu um þokað í þessu efni, en ég held, að það ætti þó að taka tillit til þessarar litlu tilraunar hv. þm. Mýr. — Annars virðist það harður dómur, sem ólöglærðir menn hér í Reykjavík fá með þessu frv., þar sem það er ákveðið, að þeir megi ekki taka að sér þau störf, sem ólöglærðir menn utan Reykjavíkur mega vinna. Mér finnst þetta svo harður dómur um borgara bæjarins, að þótt ég sé enginn málsvari Reykvíkinga, þá finnst mér, að ég verði að taka upp þykkjuna fyrir þá, þegar þeir eru settir þannig skör lægra en aðrir menn hér á landi.

Það er svo sem augljóst, hvað hér er á ferðum.

Lögfræðingastéttin vill sitja ein að krásinni — ef um einhverja krás verður að ræða — og aðrir eiga ekki að komast þar að. Það eru eiginhagsmunirnir, sem hér vaða uppi, og mér finnst, að það sitji allilla á sósíalistum, sem segja við alþýðuna „komið til mín og njótið verndar minnar“. En það er einmitt einn úr þeirra hópi, hv. 1. landsk., sem hefir verið valinn til að berjast fyrir þessu eiginhagsmunamáli lögfræðinganna, og berst mjög hraustlega. En ég vil rýmka þetta frá því. sem er í brtt. Ég vil ekki, að það miðist við neinn einstakan mann, heldur við heildina, og vil láta falla niður orðin: „enda hafi haft í því skyni opna skrifstofu a. m. k. 10 ár samfleytt“, og að það sé aðeins sett sem skilyrði, að maðurinn hafi stundað lögfræðistörf áður en lögin komast í gildi. Með því er það útilokuð, að fleiri bætist svo við í þetta starf hér í Reykjavík, en það er betri hálfur skaði en allur.

Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. till. mína. Þð er dálítil réttlæting á þeim dómi, sem með frv. er felldur um hæfileika ólöglærðra manna hér í Reykjavík, ef þessi till. mín fæst samþ.