06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Garðar Þorsteinsson:

Það var út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði síðast í ræðu sinni, að till. hans væri að efni til í samræmi við það, sem gilti um rétt manna utan Reykjavíkur. Þetta er misskilningur, vegna þess að í frv. sjálfu, í 55. gr. þess, er hverjum lögráíða manni með óflekkað mannorð heimilt að fara með mál fyrir aðra utan Reykjavíkur, en samkv. till. hv. þm. Borgf. mega menn ekki far, með mál fyrir aðra, nema þeir hafi stundað málflutning áður en l. öðluðust gildi. Utan Reykjavíkur þurfa þeir þá ekki að hafa haft opna skrifstofu til þess að geta flutt mál fyrir aðra. En í Reykjavík er þetta sett að skilyrði í till. hv. þm. Það er augljós munur á þessu, því þarna er þetta takmarkað við þann hóp manna, sem hefir stundað málflutning, áður en l. öðlast gildi. En í framtíðinni getur hver maður utan Reykjavíkur, sem uppfyllir þau skilyrði, sem sett eru, flutt mál fyrir aðra. Hann þarf ekki að hafa stundað málflutning áður en l. öðluðust gildi. Ég býst við, að flestir geti séð þennan mismun.

Svo sagði hv. þm., að mér hefði fundizt, að till. hans gengi of skammt. Þetta er rétt. Ef byggt er á þeim forsendum, sem komu fram í ræðu hv. þm., þá er till. skökk. Hv. þm. sagði í ræðu sinni, að hann sæi ekki ástæðu til þess að takmarka þennan rétt til málflutnings við málflutningsmannastéttina sjálfa, heldur ætti hver góður og gegn maður að hafa þennan rétt og geta flutt mál fyrir aðra. Ef þetta er skoðun hans, þá á hann vitanlega ekki að takmarka þetta við gildistöku l. Ef hv. þm. vill því vera í samræmi við sjálfan sig, þá átti hann ekki að orða till. eins og hann gerði. Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta atriði.

Út af því, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, þá er það auðvitað, að hinn eiginlegi málflutningur er ekki í sambandi við viðurkenndar kröfur, sem hann talaði um. Sé um viðurkenndar kröfur að ræða, þá er það algengt, að eigendur krafnanna leggi þær sjálfir í dóm. Þessi rök hans skipta því engu.

Þar sem hann talaði um kostnaðinn, þá er það líka byggt á nokkrum misskilningi. Það er vitanlega dýrt að reka mál, enda neitar enginn því. En það eru líka gjöld, sem verður að borga af hverju máli í ríkissjóðinn og til þeirra manna, sem með málin fara frá hinu opinbera, bæði votta og stefnuvotta. Ég hygg, að það séu um 26 kr., sem sá maður, sem leggur mál í dóm, verður að greiða í ríkissjóðinn og í vottagreiðslur. Það eru a. m. k. ekki peningar, sem renna til málflutningsmannanna.

Ég hefi ekki orðið þess var, að þeir ólöglærðir menn, sem stunda málflutning, geti sitt starf frekar en hinir sitt. Ég hygg, að það sé alveg öfugt. Þetta kann að þykja ótrúlegt, en ég hygg, að það sé alveg öfugt, að málflutningur sé sízt ódýrari hjá hinum ólöglærðu en hjá lögfræðingunum. Ef þetta atriði á að vega eitthvað hjá hv. þm. A.-Húnv., þá hygg ég, að hann fari þar villur vegar.