07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1937

*Þorbergur Þorleifsson:

Við hv. 2. þm. Árn. flytjum brtt. á þskj. 548 um að heimila ríkisstj. að kaupa Búðir á Snæfellsnesi, ef samningar um verð takast. Eigandi jarðarinnar, Osvald Knudsen, vill selja hana fyrir sanngjarnt verð. Jörðin er metin á 36000 kr. að fasteignamati, og þar að auki er eitthvað af byggingum, sem bætast sennilega við kaupverð jarðarinnar. Það sem mælir með þessum kaupum er fyrst og fremst það, að þarna er ágætt land til þess að stofna nýbýli; jörðin hefir mikið af ræktuðu landi. Að sögn kunnugra manna má stofnsetja þarna um 20 nýbýli í landi jarðarinnar. Auk þess er þetta heppilegur staður fyrir innlenda og erlenda ferðamenn, og ferðamannaskrifstofa ríkisins hefir hugsað sér að byggja þarna sumargistihús fyrir ferðamenn. Loks er þetta fornfrægur staður, eins og kunnugt er höfn er þarna ágæt og verzlunarstaður var þarna fyrr meir og er jafnvel enn. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en ég vil að lokum taka það fram, að ég tel, að það opinbera hefði mikið gagn af að komast yfir þessa eign. Nú hefir hv. þm. Snæf. flutt brtt. við þessa brtt. okkar, en þar sem ég er þeirri till. ókunnur, og þar sem hv. þm. hefir ekki enn mælt fyrir henni, get ég fyrir mitt leyti ekki tekið afstöðu til hennar fyrr en ég hefi heyrt þau rök, sem hún er reist á.

Næst vil ég fara nokkrum orðum um brtt., sem hv. þm. Ak. og hv. þm. A.-Húnv. hafa flutt. Hún er afturganga síðan í fyrra og fjallar um niðurfellingu á skáldastyrk Halldórs Kiljans Laxness. Hv. þm. Ak. talaði fyrir þessari brtt. í fyrra, og aðalrökin voru þau að Laxness hefði haldið ræðu í útvarpið, sem verið hefði hneykslanleg, og þess vegna bæri að fella styrkinn niður. Þessi hv. þm. hefir ekki talað fyrir þeirri brtt., sem hér liggur fyrir; hv. þm. A.-Húnv. hefir tekið að honum það ómak. Það sem hann færði fram sem rök fyrir því, að fella bæri styrkinn niður. var fyrst og fremst það, að þetta mæltist svo illa fyrir úti um sveitir landsins; bændur væru á móti þessu. Ég verð að segja, að ef þetta er rétt hjá hv. þm., þá ber það ekki vott um mikinn þroska hjá sveitafólkinu. Í mínu héraði eru dálítið skiptar skoðanir um þetta, en þó hygg ég að allur fjöldi alþýðumanna þar sé því meðmæltur, að skáhlið fái þennan styrk, en jafnvel þótt nokkrir eða jafnvel allmargir sveitamenn væru því mótfallnir, að Laxess fengi þennan styrk, þá er svo fyrir mælt í stjskr.þm. séu bundnir við sannfæringu sína, en ekki fylgi frá kjósendum eða öðrum um það, hverju þeir greiða atkv., svo að þessi ástæða fellur því alveg um sjálfa sig, jafnvel þótt hún væri fyrir bendi, sem ég verð að efast um.

Önnur ástæðan, sem hv. þm. færði fram máli sínu til rökstuðnings, var sú, að það lægi ekkert eftir þetta skáld, sem nokkurt andlegt verðmæti væri í, og að hann kynni ekki einu sinni íslenzkt mál. Í þessu sambandi nægir að vitna í ummæli harðvítugra andstæðinga H. K. L. svo sem Arnórs Sigurjónssonar; hann segir, að H. K. L. sé einhver mesti stílisti, sem uppi hefir verið með þjóð vorri, og ég fyrir mitt leyti verð að taka undir það. Ég þori að fullyrða, að enginn íslenzkur eða norrænn maður hefir hvorki fyrr né síðar leikið sér eins með íslenzka tungu og H. K. L. Enginn hefir skrifað þróttmeira mál eða af jafnmikilli list á íslenzka tungu og hann.

Þriðja ástæðan sem hv. þm. A.-Húnv. færði fram máli sínu til sönnunar, var það, að H. K. L. lýsti íslenzkum bændum sem lúsugum og skítugum skríl. Það er vitanlega hægðarleikur að slá slíkum fullyrðingum fram, en til þess að sýna hv. þm. fram á, hvað mikið er hæft í þessari fullyrðingu, ætla ég að lesa upp örfáar setningar úr einu af ritum skáldsins, og eru þær setningar teknar af handahófi. Vil ég vænta þess, að hæstv. forseti gefi leyfi til þess. Á einum stað segir skáldið:

„Menn skyldu varast að halda, að þeir viti nú alla skapaða hluti, þótt þeir hafi lesið eitthvert slangur af bókum, því sannleikurinn er ekki í bókum og ekki einn sinni í góðum bókum heldur í mönnum, sem hafa gott hjartalag. Bækur eru í hæsta lagi vitnisburður um sálarlíf mannanna, sem hafa ritað þær. Ég hefi mörgum kynnzt, sem kapp hafa lagt á bókvísi, en þeir hafa oftast verið fremur mannúðarlitlir í hugsjónum og nokkuð ofstopasamir hið innra með sér, en snauðir af þeirri menningu hjartans, sem hún amma mín var gædd og lýsti sér í gamansemi, elju, afskiptaleysi í trúmálum, jafnaðargeði í sorgum, kurteisi við bágstadda, hugulsemi við ferðamenn óbeit á leikaraskap, góðsemi við skepnur.“

Þarna er skáldið að lýsa sveitakonu, en henni er ekki lýst sem lúsugum og skítugum skríl. Og enn segir H. K. L.: „Tungutak alþýðumanna er tilþrifameira en skrifborðshótfyndni rithöfundanna og í sannleika list miklu djúpúðugri, því alþýðumenn standa í sjó upp að knjám með sjálfa fornöldina í blóðinu og salt í skegginu.“ (MG: Var það ekki mosi í skegginu?). Hv. 6. þm. Reykv. hefir lýst mosanum í skegginu svo eftirminnilega í ritgerð sem landfræg er orðin, að það er óþarfi að lýsa honum frekar. Á enn öðrum stað segir H. K. L.: „Áður en ég slæ botninn í þennan kafla, langar mig að taka eitt atriði fram: Umbótamenn mega aldrei nema staðar á sinni konunglegu braut til þess að ausa háðglósum og ókvæðisorðum. Þeim ber skylda til að halda áfram af óbifanlegri rósemi hjartans. Umbótamaður, sem lendir í persónulegum illdeilum við flugumenn auðvaldsins, sýnir, að hann metur eigin persónu sína meira en hugsjón sína; m. ö. o.: Hann er veginn og léttvægur fundinn. Umgengni vorri við aðra menn á að vera farið eitthvað á þessa leið. Það er hollt fyrir oss að mæta öllum mönnum með þeim fordómi, að guð af sinni kurteisi sendi þá á veg vorn hvern og einn oss til fróðleiks. Vér eigum ekki að líta svo á sem menn hafi galla, hvorki einn né annar, heldur eigindi eða eiginleika sem geti orðið oss til lærdóms. Ef vér lærum á annað borð að nálgast menn með þessu hugarfari, þá getur hver einstaklingur orðið oss að pólitískum ávinningi. Það er lítill galdur að sitja við fótskör spakra manna og öðlinga. Í hinu er falinn mikill þroski, að geta hlustað. — ekki aðeins fjandskaparlaust, heldur með djúpri vorkunnsemi á heimska menn og illa, er þeir telja fram skoðanir sínar og skýra viðhorf sín. Ber oss að sýna yfirburði vora gagnvart þessu fólki í mýkt og mildi, en einkum forðast að gefa því ákveðnar leiðbeiningar um hegðun og hugarfar; slíkt veldur aðeins nauðsynjalausum ófriði. . . .

Ég vil benda hv. þm. á það, að í tveimur eða þremur ritgerðum H. K. L. er fólgin svo mikil stílsnilld, að þess munu fá dæmi vera og engin á norrænum málum. Þar sem ég efast um, að hv. þm. A.-Húnv. hafi yfirhöfuð lesið nokkuð eftir Laxess, þá býst ég varla við, að hann hafi lesið þessar ritgerðir, því að hv. þm. er ekki svo illa gefinn, að hann mundi tala svona um hluti, sem hann vissi einhver deili á.

Ég geri ráð fyrir, að þessi dæmi, sem ég hefi nú minnzt á nægi til þess að sýna fram á að sú fullyrðing hv. þm. A.-Húnv., að H. K. L. kunni ekki að fara með íslenzkt mál, er ekki á nokkrum rökum reist.

Hv. þm. talaði um það, að það lægi ekkert eftir þetta skáld en samt væri honum skipað á bekk með mönnum, sem mikið lægi eftir, eins og Einari Kvaran og Einari Benediktssyni; en ætli það sé ekki líklegt, að Einar Kvaran hefði náð meiri frægð, ef þjóðin hefði séð sóma sinn í því að láta hann eiga við viðunanleg kjör að búa?

Rök hv. þm. A.-Húnv. eru sleggjudómar út í bláinn, sem ekki hafa við minnstu rök að styðjast. Ég vil benda á það, að það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan hv. Alþingi sá sóma sinn í því að fella till. eins og þessir hv. þm. hafa borið fram, og það er enginn ástæða til að ætla, að viðhorf hv. þm. hafi breytzt að mun síðan.