05.05.1936
Neðri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

40. mál, brúargerðir

*Jón Sigurðsson:

Ég á hér ásamt hv. 2. þm. Skagf. brtt. við þetta frv. Er þar gert ráð fyrir, að teknar verði upp í brúal. 3 brýr. Ein af þessum brúm á að vera á Jökulsá eystri í Austurdal. Sú á er venjulega alls ekki reið fyrr en fram á öræfum, og er því ákaflega mikill farartálmi í þessari að vísu fámennu sveit. Hún hefir ekki verið brúuð enn, aðallega af því, hvað þetta er framarlega, en engu að síður er full þörf fyrir þessa brú, ekki síður en á ýmsum öðrum stöðum, þar sem teknar hafa verið í brúalög brýr, sem eru algerlega í óbyggð. Ég vænti því, að þessi brú hafi fullan rétt á sér og að hv. þdm. geti léð þessari till. fylgi.

Um hinar brýrnar er það að segja, að þær eru talsvert stórar og í sveitum, þar sem mikil er umferð. Þær eru hvortveggja á sýsluvegum, eins og sumar þær brýr, sem nú hafa verið teknar upp. Mér virðist það því vera í fullkomnu samræmi við það, sem gert hefir verið áður á þessu þingi, að lofa þessum brúm að fylgjast með.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Þetta er ljóst og einfalt mál og brýtur ekki í bág við það, sem áður hefir verið gert í þessum málum.