05.05.1936
Neðri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

40. mál, brúargerðir

*Sigurður Einarsson:

Ég flutti snemma á þessu þingi frv. um breyt. á brúal. Litlu síðar kemur samgmn. með þetta frv. og tekur upp eina af þeim brúm, sem ég hafði farið fram á í mínu frv. Ég man ekki betur en þegar um þetta var rætt, þá hefðu fulltrúar samgmn. látið skína í að taka það eitt, sem bráðlægi á, að þær brýr, sem minni þörf væri á, yrðu látnar sitja á hakanum. Þessi svör lét ég mér þá nægja, en nú get ég ekki annað en rekið augun i, að það eru hvorki meira né minna en milli 20 og 30 nýjar brýr, sem hér hafa verið teknar upp í frv., og auk þess liggja hér fyrir till. um fjölda nýrra brúa frá einstökum hv. þm. (PO: Fjórar eða fimm). Það verður þá milli 3. og 4. tugarins, sem á að gleðja landslýðinn með af nýjum brúm. Ég ætla þá að vekja upp með skrifl. brtt. þær brýr, sem ég bar fram frv. um, en n. vildi ekki taka upp. Það er brú á Hvestuvaðal í Dalahreppi og Dufansdalsá í Suðurfjarðahreppi í Barðastrandarsýslu.

Ég hefi að vísu ekki komið að öllum þeim fljótum og ám, sem á að brúa samkv. þessu frv. að brtt., en ég veit, að margar þeirra eru ekki meiri vatnsföll eða verri farartálmi en þessar tvær ár.

Ég hefi áður borið fram till. um að taka þessar brýr upp í brúal., en því var tekið kuldalega og það fært til, að þetta væri órannsakað og ekki um svo miklar torfærur að ræða; en ég vil láta þess getið, að bæði þessi vatnsföll eru á fjölförnum leiðum, og yfir annað þeirra verður að vitja læknis. Hafa menn oft verið þar tepptir og komizt í allmiklar svaðilfarir.

Annars verð ég að segja það, að ef ekki þykir fært að taka þessar hóflegu till. mínar til greina, en frv. hinsvegar svo blásið út, að það er að sjá sem líknarbelgur næfurþunnur — það er svo miklu troðið í það —, þá geri ég ráð fyrir, að ég greiði atkv. á móti frv.