18.04.1936
Efri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

Jón Baldvinsson:

Það er ekki von til þess, að menn séu strax orðnir þaullærðir í hinum nýju þingsköpum, sem eru orðin að lögum fyrir nokkrum dögum og birt hafa verið í Lögbirtingablaðinu 14. apríl, en enn er ekki búið að fella þau inn í hin gömlu þingsköp, svo menn geti áttað sig á þeim í fljótu bragði. 54. gr. gömlu þingskapanna, sem ræðir um afbrigði, hljóðar svo: „Eftir uppástungu forseta eða skriflegri uppástungu frá 3 þm. í Ed., 6 þm. í Nd. og 9 í Sþ. má bregða út af þingsköpum þessum, ef ráðh. eða umboðsmaður hans leyfir og 3/4 þeirra þm., er um það greiða atkv., samþykkja.“ En samkv. 64. gr. nýju þingskapanna á þarna að bætast við: Um stjfrv. eða frv., sem flutt eru fyrir hönd ríkisstj., ræður þó einfaldur meiri hl. — Ég fæ því ekki betur séð en að gerð sé sú undantekning um afbrigði fyrir slíkum frv., að þar ráði einfaldur meiri hl. til hvers sem vera skal.