07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, fjárlög 1937

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér 2 smábrtt. við fjárlfrv., sem ég vildi fara nokkrum orðum um. Sú fyrri er við brtt. frá fjvn., um það, hvernig orða skuli aths. við styrkinn til Búnaðarfélags Íslands. Mér þykir, að með því að orða aths. eins og fjvn. vill að hún verði orðuð, þá sé ríkisvaldið að seilast of mikið til valda í búnaðarfélaginu. Það hefir á síðustu árum staðið í aths. við styrkveitingu, að ríkisstj. ætti að samþ. fjárhagsáætlun félagsins. Þessu hefir verið framfylgt, og verið hið bezta samkomulag um það. Mér þykir sem sagt of langt gengið í till. fjvn., og vil orða aths. þannig: „Enda samþ. landbúnaðarráðh. fjárhagsáætlun félagsins.“ — Þá eru 2 brtt., sem ég á hér ásamt hv. 2. þm. N.-M. og hv. þm. Hafnf. Önnur er á þskj. 601 og er um það að heimila ríkisstjórninni að láta fullgera teikningar og nákvæma kostnaðaráætlun umbyggingu og rekstur áburðarverksmiðju hér á landi. Eins og hv. þm. er kunnugt, lá frv. um þetta fyrir síðasta þingi, og átti að bera frv. um sama efni fram aftur á þessu þingi, en að athuguðu máli var að því horfið að óska heldur eftir svona afgreiðslu á málinu. Einn liðurinn í frv. var það, sem ætlazt er til með þessari till., en það þótti sýnt, að ekki hefði komið til verulegra framkvæmda í málinu fyrr en svo, að heimild um fjárframlög til rekstrarins yrði unnt að afgreiða á næsta þingi, ef niðurstaða rannsóknanna reyndist glæsileg. Ég vil fastlega mælast til þess við hv. þm., að þeir greiði þessari till. atkv. og sjái sér fært að samþ. hana. — Hin till. er á þskj. 550, sem hv. þm. Hafnf. hefir mælt fyrir og ég þarf ekki að fara nánar út í.

Fleiri brtt. á ég ekki við frv. og get því látið máli mínu lokið.