18.04.1936
Efri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

Forseti (EÁrna):

Út af þessu, sem fram hefir komið, vil ég enn á ný taka það fram, að ég viðhafði sömu regluna og alltaf hefir gilt hér í d., og að ég hygg líka í hv. Nd., þegar leitað hefir verið um slík afbrigði sem þessi. Það hefir oft komið fyrir, að þurft hafi að leita tvennskonar afbrigða, bæði leyfis og afbrigða, og hefir það alltaf verið gert hvorttveggja í senn, og aldrei fyrr en nú verið gerð nein aths. við það. Atkvgr. var líka mjög skýr um þetta. — Það er í rauninni ákaflega erfitt að ræða um þær breyt., sem gerðar hafa verið á þingsköpunum, meðan ekki er búið að fella saman nýju þingsköpin við þau eldri. En ég vil taka það fram, að ég hefi skilið 64. gr. nýju þingskapanna eins og hv. 4. landsk., og ég hygg, að þeir, sem stóðu fyrir því að semja þessi nýju þingsköp, hafi einnig litið svo á þetta mál, og við það vil ég miða mína skoðun, meðan ekki reynist annað réttara. En þar sem þess hefir verið óskað, að þetta væri borið upp í tvennu lagi, þó það sé óvenjulegt, þá skal ég gjarnan verða við því. (Rödd af þingbekkjum: Sá, sem þess óskaði, er farinn úr d.). Þá sé ég ekki ástæðu til að breyta neitt út af venjunni, og er þá málið til 1. umr.