22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Reykv. sagði að form frv. væri ekki frambærilegt, þar sem framlengd væru mörg lög og ákvæðum skipað í einn graut. Ég get ekki verið hv. þm. sammála um þetta, því mér finnst það einmitt til bóta að safna framlengingarákvæðum um tolla og skatta í sem allra fæst lög, og það hefir verið reynt að gera svo, og eru nú aðeins tvenn lög — að mig minnir —, sem hafa í sér fólgna framlengingu eldri skattalaga, sem sé þessi, sem hér er um að ræða, og lög um framlengingu verðtolls og bráðabirgðaverðtolls. Um hitt geta verið skiptar skoðanir, hvort eigi að taka lagaákvæðin sjálf orðrétt upp eins og þau eru í upphaflegu lögunum, en það hefir ekki verið síður að gera, svo sem eins og bezt sést á þeirri reglu, sem höfð er um framlengingu verðtollslaganna. Þar hefir ekki verið síður að taka gömlu lögin upp með öllum upptalningum, heldur aðeins framlengd með stuttri málsgr. í hvert skipti. Og hér hefir verið haldið sömu reglunni.

Þá fannst hv. 1. þm. Reykv. einkennilegt, að ég skyldi ekki beita mér fyrir því að koma á skatta- og tollalöggjöf, sem gæti verið til frambúðar. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að þeir tímar, sem nú eru, eru illa til þess fallnir að gera slíkar frambúðarráðstafanir, þar sem þeir verða að teljast — sem betur fer — með öllu óvanalegir, eða það verður maður a. m. k. að vona. Ég sé þess vegna ekki, að það sé réttlát krafa að heimta það af þessari stj., að hún geri þetta, þar sem stj. þær, sem setið hafa að undanförnu á betri tímum, hafa ekki séð sér fært að koma þessu í framkvæmd, og þar á meðal stj. sú, sem þessi hv. þm. studdi á sínum tíma, stj. íhaldsflokksins gamla, frá 1924–1927. Ég held meira að segja, að sú stj. hafi byrjað á því á þeim góðu árum að koma með bráðabirgðaskatta; ég held, að verðtollur hafi þá fyrst komizt á. Þessi gagnrýni hv. þm. hefir því ekki við neitt að styðjast.

Svo ætla ég ekki að eyða fleiri orðum að formshlið þessa máls, en út af efnisatriði, sem hr. 1. þm. Reykv. drap hér á, vil ég fyrst leiðrétta þann misskilning hjá honum, að ég hafi lýst yfir, þegar ég beitti mér fyrir þessari tekjuöflun í fyrra, að hún ætti aðeins að vera til eins árs. Ég vil rifja það upp fyrir hv. þm., að ég sagði þá, að ég gæti búizt við því, að þessi tekjuöflun yrði að fara fram á árinu 1936 og eitthvað lengur, ef ekki rættist úr. Þetta mun hægt að finna í mörgum þingræðum, sem ég hélt í fyrra, þegar þessi lög voru til umr. Það er þess vegna mjög fjarri því, að ég hafi gefið í skyn og því síður lofað, að þessi tekjuöflun ætti aðeins að vera til eins árs. Ég tók það einmitt alltaf fram, að það væri sjálfsagt að búast við því, að þessi lög yrði að framlengja a. m. k. eitt ár í viðbót, ef ekki gerðust einhverjir þeir atburðir, sem bættu stórlega ástandið og tekjuöflunarmöguleikana frá því, sem þá var.

Um hina einstöku liði, sem hv. 1. þm. Reykv. fór lítillega út í, ætla ég ekki að ræða. Við töluðum svo mikið um þetta í fyrra, og þá komu fram öll rök með og á móti því að setja þennan skatt. En ég vil aðeins út af því, sem hv. þm. sagði um benzínskattinn og þá atburði, sem gerðust í sambandi við álagningu hans, taka það fram til leiðréttingar misskilningi hjá hv. þm., að því fór mjög fjarri, að frumhlaup það, sem gert var af hálfu bifreiðarstjóranna hér í bænum, hafi haft nokkur áhrif í þá átt að lækka benzínverðið. Beiðnin um innflutningsleyfi fyrir því benzíni, sem síðar varð til þess að lækka benzínverðið, kom ekki til greina fyrr en allmjög var liðið á verkfallstímann og stóð ekki í neinu sambandi við verkfallið, fyrr en verkfallsmenn notfærðu sér það, að það átti að veita þetta leyfi, til þess að skríða út úr verkfallinu. Þetta er sannleikurinn í þessu máli. Það hefði aldrei komið til mála að neita um innflutningsleyfi fyrir þessu benzíni, ef þær yfirlýsingar, sem fylgdu beiðninni, um að selja benzínið svona ódýrt, hefðu fylgt. Og ástæðan til þess, að þetta blandaðist inn í verkfallið, var engin önnur en sú, að bifreiðarstjórarnir voru að reyna að finna leið til þess að draga sig út úr þessu verkfallsfyrirtæki, sem var að verða þeim til hins mesta tjóns. Þess vegna eru það ekkert nema órökstudd ummæli hjá hv. þm., að þær aðgerðir, sem hafi lækkað benzínverðið, hafi mætt fjandskap frá ríkisstj., því það var þvert á móti ríkisstj., sem beitti sér fyrir því, að þetta leyfi yrði veitt, og það stóð ekki í neinu sambandi við þetta blessað verkfall.