07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög 1937

Jón Sigurðsson:

Ég þarf ekki að vera langorður að þessu sinni. Ég á eina brtt. á þskj. 519 og vildi aðeins segja um hana örfá orð, enda er ekki ástæða til að flytja hér langt mál yfir auðum stólum. Einn af þeim vegum, sem tekinn er nú upp í tölu þjóðvega, er vegurinn frá Fljótum um Stíflu til Ólafsfjarðar. Undanfarin ár hefir sýslusjóður Skagafjarðarsýslu lagt nokkurt fé þarna til vegagerða, í ár að mig minnir 1 þús. kr., sem byggja á framhaldsveg fyrir. Nú þegar þessi vegur er orðinn þjóðvegur, fellur þetta tillag Skagafjarðarsýslu eðlilega niður. Það er þess vegna hart fyrir íbúa þessara sveita, sem eru veglausir að kalla með öllu að þegar ríkissjóður hefir tekið þetta að sér, þá skuli ekkert vera gert.

Þessi litla fjárveiting er ekki annað en tilraun til þess að halda ofurlítið í horfinu því verki, sem unnið hefir verið að á undanförnum árum. Sveitin er ein af beztu landbúnaðarsveitum landsins, en vantar tilfinnanlega samgöngur, því vegir eru þar mjög slæmir. Heyskapur er þar ágætur, og miklir framleiðslumöguleikar, ef hægt væri að koma afurðunum á markað til Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Vænti ég þess, að hv. Alþingi sýni málinu þann skilning og góðvilja að samþ. þessa litlu fjárveitingu.

Ég sé ekki ástæðu, þó tilefni væri til, að ræða aðra liði á þessu stigi.