22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

Magnús Guðmundsson:

Það, sem kom mér til þess að kveða mér hljóðs, voru orð hv. 1. þm. Eyf. Hann sagði, að sífellt á stjórnmálafundum, í blöðum og á Alþingi væri að hálfu sjálfstæðismanna verið að tala um, að þeir bæru fram till. til sparnaðar á fjárl., en að hann hefði aldrei séð neitt í því efni. (BSt: Þetta sagði ég ekki). Jú, þetta var það, sem hann sagði. Ég tók eftir því, að hv. 1. þm. Reykv. svaraði þessu að miklu leyti.

Ég vil minna hv. 1. þm. Eyf. á það, að á Alþingi 1934 báru sjálfstæðismenn fram till. um 700 þús. kr. sparnað á fjárl. við 2. umr. þeirra. Og í fjvn. þá, sem í voru 4 sjálfstæðismenn og 5 stjórnarstuðningsmenn, var það þannig, að ekki hið allra minnsta tillit var tekið til þess, sem sjálfstæðismenn lögðu þar til. Og fjvn. klofnaði þess vegna. Við 2. umr. bárum við fram þessar till., og hefðu þær verið samþ., þá hefði það verið nóg til þess, að hægt hefði verið að afnema útflutningsgjaldið. Af þessu hygg ég, að hv. 1. þm. Eyf. hafi ofmælt það, er hann sagði, að við hefðum ekki komið með neinar sparnaðartill. Þetta voru till., sem við ætluðum að byrja með.

Við vissum vel, að stjórnarflokkarnir héldu þá sameiginlega flokksfundi og gerðu þar út um þessi mál í hverju einasta atriði, og var það ekki borið undir okkur sjálfstæðismenn á nokkurn hátt, hvernig þær ályktanir væru. Þetta hlýtur hv. 1. þm. Eyf. að muna.

Svo kemur þingið 1935. Þá var samvinnan í fjvn. mjög sæmileg. Ég veit ekki vel, af hvaða ástæðum. það var N. kom þá saman um að færa niður útgjaldarliði fjárl. frá því, er í frv. var áætlað eins og það koma frá stj., um ca. 1 millj. kr. Þetta sýndi, að hægt var að færa gjöldin á fjárl. niður. Og ef það var hægt 1935, þá var það einnig hægt 1934. En svo kemur annað í þessu sambandi. Einmitt á meðan gott samkomulag er um þetta í fjvn., að semja um þessa 1 millj. kr. lækkun, þá semja stjórnarflokkarnir sameiginlega um ný útgjöld ríkissjóðs, sem nema nálægt 1 millj. kr. hækkun. Liggur þá mjög nærri að álykta, að þessi samningafýsi til lækkunar útgjöldunum hafi verið af því komin, að stjórnarflokkarnir vissu, að þeir voru að semja um hækkun á útgjaldaliðum fjárl., en að þeir hafi ekki þorað annað en að draga úr á öðrum sviðum á móti því. — Það er því fjarri sanni að segja, að ekki hafi komið fram till. frá sjálfstæðismönnum um sparnað á fjárl.

Það er rétt, að við 3. umr. fjárl. í fyrra komu fram töluverðar hækkunartill. frá einstökum þm. Sjálfstfl. um útgjöld á fjárl. Hvað gerði það til þó að þær kæmu fram, þegar hver maður vissi, að það átti að steindrepa þær allar saman, sem og var gert? Og að ætla sér að fara að reyna að hanga á þessu, það er að grípa í vesala taug. Hvers vegna skyldum við reyna að aftra okkar flokksmönnum að bera fram till. til þess að sýna vilja kjósenda sinna, þegar maður veit, að allt á að drepa, jafnt réttmætar till. sem óréttmætar, ef þær eru frá Sjálfstfl.?

Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr. að öðru leyti en þessu. Ég vildi ekki láta því veru ómótmælt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að við sjálfstæðismenn höfum ekki borið fram lækkunartill við fjárl., svo neinu nemi. (BSt: Ég sagði það aldrei). Ég vona þá, að hv. 1. þm. Eyf. standi upp og segi okkur, hvað hann sagði um þetta.