22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

Magnús Guðmundsson:

Hv. 1. þm. Eyf. sagði. að við sjálfstæðismenn hefðum engar sparnaðartill. borið fram 1935 né 1936. Það er nú fullsnemmt fyrir hann að spá nokkru um það, hvaða sparnaðartill. við berum fram á þessu þingi, enda hafa sjálfstæðismenn í fjvn. áskilið sér rétt til þess að koma fram með slíkar till. Annars er ekki von, að við berum fram sömu sparnaðartill. ár eftir ár, vitandi það, að slíkt er aðeins til þess að eyða fé og tíma þingsins, þar sem fyrirfram er ákveðið af stjórnarliðinu að drepa þær. Annars voru nú sparnaðartill. okkar 1934 ekki vitlausari en svo, að stjórnarflokkarnir gengu inn á sumar þeirra 1935.

Þá sagði þessi hv. þm., að ekki væri rétt hjá mér, að engar fjárlagabreyt. hefðu verið samþ. frá okkur sjálfstæðismönnum við 3. umr. 1935. Ég talaði nú að vísu aðallega um 2. umr. En þær brtt. frá okkur, sem samþ. voru við 3. umr., voru hvorki margar né stórvægilegar. Mér þykir vænt um. að hv. 1. þm. Eyf. skuli hafa viðurkennt það í öðru orðinu, að við sjálfstæðismenn höfum borið fram mikilvægar brtt. til lækkunar á gjöldum ríkisins, en þær verið drepnar af stjórnarliðinu.

Hv. 4. landsk. var að tala um, að lausaskuldir hefðu safnazt 1933. En hann gleymdi að geta um, hvernig fjárl. fyrir það ár voru, en þau voru sett á Alþingi 1932. Hann sagði, að ekki hefði verið hirt um að afla tekna í því skyni. En hann var þó sjálfur í spyrðubandi við stj. 1931–1932, svo að þetta verður að koma á hans eigið bak.

Annars kom sú skoðun stjórnarliðsins vel fram í ræðu hv. 4. landsk., að ekki þurfi annað en að leggja skatta á skatta ofan til þess að leysa öll vandræði. Það er sú eina lausn, sem þessir menn þykjast sjá út úr ógöngunum.