22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 1. þm. Skagf. gengur enn illa að hafa rétt eftir orð mín, og fer mig að gruna, að það sé ekki með öllu ósjálfrátt.Nú segir hann, að ég viðurkenni, að sjálfstæðismenn hafi borið fram veigamiklar sparnaðartill. Ég hefi viðurkennt, að þeir hafa borið fram sparnaðartill., en ég held, að þessu orði framan við sparnaðartill. hafi hann sjálfur bætt við. Þó skal ég játa, að þær sparnaðartill., sem fjvn. bar fram í fyrra, og í henni eiga sjálfstæðismenn vitanlega sæti, voru allveigamiklar, er þetta með viðhafði ég ekki áðan. (MG: Er veigamikill og allveigamikill ekki svipað?). Ég notaði þetta orð ekki áðan. En ég viðurkenni ekki, að sjálfstæðismenn hafi nokkurntíma sérstaklega borið fram veigamiklar sparnaðartill. Þær sparnaðartill., sem fulltrúar þeirra í fjvn. báru fram á haustþinginu 1934, voru um það, að lækka atvinnubótaféð, og hitt var yfirleitt lækkun á áætlunarupphæðum. en það get ég ekki kallað veigamikla till., heldur er slík till. þvert á móti í sjálfu sér alveg þýðingarlaus; það gerir hvorki til né frá, en að því er snertir till. um atvinnubótaféð, þá er þess að geta viðvíkjandi afstöðu Sjálfstfl. sem heildar, að einn sjálfstæðismaður bar fram till. um að hækka atvinnubótaféð um helming, svo að það er vandséð, hver er skoðun flokksins í því máli.

Ég sé ekki ástæðu til þess að karpa við hv. l. þm. Reykv. lengur. — Það stendur fast, sem ég sagði, og hann er alltaf að viðurkenna það, að það, sem nú er verið að gera, framlenging tollalaganna, sem hafa gilt um ákveðinn tíma, er arfur frá löngu liðnum tímum, og þess vegna er sízt ástæða til þess að kenna núv. stj. um það, en hitt er annað mál, og um það erum við sammála, að það væri æskilegt að vinna að því, að þessi siður gæti lagzt niður sem fyrst.