25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Ólafur Thors:

Ég sé ekki, að það leiði til neins í þessu máli, þó farið væri að leiða athygli hv. þm. á ný að ummælum hæstv. fjmrh. við umr. þessa máls í fyrra, en ég hygg, að margir muni minnast þess, að höfuðáherzluna lagði hann á það, að menn skyldu ekki vera að hugsa nema um líðandi stund, láta hverjum degi nægja sínar þjáningar, en vildi minna um hitt ræða, hvort þessar álögur yrðu framlengdar eða ekki.

Ég er ánægður með skilning hæstv. ráðh. á 3. gr. frv., þar sem hann lýsir því yfir, að þessi gr. eigi að þýða það, að annað tveggja gildi um álagningu tekjuskattsins, að hann verði innheimtur með l0% viðaukanum, sem eldri l. gera ráð fyrir, eða eftir hinum nýju skattstiga frá síðasta þingi. Það er með öðrum orðum um aðrahvora þessa leið að ræða, en ekki báðar. Það, sem fyrir mér vakti, var að fá þetta skýrt fram.

Að öðru leyti mun ég verða við tilmælum hæstv. ráðh. um að upplýsa hv. fjhn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, um það, hvernig viðskiptagjaldið lendir beinlínis á þeim vörum, sem notaðar eru við framleiðsluna. Að því er snertir sérstaklega þann þátt framleiðslunnar, sem ég minntist á, togaraútgerðina, þá verður hún að því leyti harðara fyrir barðinu á þessu heldur en aðrar framleiðslugreinar, að talsvert veigamikill þáttur í kaupgreiðslum þessa hl. útvegsins liggur í því að brauðfæða þá menn, sem að útgerðinni vinna, þar sem þeir eru ráðnir upp á frítt fæði auk kaups. Ég skal upplýsa nánar í fjrm. bæði þetta og hvernig þetta gjald leggst á aðrar notaþarfir útvegsins en fæði skipverja.