04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég get látið mér nægja að vera mjög stuttorður, því að málið er gamalkunnugt hér í d. Er bara um það að ræða að framlengja nokkur lagaákvæði, sem afgr. voru á síðasta þingi. Kjarninn í frv. er framlenging á tekju- og eignarskatti og álagningu vörugjalds og bifreiðaskatti.

Á síðasta þingi urðu allmiklar umr. um þessi mál, og var þá gerð grein fyrir því, hvers vegna þessi tekjuöflun væri talin nauðsynleg af stjórnarflokkunum. En þá var ákveðið, að þessi l. skyldu aðeins gilda eitt ár. Þó voru þá þegar nokkrar líkur fyrir því, að framlengja yrði þessa tekjuöflun að meira eða minna leyti. En ég, sem var frsm. allshn. þá, gat þess, að þó að ólíklegt væri, að skjótt rættist úr, virtist stj. réttara að lögfesta ekki þessa tekjuöflun nema fyrir árið 1936. En eins og skýrt var frá á síðasta þingi, er þetta ráðstöfun vegna viðskiptakreppunnar, sem leiddi til minnkunar á aðflutningsgjaldinu, um leið og við urðum að takmarka innflutninginn. Ef innflutningurinn hefði verið óháður höftunum, er líklegt, að hægt hefði verið að fá nægar tekjur í ríkissjóð með hinum vanalega innflutningi, sem áður var, en þar sem gjaldeyrisvandræðin ráku okkur út í nauðsyn þess að takmarka innfluttar vörutegundir til landsins, þá var sýnt, að það myndi hafa í för með sér mikla tekjurýrnun fyrir ríkið. En hinsvegar var nauðsynlegt að halda í horfinu um tekjuöflun ríkisins, til þess að geta haldið uppi verklegum framkvæmdum í landinu og komið á endurbótalöggjöf fyrir alþýðuna, eins og tryggingalöggjöfinni o. s. frv. Nú er það komið á daginn, sem vitanlegt var, að ekki myndi svo rakna úr viðskiptaörðugleikunum, að hægt yrði að draga úr innflutningshöftunum, og eru því miður líkindi til, að þeim verði að beita enn harðar en áður, vegna nauðsynjar ríkissjóðs á því að afla sér tekna 1937, og er því lagt til, að þessi löggjöf sé framlengd enn um eitt ár, sem sett var á síðasta þingi, ásamt nokkurri hækkun á skemmtanaskatti o. s. frv. — Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í frv. né gera fyrir því víðtækari grein, því að eins og það ber með sér, er það óbreytt framlenging á l., sem sumpart hafa gilt um nokkur undanfarin ár og sumpart voru lögfest á síðasta þingi. Þó hefir verið gerð nokkur breyting á ákvæðinu um það, hvernig verja skuli benzínskattinum, og er þó stærstu upphæðinni varið til vega, eins og áður.

Ég vil láa þessi fáu orð nægja til að fylgja frv. úr hlaði. Mælist ég til þess f. h. fjhn., að frv. verði samþ. óbreytt.