04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Jóhann Jósefsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við frv., samskonar og ég flutti á síðasta þingi. Þegar benzínskatturinn var settur á, var gerð sú yfirbót, liggur mér við að segja, að heitið var, að þessum skattauka skyldi varið til lagningar akvega og malbikaðra þjóðvega, eins og sagt var þá í frv., og eru ákvæðin í þessu frv. hliðstæð því. Ég sýndi fram á það á síðasta þingi, að einu kjördæmi landsins er þannig í sveit komið, ef þannig mætti að orði komast, að það getur ekki notið þessara hlunninda, sem frv. gerir ráð fyrir. Mælir því öll sanngirni með því, að þetta kjördæmi, Vestmannaeyjar, fái að njóta skattaukans að einhverju leyti til endurbóta á sínum vegum. Liggur í augum uppi, að Vestmannaeyjar eiga líka heimtingu á þeim hlunnindum, sem stj. býður öllum landsmönnum, um leið og hún hækkar skattinn. Í Eyjum eru nú um 50–60 bifreiðar, sem notaðar eru mjög til fiskflutninga, heyflutninga, við byggingar o. s. frv. Benzíneyðsla er þar því allmikil. Ég sýndi fram á það á síðasta þingi, að þessi skattauki myndi í Eyjum nema 6000 kr., lágt reiknað. Ég held, að það hafi verið misskilningi að kenna, að till. mín var þá felld. Ber ég því nú fram samskonar brtt. og treysti því, að hv. d. fallist á að láta þetta kjördæmi njóta sömu réttinda og önnur.