04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það vildi svo óheppilega til, að fjhn. gat ekki, vegna þingunna, afgr. þetta mál á venjulegan hátt, þ. e. með fundi, þar sem ákvæði þessa frv. væru borin saman við gildandi l., svo að hægt væri að ganga úr skugga um, að í þessum l. stæði ekki annað en það, sem til var ætlazt, að þar stæði. Fjhn. hefir afgr. málið í flýti utan fundar, af því að form. n. rak svo mikið á eftir því fyrir tilmæli hæstv. fjmrh., og við sjálfstæðismennirnir í n., sem erum andstæðir frv., sáum þó ekki ástæðu til þess að tefja málið með því að krefjast reglulegs nefndarfundar, þar sem liðið er að þinglokum og talsvert enn óunnið af þingstörfum.

Ég hafði ætlað mér að leggja fyrir n. skjöl og skilríki fyrir því, að í ákvæðum frv., sem fjalla um viðskiptagjaldið, fælust þungar skattaálögur á framleiðsluna. Ég hafði aflað mér skýrslna um þetta frá útgerðarfyrirtækjum, þar sem tilgreindur eru 30–40 vörutegundir, sem notaðar eru til útgerðarinnar og þessi skattur leggst á með miklum þunga. Þessar skýrslur gat ég ekki lagt fram í n., og verð ég því að láta mér nægja að segja frá þessu hér, og ætti það að nægja þeim, sem vilja taka það til greina, en þetta get ég sannað. Ég hika því ekki við að endurtaka það, að auk þess sem viðskiptagjaldið leggst beint á þær fæðutegundir, sem útgerðin verður að láta sjómömmm í té, þá kemur það einnig niður á mörgum vörum, sem notaðar eru við framleiðsluna og óbeint í hennar þágu. Af þessum ástæðum, og einnig hinum, að frá sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna hvíla nú þegar svo þungir skattar á þjóðinni, að ekki er fært að auka við, þá höfum við hv. þm. V.-Sk. lagt á móti því, að þetta viðskiptagjald yrði samþ. Sama gildir að því er snertir ákvæði frv. um hækkun á tekju- og eignarskattinum. N hefir það komið í ljós, að það, sem hæstv. stj. hefir sagt, að þessi skattauki kæmi eingöngu niður á hinum efnaðri borgurum, hefir við engin rök að styðjast. Það er nú skjallega sannað, að það er rétt, sem við sjálfstæðismenn höfum haldið fram, að þessi skattauki leggst fyrst og fremst notaþarfir almennings í landinu og á framleiðsluna.

Þessar skjallegu sannanir er að finna í frv. og nál. mþn., sem skipuð var 2. des. 1935 til þess að gera till. um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga, en í þessari n. störfuðu alþm. Jónas Guðmundsson, Bernharð Stefánsson og Magnús Guðmundsson, eins og kunnugt er. Í þessu frv. er, vegna tekjubrests hjá sveitar- og bæjarfélögum, fyrst og fremst farið fram á, að sveitir og bæir megi leggja vörugjald á notaþarfir almennings. En ef ríkissjóður hefði ekki með þessum nýju skattaukum seilzt svo djúpt í vasa þeirra skattborgara, sem hafa meðaltekjur og minna en það, þá hefðu sveitar- og bæjarsjóðir getað tekið þessa skattstofna í sínar þarfir og ekki þurft að biðja um nýja skatta af notaþörfum almennings. — Við sjálfstæðismenn erum mótfallnir einstökum atriðum þessa frv. og frv. í heild, og munum greiða atkv. gegn því, af þeim ástæðum, sem ég nú hefi greint. Og auk þess skilur algerlega á milli okkar og stjórnarliðsins um það, hvaða leiðir skuli fara til þess að rétta við atvinnuvegina. Við lítum svo á, að kreppa atvinnulífsins eigi aðalrætur sínar að rekja til þess, að núv. valdhafar hafa lagt of þung gjöld á gjaldþegna þjóðfélagsins, og þá sérstaklega atvinnuvegina. Það eru þessir þungu skattar, sem nú eru búnir að sliga sjávarútveginn og valda því þar með, að atvinnuleysið fer vaxandi í landinu. Við lítum svo á, að leiðin til þess að draga úr atvinnuleysinu og stöðva hrun atvinnuveganna sé ekki sú, að þyngja skattana, heldur létta þá. Við höfum því borið fram á þessu þingi till. um að létta sköttum af atvinnuvegunum, svo sem um afnám útflutningsgjalds af sjávarafurðum.

Stjórnarflokkarnir líta aftur á móti svo á, að til þess að ráða bót á atvinnuleysinu eigi ríkið að auka sínar framkvæmdir og taka á sína arma það, sem einstaklingarnir fá ekki undir risið. Það eru þessi tvö sjónarmið, sem flokkarnir hafa glímt um hér á Alþingi síðastl. 10 ár, og það er hið síðara, sem orðið hefir ofan á lengst af á þessu tímabili, með þeim árangri, að ástandið hefir farið stórum versnandi með hverju ári. Við sjálfstæðismenn verðum náttúrlega að una því, þangað til þjóðin hefir fengið fullan skilning á því, hvert stefnir, og tileinkað sér okkar málstað og fengið okkur meirihlutaaðstöðu við almennar kosningar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. En ég vil þó að lokum minna á þau orð, sem fóru á milli mín og hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls. Ég beindi þá til hans fyrirspurn um það, hvort beita mætti bæði þeirri skatthækkun, sem hér er fyrirhuguð, og 10% hækkuninni á tekjuskattinum, er verið hefir í gildi, eða aðeins öðruhoru. (Fjmrh.: Einungis öðruhvoru). Hæstv. ráðh. grípur nú aftur fram í fyrir mér og staðfestir það, sem hann áður sagði. Ég vil leggja áherzlu á að fá þetta staðfest, því mér skilst, að eftir frv. gæti verið heimilt að beita hvorutveggja ákvæðinu. En ég geri mig ánægðan með þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh.. Hún er tvímælalaus og skjalfest við báðar umr., er fram hafa farið um þetta mál, og getur því ekki orkað tvímælis eftir á.