25.02.1936
Neðri deild: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Flm. (Sigurður Einarsson):

Þetta frv., sem ég flyt hér, er í nokkrum verulegum atriðum samhljóða frv. því, sem fyrir lá á síðasta Alþingi og við alþýðuflokksmenn fluttum þá. Efni frv. er því hv. þdm. nokkurnveginn kunnugt. Sú breyt. er þó gerð á frá því, sem var í frv. okkar í fyrra, að í 1. gr. þessa frv. er ekki gert ráð fyrir, að endilega þurfi að stofna garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi, heldur einhverjum öðrum jarðhitastað, sem jafnhentugur kynni að þykja.

Í 2. og 3. gr. frv. eru nokkur ákvæði um það, hvað leggja skuli skólanum til.

4 gr. fjallar um fræðslu þá, sem skólinn á að veita, og er gert ráð fyrir því, að hún sé bæði verkleg og bókleg. Þar er ennfremur ákveðið, að skólinn skuli útskrifa fullmenntaða garðyrkjumenn, sambærilega við það, sem tíðkast í garðyrkjuskólum á Norðurlöndum. Skal námstíminn þó ekki vera lengri en 3 ár, en það er nokkuð skemmri tími heldur en gerist á Norðurlöndum. En ég hefi samt sem áður, eftir að hafa talað við fróða menn um þessa hluti, sem kunnugir eru okkar staðháttum, sannfærzt um, að ekki sé nauðsynlegt að binda þennan námstíma við meira en 3 ár.

Þá er svo ákveðið, að nemendur fái ókeypis húsnæði og kennslu í skólanum, en greiðsla fyrir fæði fari eftir ákvæðum, sem síðar verði sett, og skal þá miðað við allar ástæður og hvað kostnaðurinn sýnir sig að verða.

Loks eru ákvæði um það, að landbrn. skuli hafa á hendi yfirstjórn garðyrkjuskólans, og að kostnaður við stofnun hans skuli greiðast úr ríkissjóði.

Það kom allgreinilega fram við umr. þessa máls í fyrra um bæði frv., sem fyrir lágu, að það var ekki deilt um nauðsyn þess að koma slíkum skóla á fót. En bæði frv. áttu það sammerkt, að með þeim var ekki fyrirhugað að útskrifa fullfæra garðyrkjumenn, heldur aðeins menn, sem fengið hefðu nokkra fræðslu í garðyrkjustörfum umfram almenning. Og vafalaust mundi sú fræðsla hafa getað komið að miklum notum. En við nánari athugun virðist ástæðulaust að taka ekki skrefið til fulls og fullmennta menn á þessu sviði, ef á annað borð er horfið að því ráði að stofna garðyrkjuskóla. Slíkur skóli sem um var rætt í fyrra mundi ekki verða neitt ódýrari í stofnun né rekstri heldur en fullkominn garðyrkjuskóli, sem ætlað væri að útskrifa fullfæra garðyrkjumenn.

Ég hefi tekið þetta upp af því, að ég hefi þá trú, að garðyrkjan geti orðið eins lífvænleg atvinnugrein eins og hver önnur tegund ísl. landbúnaðar, ef hún er stunduð við sæmileg skilyrði af mönnum, sem þekkingu hafa á því sviði. Og enn er langt frá því. að svo mikið sé framleitt af garðávöxtum og nytjajurtum, að eðlilegri þörf landsmanna sé fullnægt, svo þar má bæta miklum starfskröftum við, áður en þeim er ofaukið.

Ég vil svo mælast til þess, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til landbn.