21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Bjarni Bjarnason:

Á síðasta þingi komu fram 2 frv. um garðyrkjuskóla ríkisins. Annað var flutt af nokkrum jafnaðarmönnum, en hitt af hv. 1. þm. Árn. og mér. Nú er komið fram frv. um þetta efni, nú flutt af hálfu jafnaðarmanna, en aðeins af hv. 9. landsk. Við, sem fluttum hitt frv. í fyrra, sáum ekki ástæðu til að fara í neitt kapphlaup um að leggja þetta frv. fram aftur. En við væntum þess hinsvegar, að landbn. mundi taka málið til athugunar og taka til hliðsjónar bæði í frv., sem lágu fyrir síðasta þingi. Og sú varð líka raunin á. Till. landbn. stefna mjög í þá átt, sem frv. okkar samþm. míns var á síðasta þingi. Með hliðsjón af því mun ég geta fallizt á afgreiðslu þessa máls á þeim grundvelli, sem landbm. hefir lagt til, að það verði samþ.