05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er að vísu svo, að landbn. hefir ekki haft ríflegan tíma til að athuga þetta mál, því að það hefir verið meginhluta þingtímans í hv. Nd. En n. hefir nú samt farið yfir frv., og ekki orðið þess vör, að það þyrfti að gera á því breyt., sem verulegu máli skipu. En meiri hl. n. telur það svo mikilsvert mál að útbreiða fræðslu meðal landsmanna í garðyrkju, að hann vill flýta fyrir afgreiðslu frv., svo að skólahugmyndinni verði komið sem fyrst í framkvæmd.

Þegar þrengingatímar gang, yfir þjóðina, eins og nú á sér stað, þá fara menn að leita ýmsra úrræða og atvinnumöguleika, sem lítil rækt hefir verið lögð við áður, og svo er um garðræktina. Það er ætlazt til þess, að garðyrkjuskólinn verði rekinn á Reykjum í Ölfusi. Þar eru góð skilyrði vegna jarðhita, og ríkið á þá jörð. — N. óskar þó eftir, að það verði tekið til athugunar, hversu fáir hafa aðstöðu til þess að reka garðyrkju á jarðhitasvæðum; þess vegna þarf ekki síður að kenna fólkinu að rækta garðávexti í köldum jarðvegi. Og það hefir sýnt sig hér í Reykjavík og víðar um land, þar sem eru tiltölulega litlar garðholur í köldum og grýttum jarðvegi, að þar er hægt að fá góðan árangur, og hefir garðræktin tekizt þar prýðisvel. Ef garðarnir eru hirtir með kostgæfni og nákvæmni, þá geta þeir gefið ótrúlega góða uppskeru.

Það má vel vera, að ekki sé hægt í öllum ár- um að stunda garðrækt, og þá sérstaklega jarðeplarækt, í sumum landshlutum, t. d. á Norðurlandi og norðvesturlandi. En þrátt fyrir það er þetta mikið nauðsynjamál, og vil ég benda hv. þdm. á, að frv. þarf að komast fram á þessu þingi, enda er það nú hér til 2. umr. Það er ætlazt til þess, að skólinn verði kostaður af ríkissjóði, þar verði gerðar ýmiskonar tilraunir í garðyrkju, enda er að sjálfsögðu mikið órannsakað á því sviði hér á landi, hvaða garðávextir þrífast hér bezt og undir hvaða skilyrðum.

Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþ. En ég vil geta þess, að hv. 2. þm. Rang. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og mun hann sjálfur skýra frá því, ef honum þykir þörf til.