05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vildi aðeins gera lítilsháttar aths. við það, sem hv. 10. landsk. sagði um skilyrði til jarðyrkju á Reykjum í Ölfusi. (ÞBr: Kartöfluræktar). Já, meðal annars. Þetta kemur mér mjög á óvart, ekki sízt vegna þess, að þegar þetta frv. var undirbúið í fyrra af þeim Steingrími Steinþórssyni búnaðarmálastjóra og Sigurði Sigurðssyni fyrrv. búnaðarmálastjóra, þá mæltu þeir mjög með þessum stað fyrir garðyrkjuskólann og töldu hann heppilega valinn. — Sigurður Sigurðsson vann einmitt að undirbúningi þessa frv. í fyrra og benti á þennan stað fyrir skólann; nú er þessi sami maður borinn fyrir því, að staðurinn sé óhæfur. Ég held, að það sé ekki mikið upp úr þessu að leggja, og býst við, að ummæli Sigurðar Sigurðssonar vegi salt, fyrst hann segir sitt á hvað um staðinn, — mælir með honum við undirbúning frv., en telur hann svo óhæfan nú í viðtali við allshn. Við garðyrkjustjórann hefi ég ekki átt tal um þetta.

Út af því, sem hv. þm. sagði um jarðveginn og moldina, þá vil ég benda honum á, að hún er misjöfn í dalnum. Sá jarðvegur, sem myndazt hefir af framburði árinnar, og það land, sem er neðan við ána, er mun lakara en hitt. — En á það má benda, að einmitt þessi maður, Sigurður Sigurðsson, sem þekkir þar vel til og er manna kunnast um jarðveg víðsvegar um landið, hann hefir valið sér og syni sínum þennam stað til þess að rækta þar ýmiskonar garðjurtir. Sigurður hefir sjálfur fengið blett þeim megin við ána, sem garðyrkjuskólinn verður væntanlega rekinn, af því hann taldi sér það nauðsynlegt vegna þess, hvað jarðvegurinn væri þar góður. Svo að þetta virðist stangast alleinkennilega við þau ummæli, er hv. 10. landsk. flytur eftir honum. Á Reykjum hafa ætíð verið bæði kartöflugarðar og rófugarðar og þrifizt vel, svo að eigi hefir verið undan því kvartað. Enda verður ekki um það deilt, að skilyrðin eru hin sömu og Sigurður Sigurðsson benti á, þegar hann undirbjó frv., og taldi hann þau þá mjög góð á þeim stað, sem ríkið á, en það land, sem hann hefði sjálfur, væri rýr- ara, þó að uppskeran hefði reynzt þar góð nú haust eftir haust. — Staðurinn er einnig valinn með tilliti til þess, að þar eru viðlíka skilyrði í kaldri mold eins og þau eru bezt annarsstaðar á landinu. Þar er heit jörð, og þess vegna hægt að sameina kennsluna bæði í kaldri og heitri mold. Í öðru lagi er á Reykjum ýmiskonar undirbúningur fyrir, svo að það kostar miklu minna fé fyrir ríkið að koma á fullkomnum garðyrkjuskóla þar en á ýmsum öðrum stöðum.

Í þriðja lagi eru Reykir tiltölulega nálægt þeim stöðum, þar sem markaður er beztur fyrir þessar afurðir, og líklegt, að skólinn geti borið sig með mjög litlum kostnaði, eða jafnvel engum, einmitt vegna þess.

Ég skal aðeins geta þess, að mikið hefir verið rætt um Laugarvatn í þessu sambandi. En það hefir einmitt verið bent á það af Sigurði Sigurðssyni fyrrv. búnaðarmálastjóra og fleirum, sem hafa reynslu af þessum stað, að hann liggi of hátt, og að haustkuldarnir komi þar of snemma, til þess að hægt sé að hafa skólann þar.

Ég held því að öllu samanlögðu, þá geti menn verið sammála um það, að því betur sem þessi staður er athugaður, því betur komi það í ljós, að ekki sé völ á betri stað að öllu samanlögðu en einmitt þessum.