07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Magnús Jónsson:

Ég verð að segja það, að ég er alveg undrandi yfir því, að þetta mál skuli ekki hafa vakið meiri ágreining hér í þessari hv. d. en raun er á, þó að þetta sé í rauninni ekkert stórmál. En mér finnst það einkennilegt að fara út í það, eins og nú stendur á, að stofna nýjan skóla einmitt í þeirri grein, sem mætti sjá fyrir í sambandi við þá skóla, sem fyrir eru í landinu. Og þar við bætist svo það, að mér finnst ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um þetta mál. Því hefir verið breytt nokkuð frá því, sem það var upphaflega borið fram, en hvorki í grg. frv. né heldur nál. hafa komið fram neinar áætlanir um það, hvað svona skólahald muni kosta, og því síður ástæður fyrir því, að ekki sé hægt með góðu móti að koma þessari kennslu fyrir í sambandi við búnaðarskólana. Mér finnst, að þegar meta á þá fræðslu, sem fram fer í garðyrkjuskólum, þá sé um tvö ólík atriði að ræða, annarsvegar það garðyrkjunám, sem gerir menn svo og svo lærða í þeim efnum og hæfa til þess að stunda garðyrkju sem sitt æfistarf, — og ég gæti hugsað mér, að heppilegt væri, að slíkt nám færi einmitt fram á Reykjum eða öðrum heitum stað, þar sem hægt er að reka garðyrkju í stórum stíl með jarðhita — en hinsvegar er aftur það garðyrkjunám, sem allir geta haft gott af, þó að þeir ætli sér engan veginn að leggja fyrir sig garðyrkju sem sitt aðalstarf. Það er ákaflega þarft og gott, ekki aðeins fyrir sveitamenn, heldur líka kaupstaðamenn, að vera vel að sér í almennri garðyrkju, en mér finnst, að slík fræðsla þyrfti alls ekki að fara fram á heitum stað, heldur miklu frekar á köldum stað, þ. e. a. s. undir þeim skilyrðum. sem allur fjöldi landsmanna verður að búa við. Það er þessi síðartalda tegund af garðyrkjunámi, sem mér finnst miklu meira virði í sjálfu sér, og mér finnst það liggja í augum uppi, að sjálfsagt sé að hafa slíkt nám í sambandi við búnaðarskólana, enda er gert ráð fyrir því í l. um búnaðarskóla frá 1930, en að vísu mjög lauslega. En í reglugerðum um búnaðarskóla virðist þetta hafa fallið niður, að það ætti að fara fram garðyrkjunám við skólana. Það þyrfti því kannske að breyta þessu eitthvað, því það er enginn vafi á því, að svo framarlega sem það er meiningin að koma þekkingu á almennri garðyrkju sem mest inn á heimilin, þá er langódýrast og hentugast að koma þeirri fræðslu fyrir við búnaðarskólana. Þar hljóta að jafnaði að vera fyrir kennarar, sem annaðhvort eru vel að sér í slíkum fræðum eða geta fljótlega kynnt sér þau. (JBald: Því er verið að hafa sérskóla fyrir presta?). Ég veit það hinsvegar, að ef á að koma upp fjölmennri garðyrkjumannastétt, þá er ástæða til að hafa sérskóla, og þá kannske einmitt í sambandi við jarðhita. Og þetta dæmi, sem hv. 4. landsk. skaut inn, er alveg hliðstætt því, að það er mjög mikið sérnám, sem hér er um að ræða, og aðrir skólar á landinu geta ekki tekið það að sér, nema með því að hafa sína sérfræðinga. Ég vil þess vegna leyfa mér að bera fram svo hljóðandi till. til rökst. dagskrár:

„Með því að ekki liggja fyrir neinar fullnægjandi áætlanir um kostnað við garðyrkjuskóla, og með því að eðlilegra virðist og sennilega ódýrara að koma þessari fræðslu fyrir við búnaðarskólana, felur d. stj. að gera frekari athuganir á málinu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“