04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Jón Sigurðsson:

Það er nokkuð síðan hv. frsm. þessa máls flutti sína síðustu ræðu, og ég er búinn að týna einu og öðru af því, sem ég ætlaði að segja. Hann minntist á það, að það væru aðeins 300 jarðir á landinu í sjálfsábúð, sem gætu komið undir óðalsréttarlögin. Ég hefi ekki rannsakað þetta, en ég tek orð hans trúanleg um þetta, og sýnir þetta greinilega, hvernig haldið hefir verið á málefnum bænda í þessu efni. Það er gengið þannig frá þessu, að það eru aðeins 300 bændur á landinu, sem geta notfært sér þetta, enda þótt meiri hl. af. bændum landsins séu sjálfseignarbændur. Ákvæðin í þessari löggjöf eru svo ströng, að það er aðeins þessi fámenni hópur, sem fellur undir þessa löggjöf; það er ekkert tekið tillit til þess, hvernig hag manna er komið að öðru leyti. Það er álitið sama, hvort skuldir viðkomandi bónda hvíla á jörð hans að öllu leyti eða aðeins að örlitlu leyti, og hann ber svo og svo mikið af lausum skuldum, sem gætu verið jafnþungbærar eða jafnvel þungbærari. Auk þess er þetta ekki aðeins komið undir skuldaupphæðinni, heldur líka dugnaði mannanna og ýmsu öðru, sem vitanlega getur komið til greina í þessu sambandi.

Þetta veit ég að sjálfstæðismenn í n. reyndu að fá lagfært, en vegna andstöðu þessa hv. þm. og fleiri manna tókst það ekki, og ég veit, að þetta var gert með ráðnum hug til þess að útiloka sem allra flesta af sjálfseignarbændum frá því að geta komizt undir þessi ákvæði l. Nú hefir nokkur hl. n. flutt frv. um það að losa allmarga sjálfseignarbændur við jarðir sínar. Þetta er náttúrlega ekki annað en það, sem maður vissi fyrirfram, því að það, sem hér er að gerast, er í raun og veru aðeins einn liðurinn í þeim samningi, sem gerður var í tíð stjórnarmyndunarinnar. Markmiðið er að reyna að koma sem flestum jörðum í leiguliðaábúð og eign ríkisins. Annars tel ég það lítinn drengskap gagnvart íslenzkri bændastétt, að leggja slíkt kapp á að ná jörðunum af bændum, einmitt þegar verst gegnir. Ég hefði talið það meiri drengskap af hálfu þessara hv. þm., að þeir reyndu að styðja að því, að bændur yrðu þess megnugir að halda jörðum sínum, því að það er vitanlega sprottið af örðugum kringumstæðum og erfiðri fjárhagsafkomu, að þær óskir kona fram, að ríkið kaupi jarðir af sjálfseignarbændum. Það hefði vafalaust orðið töluverð leit að þeim sjálfseignarbændum, sem óskuðu eftir þessu á árunum 1927–1930, og þótt þessu verði komið í kring, þá er það víst, að jafnskjótt og hagur bænda kemst aftur í viðunanlegt horf, þá rís aftur upp ný alda um það frá þessum sömu mönnum að fá þessar sömu jarðir keyptar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að því er einu sinni þannig farið, að bændur óska fyrst og fremst eftir því að geta átt jarðir sínar sjálfir og ráðið yfir þeim. Yfirleitt finnst mér ekki verða vart við viðleitni hjá þessum mönnum, sem vilja koma jörðunum undir ríkið, til þess að styðja að bættri afkomu bænda, og yfirleitt finnst mér þeim svipa til ákveðins stjórnmálaflokks, sem telur það sína stefnuskrá að eyðileggja allan atvinnurekstur til þess að geta komið sínum málum í framkvæmd. Hér er að vísu ekki gengið eins langt, en það er ekki hirt um það, þótt allt stefni meira og meira að því marki að fara í rústir. Auk þess er gengið út frá því að taka hér stóran sjóð, sem lögum samkvæmt á að hafa það hlutverk að láta vexti sína ganga til prestlaunasjóðs, og loks á að taka nokkuð af tekjum ræktunarsjóðs. Það er kunnugt, hvernig ástæður þess sjóðs eru; þær eru vissulega ekki svo glæsilegar, að heppilegt sé að skerða tekjur hans. Því að það er vitanlegt, að það er margt, eins og t. d. bygging á jörðum, sem bændum er knýjandi nauðsyn að koma í framkvæmd, en þeir geta ekki fengið lán til þess, nema helzt úr ræktunarsjóði. Hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, virðast hafa verið frekar einhliða í skoðunum sínum í þessum efnum. Þeir hafa ekki séð annað en það, að nauðsynlegt væri að koma jörðunum undir ríkið, en um hitt hafa þeir ekki viljað hugsa, að reyna að styðja að því að þær væru í sjálfsábúð, og að leiguliðar gætu fengið jarðir sínar keyptar; það virðist vera þeim þyrnir í augum.

Ég ætla ekki að fara út í einstakar gr. frv., þar sem þetta er 1. umr. En benda má á, að hér mun vera í uppsiglingu nýtt embætti, sem n. hugsar sér að stofna; er það ekki nema eðlilegt og í samræmi við annað. Það er sjálfsagt einhver, sem vantar feitan bita.