21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

99. mál, jarðakaup ríkisins

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti!: Hv. 7. landsk. var að tala um það, að mínar tölur væru oft óábyggilegar. Þetta hefir áður komið fram hér í þingi, en ég hefi aldrei svarað því neinn. Það er alltaf vitnað í þennan ágreining, sem varð milli Þóris á Hvanneyri og mín um það, hvað þyrfti að gefa kúm mikið. og byggði á reynslunni, en hann á útreikningum. Ég ætla ekki nú að gera neitt upp á milli okkar hvað þetta snertir, en við skulum bara bíða dálítið ennþá. Það er verið að rannsaka meltanlegleika töðunnar, og við skulum sjá, hvort þær niðurstöður geta ekki eitthvað skýrt þetta mál. Hv. þm. G.-K., sem raunar hefir af þeim hv. stjórnarandstæðingum hér í d., sem um þetta mál hafa talað, talað af langsamlega mestum skilningi, honum var ljóst, að það er betra fyrir bóndann sjálfan fjárhagslega að búa á jörð eftir óðalsréttarskipulaginu heldur en að þurfa að kaupa hana. En hann sagði jafnframt, að það lægi annar hlutur þarna á bak við, sem ég hefði ekki litið á, og hefði engan skilning á um, það væri ástin á landinu, sem myndaðist hjá bændunum við eignarréttinn. Ég skal ekkert fara að rannsaka hjörtu og nýru um það, hvor okkar hefir meiri þekkingu á aðstöðu bænda og meiri skilning á kjörum þeirra. En benda vil ég hv. þm. á það, að erfðaábúðin er nokkurnveginn það sama og eignarréttur. Eini munurinn er sá, og ég skil vel, að þessi hv. þm. sem kaupsýslumaður sjái þann mun í stóru ljósi; hann er sá, að erfðafesturétturinn gefur ekki rétt til að selja jarðirnar með stígandi verði, eins og eignarrétturinn. Erfðafesturétturinn veitir ekki þetta, en að öllu öðru veitir hann það sama og eignarrétturinn. Og ef það er bara þessi gróðavon, von í hækkandi jarðarverði, sem gefur íslenzka bóndanum ást á landinu, þá blæs ég á þá ást, þá er hún einskis virði. Ef hún er ekki sprottin af öðru en því að geta selt jörðina eftir 10–20 ár og geta grætt eitthvað á henni, en ekki hitt, að menn ætli hana handa sínum ættmönnum, þá er þessi ást einskis virði (JS: Hvers vegna hamaðist hv. þm. móti óðalsréttarfrv. í fyrra?). Ég skal benda á það, að árið l932 og aftur 1933 flutti hv. þm. S.-Þ. í Ed. frv. til l. um byggingu jarða, sem eru almannaeign. 10. gr. þess frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir afgjald þeirra jarða, sem byggðar eru eftir 1. þessum. skal árlega kaupa jarðir, sem bjóðast, en þó aldrei fyrir hærra verð en fasteignamatsverð.“

Þessi gr. nefnds frv. sýnir, að stefna form. Framafl. er sú sama í þessu máli þegar á árinu 1932 eins og hún nú er. Þess vegna hygg ég, að ég fari með algerlega rétt mál, þegar ég sagði, að Framsfl. vildi vinna að framgangi þessa máls á þessum grundvelli, áður en hann myndaði stjórn með sósíalistum. Hvort allur flokkurinn hefir viljað þetta, skal ég láta ósagt, og líka það, hvort allur flokkurinn vill það enn. Úti á meðal bænda er a. m. k. mikill ágreiningur um þetta án tillits til flokkaskipunar. Ég vil að lokum undirstrika það, sem ég áður hefi sagt, og benda sjálfstæðismönnum og þó einkum hv. 5. þm. Reykv. á það í tilefni af því, sem hann skaut hér fram í, að í l. um erfðaábúð og óðalsrétt, sem sett voru á síðasta þingi, er ákvæði um, að jarðir, sem byggðar eru í erfðaábúð, megi selja, séu þær gerðar að ættaróðali. Því er það, að svo framarlega, sem þeir hafa trú á þessu óðalsréttarfyrirkomulagi, og þegar þeir nú sjá, að ástandið er þannig, að jarðirnar verða teknar af mönnum, ef ekkert er gert. og hér er gerð tilraun til að reyna að bjarga þeim á þennan hátt, þá ber þeim skylda til að vera með frumv., svo mennirnir síðar geti byggt þær og gert að ættaróðali. Verði þeir það ekki, þá trúa þeir ekki á ættaróðulin og ábúð á þeim En atkvgr. sýnir nú trú þeirra.