07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög 1937

*Jóhann Jósefsson:

Ég hefi áður mælt fyrir flestum brtt., sem ég hefi leyft mér að bera fram, en á þskj. 547, sem útbýtt hefir verið síðan. á ég tvær litlar till. Sú fyrri er við brtt. á þskj. 519,XXIV, um styrk til lesstofu sjómanna í Vestmannaeyjum. Ég vil veita þennan styrk til sjómannalesstofu K. F. U. M. í Eyjum, því að ég tel hana maklega nokkurrar viðurkenningar. Hún hefir starfað nú um mörg ár við mikla aðsókn og haft nokkurn stuðning af bæjarfélaginu. Hefir stofan verið öllum opin án tillits til þess, hvaða félagsskap menn tilheyrðu. Nú eru tvö sjómannafélög í Eyjum, og auk þess er mikill fjöldi sjómanna, sem í engu félagi eru, en allt þetta fólk hefir aðgang að lesstofunni. Er sjálfsagt að styrkja þessa stofu sem gott hæli fyrir menn, sem eru að miklu leyti heimilislausir á vertíðum.

Þá hefi ég borið fram brtt. á sama þskj. XXIII, nýr liður, um að heimila stj. að verja helmingi þess skemmtanaskatts, er til fellur í Vestmannaeyjum, til styrktar íþróttafélögunum þar, enda verji þau fénu til útbúnings nýs íþróttavallar og leggi sjálf fram jafnmikið fé í sama augnamiði. Það eru ekki litlir peningar, sem koma inn í skemmtanaskatt í Vestmannaeyjum á ári hverju. Mikið af þessum skemmtunum er þannig, að vafasamt er, að æskulýðurinn hafi gagn af að sækja þær. Verður því þessu fé tæplega betur varið með öðru en því að styðja með því í þá starfsemi, leiki, íþróttir og annað, sem er unglingunum til verulegrar uppbyggingar. Ég er viss um, að hv. þm. eru sannfærðir um, að útiíþróttir eru einna hollastar af því, sem í boði er til skemmtunar nú á tímum. Íþróttafélögin í Vestmannaeyjum eru nú þrjú. Hafa þau sýnt, að þau eru ekki eftirbátar annara um að þjálfa sína menn í íþróttum, og eru þau því alls góðs makleg. Bæjarfélagið hefir nú styrkt félögin nokkuð undanfarin ár og meðal annars séð þeim fyrir ágætu landi til útiíþrótta, og með tilliti til þess, að íþróttavellir þessir geti orðið sem prýðilegastir, ber ég fram þessa till.

Nú liggja hér fyrir stærri og veigameiri till. en þessi, en ég skal ekki þreyta hv. þm. með því að ræða um þær langt mál. Þó kemst ég ekki hjá því að minnast á nokkrar þeirra, og er þá fyrst till. okkar hv. þm. N.-Ísf. og hv. 6. þm. Reykv., sem hæstv. fjmrh. talaði nokkuð um, en hún fer fram á það, að stj. sé heimilað að ábyrgjast greiðslu á fiski, sem seldur er til þeirra landa, er ekki greiða fisk í peningum. Ég ætla ekki að ræða þessa till. ýtarlega, því að ég býst við, að hv. 1. flm. geri það og svari hæstv. ráðh. En ég skal kannast við, að orðalag till. afsakar hæstv. ráðh. ef til vill að nokkru leyti. er hann leggur í hana annan skilning en þann, sem fyrir er, en afsakar hann þó ekki að fullu, því að tekið er fram í till., að ábyrgðin skuli bara ná til þeirra landa, þar sem greiðslur fara fram með þessum óvenjulega hætti. Við viljum því aðeins, að ríkið gangi í ábyrgð gagnvart óvenjulegum atvikum, er fyrir kunna að koma. Annars kannast ég við, að brtt. hefði mátt vera greinilegar orðuð. Þetta er hið mesta vandamál, að tryggja að þeir, sem eiga fisk, sem seldur er á clearing til Suðurlanda, verði ekki fyrir óhæfilegum drætti að því, er greiðslu snertir, og að tryggja, að gengisbreytingar og annað verði ekki landsmönnum til mikils trafala. Þetta er mikið vandamál og eðlilegt, að það fari ekki athugasemdalaust fram. En ég vil benda á án þess að ég fullyrði, að þetta sé hægðarleikur, að til er leið, sem losað gæti ríkissjóð við alla áhættu af gengisbreytingum og slíku. Hún er sú, að í sambandi við þann clearingreikning, sem Landsbankinn hefir t. d. á Ítalíu, svo, að ég taki eitthvert dæmi, verði gerðar ráðstafanir hér heima um innflutning á vörum, þannig að kaupsýslumönnum væri gert mögulegt að kaupa þessar innieignir, í þessu tilfelli lírurnar, við ákveðnu gengi. t. d. dagsgengi, og að það væri þá á þeirra ábyrgð, hvort þeim tækist að nota þessar inneignir til hagkvæmra innkaupa, áður en tjón hlytist af vegna gengisbreytinga. Þetta væri sjálfsagt framkvæmanlegt með því að fylgja fram samskonar innflutningsreglum að öllu leyti og þeim, sem nú eiga sér stað. Það getur að vísu misjafnlega staðið á fyrir innflytjendum um það að hafa fjárráð til slíks innflutnings. En þarna væri leið til að nota þessar innieignir á tryggilegan hátt og án þess að ríkissjóður þyrfti að bera nokkra áhættu.

Ég fer svo ekki lengra út í þetta efni, en vildi aðeins drepa á þennan möguleika í sambandi við bollaleggingarnar um lausn á þessum vanda. Sé þetta ekki gert, eða þá eitthvað svipað, verður naumast hjá því komizt að binda ríkissjóði þann bagga að láta hann ábyrgjast að einhverju leyti þá áhættu, sem fiskeigendur hafa orðið að bera. Eitt er víst, að ekki er hægt að láta allt ganga eins og gengið hefir undanfarna sex mánuði, að láta bláfátæka eigendur útflutningsvörunnar bíða allan bagann af þeim drætti, sem orsakast af núverandi ástandi.

Þá vil ég minnast nokkuð á aðrar till., snertandi nýjan innlendan iðnað. Á þskj. 550 hefir komið fram brtt. frá hv. þm. Hafnf. og tveim öðrum hv. þm., þar sem farið er fram á að verja úr ríkissjóði eða af ágóðu raftækjaeinkasölunnar allt að 50 þús. kr., gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar að, til að koma hér upp raftækjaframleiðslu. Önnur till. hefir komið fram frá hv. þm. Mýr. og fleirum á þskj. 601, þar sem farið er fram á heimild handa ríkisstj. til að láta fullgera teikningar og aðrar áætlanir um rekstur áburðarverksmiðju hér á landi. Er það frá vissu sjónarmiði góðra gjalda vert að flytja svona till. En það er þó athugunarvert, hve langt ber að ganga í því að hlaða undir innlendan iðnað á ýmsum sviðum, einkum þegar það miðar að því að koma upp framleiðslu á vörum, sem við annars kaupum í löndum, sem taka okkar afurðir í staðinn fyrir þessar vörur. Það er vitað, að ýmislegt af iðnaði þeim, sem upp hefir komið hér á síðari árum er þannig lagaður, að væru ekki innflutningshöftin, tollarnir og annað í vegi fyrir innflutningi, þá stæðist mikið af honum ekki samkeppni við samskonar erlendan varning frá stærri löndum, sem tök hafa á því að framleiða hann í stærri stíl. Við verðum að muna að það eru ekki nema einar 100 þús. sálir, sem eiga að taka á móti þessum innlenda iðnaði. Til þess eru skilyrðin ákaflegu erfið, landið afskekkt, löng sjóleið hátt kaupgjald, svo að alveg er óhugsandi, að við getum í náinni framtíð keppt með iðnaðarvörur okkar á erlendum markaði.

Það var nokkuð rætt um áburðarverksmiðju á síðasta þingi. Það vita allir, sem til þekkja, að samkeppnin milli hinna þýzku og norsku áburðarverksmiðja er svo hörð, að þær berjast bókstaflega um hvern fermetra af markaði. Við þyrftum því ekki að vænta þess að geta selt áburðarframleiðslu okkar annarsstaðar en innanlands. En um leið og við hættum að kaupa erlendan áburð í vöruskiptum er tapaður markaður fyrir 300–400 þús. kr. virði af íslenzkum afurðum. Þannig er þetta í fleiri tilfellum, er við kaupum erlendar iðnvörur fyrir íslenzkar afurðir. Efling hins íslenzka iðnaðar getur verið ávinningur fyrir tiltölulega lítinn hóp manna, meðan innflutningshöftin standa yfir, en hún tekur í stað þess fyrir starfsemi miklu fleiri annara til sjós og sveita með því að hefta vöruskipti á erlendum iðnaðarvörum og íslenzkum framleiðsluvörum.

Hv. þm. Hafnf. og meðfl. hans leggja til, að varið verði 50 þús. kr. af ágóða raftækjaverzlunarinnar til þess að gera ríkið hluthafa í verksmiðju, sem á að framleiða rafmagnsvörur. Og hann fer ekki dult með það, til hvers ríkið eigi að vera hluthafi í þessu fyrirtæki. Það á að vera hluthafi til þess að engin samkeppni eigi sér stað í þessari grein! Það er til þess, að ríkið á að verða hluthafi. Mér finnst nú á þessari byrjun, að það sé ekki líklegt til hagsbóta fyrir almenning að setja upp hálfgerða eða algerða ríkiseinokun á þessum iðnaði, né líklegt, að vörurnar verði sérstaklega á þann hátt betri eða ódýrari en hinar innfluttu rafmagnsvörur. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að vörurnar verði dýrari en áður og ef til vill lakari líka.

Það kann nú að vera, að mönnum finnist ég of svartsýnn og ekki nógu velviljaður hinum íslenzka iðnaði. En auðvitað ann ég íslenzkum iðnaði alls hins bezta, eins og öllum öðrum atvinnugreinum, ef þær eru heilbrigðar. En ég álít, að hann eigi ekki að vaxa og þróast í skjóli þess, að við ekkert sé að stríða. Innflutningshöftin hafa skapað iðnaðinum góða aðstöðu, enda hefir komið hér upp iðnaður í fjölmörgum greinum til framleiðslu á vörum, sem áður hafa verið keyptar að, en því miður er ekki hægt að segja um þessar vörur allar, að verð og gæði sé sambærilegt við erlendar vörur. Mér finnst satt að segja allt of mikið kapp á það lagt að hlaða hér upp iðnaði í skjóli tolla og hafta, en of lítil áherzla lögð á hitt, að sinna þeirri nauðsyn að halda uppi vöruskiptum við viðskiptaþjóðir vorar, en möguleikar til slíkra viðskipta fara auðvitað minnkandi eftir því sem meira er framleitt af iðnaðarvörum í landinu sjálfu. Ef svo færi nú, að ástandinu óbreyttu að öðru leyti, að iðnaður vor kæmist á það stig, að við gætum framleitt flestar þær iðnaðarvörur sjálfir, sem við þurfum að nota, hvað eigum við þá að kaupa í vöruskiptalöndum vorum? Örðugleikarnir eru þegar orðnir mjög miklir á því að samrýma það að hafa hemil á innflutningi á óþörfum og jafnvel þörfum varningi og koma hinsvegar vörum vorum á erlendan markað í skiptum fyrir erlendar vörur. Og því erfiðara verður þetta, þegar þetta ástand er notað til þess að hlaða hér upp iðngreinum, sem ljóst er um, að aldrei geta orðið samkeppnisfærar við erlendan stóriðnað. Væri gerð statistik um hinar innlendu iðnvörur eftir gæðum og verðlagi með samanburði við erlendar vörur, er ég hræddur um, að það kæmi því miður í ljós, að hinn íslenzki iðnaður er í fáum atriðum samkeppnisfær. En dýrleiki varanna kemur aðeins niður á okkur einum, af því að við getum ekki velt honum yfir á aðrar þjóðir.

Mér finnst, eins og ég sagði áðan, of mikið kapp á það lagt að hrúga hér upp iðnaði í skjóli hafta og tolla eða sérstakra lagafyrirmæla, eins og í brtt. á þskj. 550. Og þetta ofurkapp miðar að því, beint eða óbeint, að rýra markaðsmöguleikana í viðskiptalöndum vorum, þar sem við kaupum ýmsar iðnaðarvörur fyrir íslenzkar afurðir. Því má ekki gleyma, að þótt æskilegt sé, að íslenzkur iðnaður eflist að svo miklu leyti, sem hann er til þrifa, hvað verð og vörugæði snertir, þá eru þó landbúnaður og sjávarútvegur aðalatvinnuvegir vorir, og hljóta að verða það, og því verður að varast að kippa fótunum undan markaðsmöguleikum í þeim löndum, sem enn eru opin fyrir afurðir bóndans og sjómannsins. Því að þegar þeir markaðir lokast, getur landið ekki lifað á því, þótt fámenn iðnaðarstétt hafi hreiðrað um sig í skjóli hafta og tolla og tekizt þannig um tíma að ná sér í gott framfæri.

Ég get því alls ekki samþ. brtt. á þskj. 550, sem gengur í þá átt að efna til hlutafélags með ríkinu sem hluthafa til þess að koma hér upp raftækjaiðnaði, því að slíkt yrði til þess að eyðileggja talsvert af þeim markaðsmöguleikum bænda og sjómanna, sem enn eru eftir.