21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Sigurður Kristjánsson:

Ég fylgdi málinu með nokkrum orðum til n. og skal ekki endurtaka þau hér. Ég vil nota tækifærið til þess að þakka minni hl. landbn. fyrir þá skilmerkilegu grein, sem hann hefir gert fyrir því, að frv. stefnir til stórskemmda fyrir landbúnaðinn. En þó kvaddi ég mér ekki hljóðs til þess eins, heldur út af nokkrum orðum, sem féllu hjá hv. 6. landsk., en nú er að miklu leyti búið að svara.

Um hv. 6. landsk. er það að segja, eins og allir hv. þm. vita, að hann er greinagóður maður, og þó að hann lýsti sínu viðhorfi til málsins, er öllu viðkunnanlegra að heyra hann mæla með þeirri stefnu heldur en bandingjana úr hinum flokknum En hann sagði nokkuð mikið, að aldrei hefði verið gert meira fyrir bændur en síðan núverandi flokkar fengu meiri hl. á þingi. Taldi hv. þm., að sú löggjöf, sem sett hefir verið til hjálpar bændastéttinni, væri sérstaklega vel lukkuð. Það er sjálfsagt hægt að leggja misjafnan skilning í hvað sé vel lukkað, ef það er frá sjónarmiði sósíalistanna vel lukkað, að bændurnir missi svo fótanna, að þeir og allur landslýðurinn verði alerlega háðir duttlungum þeirra, sem með völdin fara. En frá sjónarmiði okkar, sem viljum helzt vera sjálfstætt fólk, bæði í sveit og til sjávarbyggðar, þá er þetta mjög illa lukkað. Í þessu sambandi minntist hv. þm. á kjötsölulögin og mjólkursölulögin. Ég vil nú aftur á móti spyrja hann um það, hvað hann hafi því til sönnunar, að gert hafi verið mjög mikið fyrir bændur, og að það hafi vel tekizt. Er það svo, að bændur uni hag sínum betur og ástæður þeirra séu rýmri og framtíð þeirra bjartari heldur en var áður en núverandi stjórnarflokkar byrjuðu að ráðska í þessu landi? Mér skilst, að úr þeim flokkum sé öðrum þræði æðimikið prédikað, hvað ósjálfbjarga menn séu nú í sveitum, hvað mikils styrks þeir þurfi með og hversu gersamlega þeir séu þess ómegnugir orðnir að sjá fyrir sínum eigin hag. Ber þetta vott um, að það hafi verið svo sérstaklega vel lukkað, sem stjórnarflokkarnir hafa gert fyrir bændastétt landsins? Ég held það beri vott um það gagnstæða. Síðan áhrifa þessara flokka fór að gæta í stjórnmálum landsins, sem er allt síðan 1927, að sjálfstæðismenn hættu að hafa stj. og þingmeirihluta, þá hafa áhrif þessara flokka verið ráðandi yfir atvinnurekendum þessa lands. En þetta tímabil allt saman hefir verið það mesta hrakfalla og hörmungatímabil, ekki aðeins fyrir menn, sem reka atvinnu við sjávarsíðuna, heldur líka fyrir þá, sem í sveitum landsins búa. Og það sýnir vel, hversu tekizt hefir þessum flokkum að vinna fyrir bændastétt landsins. Það hefir verið vel lukkað á þann hátt ekki aðeins að kippa undan þeim fótum fjárhagslega, heldur líka bíta úr þeim kjarkinn og sjálfstæðið og þar með girða fyrir, eftir því sem unnt er, að þeir geti rétt við, þó að árferði skáni.

Ég vil ekki eyða tíma í að fara sérstaklega út út í þessa löggjöf um kjötsölu og mjólkursölu. Það er vitanlegt, að með kjötlögunum er tekinn af bændum umráðaréttur yfir þeirra vörum, þeir hnepptir í einskonar verzlunaránauð í viðbót við þá, sem áður var, svo að allt stefnir að því, að þeir verði að afhenda sína framleiðslu án þess að ráða nokkru yfir henni, og þeir eru bundnir við að verzla í skuldaverzlun þar, sem aðstaða þeirra neyðir þá til að setjast að með afurðasöluna. Áður voru þeir þó frjálsir að því, hvar þeir slátruðu, fyrir hvað þeir seldu, og líka frjálsir að kaupa fyrir andvirði afurða sinna. Um mjólkursöluna er sama að segja. Það eru stjórnskipaðir menn, sem ráða þar mestu eða öllu; bændur mega aðeins horfa á í fjarlægð og borga kostnaðinn af hinum stjórnskipuðu nefndum. Það er þeirra náð. Og svo fá þeir að aura saman í kosningasjóð sósíalista, og það er eitt af því, sem er afskaplegu vel lukkað.

Sannleikurinn er sá, að þetta, sem hv. þm. var að telja, að gert hefði verið til öryggis bændum og atvinnurekstri þeirra, það er það, að þyngdir hafa verið stórlega skattar á þeim, að það hefir verið lagt í vald Alþýðusambands Íslands að ráða kauptaxta í sveitum við alla opinbera vinnu og þar með skapa kauptaxsta fyrir bændur. Það hafa verið tekin af þeim umráðin yfir framleiðsluvörum þeirra, eins og ég hefi nefnt, og það hafa verið ferðar ráðstafanir til þess að slíta síðustu leifar vinnukraftsins úr sveitunum með því að bjóða mönnum heim á mölina og heita þeim því, að þó að þeir hafi ekkert að gera, skuli þeir tryggðir fyrir atvinnuleysi með atvinnuleysisstyrkjum. Og bændum er boðið upp á með nýjum og hækkuðum tollum að kasta síðustu leifum vinnukraftsins burt frá sér á mölina og líka boðið að afhenda jarðirnar, svo að þeir eigi ekki þúfuna, sem þeir standa á. Og það er í mínum augum endahnúturinn á öllu þessu. Í þessu frv., sérstaklega c-lið 4. gr., er sýnt, með hvaða kjörum þetta á að verða. Bændur eiga ekkert að fá fyrir jarðir sínar, þeir fá af náð að afhenda þær fyrir skuldir. Þetta gæti skoðazt hagræði fyrir bóndann, að ríkið tæki að sér skuldir hans með þessum kjörum, en er það samt ekki. Frekar væri, ef honum væri gefinn kostur á að sleppa eignarhaldi á jörðinni gegn því að fá honum rekstrarfé í hendur, til þess að hann gæti aukið bústofn sinn og þar með kannske bætt skilyrði sín til að koma fram fjölskyldu sinni. En það er ekki meiningin með þessu frv. Meiningin er sú, að maðurinn standi algerlega með tvær hendur tómar eftir. En hann getur tekið pjönkur sínar, farið og setzt að á mölinni og bætzt þar í atvinnuleysingjahópinn.

Hv. frsm. meiri hl. sagði hér ýmislegt, sem ég hafði skrifað niður hjá mér, en hv. frsm. minni hl. hefir svarað því, og skal ég ekki þreyta með því að endurtaka það. En út af orðakasti, sem fór á milli hans og hv. þm. G.-K. um það, að Framsfl. væri þarna aftur tekinn og mýldur af sósíalistum, vil ég segja þá skoðun mína, að svo mun vera sem hv. 2. þm. N.-M. sjálfur sagði, að ekki hafi hann þurft að sækja þessa skoðun til sósíalista eða kommúnista. Því að þrátt fyrir það, þótt ég þykist viss um, að hann viti það ekki sjálfur, því er hann ekkert annað en kommúnisti í sínum skoðunum. Hann fylgir þeirra róttækustu stefnu, en hefir ekki hugmynd um það sjálfur, af því að hann skortir svo mjög dómgreind um sjálfan sig og hefir skrökvað að sjálfum sér svo lengi. Það er svo um þessa kommúnista, að þeim getur víða skotið upp, þeir spretta upp eins og hundasúrur til og frá, stundum úti um sveitir. Hann er einn af slíkum kommúnistaplöntum. Og afstaða hans til þessa máls sannar þetta ef til vill betur en nokkuð annað. Ég veit líka, að þm. hafa tekið eftir, að það kemur ekki svo róttæk kommúnistísk krafa fram í þinginu, að hann fylgi henni ekki sem fastast, haldandi sig vera andstæðan kommúnistum. En hann unir því vel, að sósíalistar hafi valdið til að leggja söðulinn á Framsókn og vill halda í tauminn, á meðan þeir eru að skriða á bak aftur, því að þeir duttu af baki og gátu ekki komizt aftur á fararskjótann. Þeir helltu úr skálum reiði sinnar og kölluðu samningssvik. En nú hefir hv. 2. þm. N.-M. tekið að sér að koma múlnum á Framsókn og teyma að bakþúfunni; skal ekki spá, hve glæsilega verður sprett úr spori, en hinu vil ég spá, að spretturinn muni ekki verða alllangur. Því að það er mín bjargföst sannfæring, að það fyrirkomulag komist á í jarðeignamálinu, og það kannske innan skamms, að allir bændur landsins verði sjálfseignarbændur. Það er enginn minnsti vafi á því, að sú stefna hefir unnið geysimikið fylgi einmitt á þessum síðustu árum. Og það má segja, að stefna sú sé sterk, að hún skuli getað unnið fylgi einmitt í því árferði, sem verið hefir undanfarið. Það er mála sannast, að ekkert getur bitið frekar kjark úr mönnum, sem eru að basla við búskap, en verðfall afurða þverran vinnukraftar í sveitum og verzlunaránauð samfara uppivöðslu sósíalista á öllum sviðum. En þrátt fyrir allt þetta er áreiðanlegt, að sjálfeignarstefnunni hefir vaxið fylgi geysimikið, og er ekki grunlaust um, að ýmsir framsóknarmenn — og jafnvel á þingi — séu a. m. k. í hjarta sínu algerlega fylgjandi þeirri stefnu. Það á að verða takmarkið, að hver einasti fjölskyldufaðir búi að sínu; að hver maður, sem ræktar landið, eigi það, og hver fjölskyldufaðir í kaupstað, hvaða atvinnu sem hann stundar, eigi íbúðina, sem hann býr í. Þetta er stefna allra góðra manna. Þetta er leiðin til þess að byggja upp það lundarfar með þjóðinni, sem gerir henni það fært að standast slík árferði eins og þau, sem yfir okkur hafa gengið undanfarið.