27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

99. mál, jarðakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Eins og hv. þm. hafa sjálfsagt veitt eftirtekt, þá höfum við. hv. þm. Borgf. og ég, sem skipum minni hl. landbn., flutt brtt. á þskj. 432, sem stefna í þá átt sem ég vék að við 2. umr. þessa máls, að ég teldi, að frv. ætti að stefna í.

Í frv. er svo fyrirmælt, að það eigi að verða bjargráðamál bændanna, að ríkið kaupi jarðirnar, þegar þeir ekki geta staðið í skilum með lán sín við kreppulánasjóð, og það er sá eini rökstuðningur, sem frá mínu sjónarmiði gerir þetta mál réttlætanlegt, ef það gæti orðið til þess að forða mönnum frá því að hrökklast frá býlum sínum. En eins og ég drap á við þá umr., tel ég það illa farið, ef gripið verður tækifærið, þegar verst stendur á fyrir mönnum, og koma jörðunum í ríkiseign. Þess vegna legg ég til, ásamt hv. þm. Borgf., að ríkisstj. verði heimilað að greiða afborganir til kreppulánasjóðs fyrir þá bændur, sem við rannsókn sýnir sig, að ekki geta greitt fyrir árið 1935.

Till. okkar er miðuð við að vera bráðabirgðaráðstöfun, sem mætti halda áfram, ef ekki raknaði úr, þar til verð jarðanna væri komið niður að því takmarki, sem lögin um erfðaábúð og óðalsrétt ákveða, að megi vera til þess að gera jörðina að óðalseign. En lengra sjáum við ekki fært að ganga með brtt., en hún er aðeins bráðabirgðaákvæði og hugsuð með það fyrir augum, að ríkisvaldið stuðli að því, að sem allra flestar jarðir kæmust undir ákveðið um óðalsrétt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að sinni að fara um þetta fleiri orðum, en til þess að sjá, á hvaða niðurstöðu megi byggja þessa hjálp, er sjálfsagt að ríkisstj. láti fara fram athugun á efnahagsástæðum bænda, hverjir það séu, sem ekki gætu staðið í skilum, og fer að sjálfsögðu eftir niðurstöðu þeirrar rannsóknar, hversu víðtæk þessi hjálp verður.