07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1937

*Jón Baldvinsson:

Ég á hér aðeins tvær brtt., sem ég flyt báðar með öðrum.

Fyrri brtt. er á þskj. 547,IV, og flyt ég hana ásamt hv. þm. Snæf. Hann hefir þegar talað fyrir henni, og þarf ég því ekki að gera það. Maður sá, er hér á hlut að máli, hefir orðið fyrir miklu áfalli. og vonlaust um, að hann fái nokkrar bætur, nema Alþingi veiti honum þær. Vil ég mæla hið bezta með þessari till.

Þá flyt ég aðra brtt. á sama þskj. Það er XVIII. brtt., um 1800 kr. ritstyrk til Ólafs Friðrikssonar, og flyt ég hana ásamt hv. þm. S.-Þ. Ef til vill er það ekki á vitorði nærri allra, að Ólafur Friðriksson hefir skrifað margt merkilegt um atvinnuvegi landsins. Menn hafa gleymt því vegna þess hve hann hefir skrifað margt annað sem blaðamaður. Síðustu árin hefir hann frelsað sig hugðarefni sínu, náttúrufræðinni, og þá fyrst og fremst náttúrufræði Íslands, og einkum nágrenni Reykjavíkur. Hann hefir skrifað mikið um þessi efni og tekizt það svo vel, að hann hefir getað gert hverju barni ljóst það, sem hann segir frá, og heppnazt að vekja athygli barna og fullorðinna á ýmsu merkilegu í náttúrunni, sem menn ganga annars daglega framhjá án þess að taka eftir því. Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að enginn sé fróðari Ólafi Friðrikssyni um jurtir og dýr í nágrenni Reykjavíkur. Ég vil geta þess, af því að ég veit, að mönnum er það enn í fersku minni, að í vor kom út á barnadaginn ritið Sólskin, þar sem Ó. Fr. fræðir menn í stuttu og ljósu máli um ýmsa merkilega hluti í náttúrunnar ríki hér í kring, sem menn taka ekki eftir hversdagslega vegna þess að vekja þarf athugunargáfuna áður. Sérstakleg, hefir Ó. Fr. kynnt sér fuglalífið hér í grennd og frætt aðra um það. Hann hefir skrifað margt um þessi efni án þess að láta nafns síns getið, því að fyrir honum er það aðalatriðið, að fróðleikurinn komist út til fólksins.

Síðustu árin hefir hann verið vakinn og sofinn í því að gera ýmsar tilraunir með jurtir og smádýr. Þarf mikla elju og ástundun til þess, að slíkt takist og komi að gagni. Ég tel Ó. Fr. yfirleitt merkilegan fræðimann og rithöfund, sem eigi skilið viðurkenningu, og því hefi ég borið þessa brtt. fram. Þegar frá liður og menn fara að meta störf hans önnur en þau, sem vita að dægurmálunum, er ég þess fullviss, að margir, jafnvel þótt þeir hafi einhverntíma orðið fyrir höggum hans, telja hann þess maklegan að hafa komizt á fjárlögin meðal ýmsra annara merkra manna þjóðarinnar.