27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Pétur Ottesen:

Það er nú ekki ástæða til um hánótt að ræða mikið um þetta mál við hv. 2. þm. N.-M. En þegar hann talar hér um hryggð yfir þessu máli út af framkomu minni og hv. þm. A.-Húnv., þá ætti hann fremur að hryggjast yfir sinni eigin heimsku, sem fram kemur í afstöðu hans í þessu máli.

Ég ætla ekki að ræða um takmarkið í fjórum liðum, sem hann ætlar að ná með þessu frv. Það hefir verið rekið svo fast ofan í hann, og mun þar sitja fast. En ég vil í sambandi við það sem hann gerir lítið úr þeirri hjálp — sem eðlilegast er að miða við þær erfiðu kringumstæður, sem bændur eiga við að búa. — sem felst í okkar till., benda á það, að hún snertir skuldir þær, sem fasteignaveð stendur fyrir. En nú er ekki nema örlítill hl. þeirra, sem tekið hafa kreppulán, sem hafa tryggt með fasteignaveði, svo að þess vegna kemur þetta frv. ekki til hjálpar þeim í erfiðleikum að greiða þessar skuldir. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að af 2804 lánum, sem lánuð hafa verið úr kreppulánasjóði. eru lausafjárveð fyrir 1043 lánum, lausafjárveð ásamt fasteignaveði fyrir 1022 lánum en einungis fasteignaveð fyrir einum 487 lánum. En í þeim tilfellum, þar sem blandað er saman fasteignaveði og lausafjárveði, er í raun og veru ekki um fasteignaveð að ræða, af því að jarðirnar eru veðsettar það hátt áður, að þær bera ákaflega lítið uppi. Svo að það má telja, að einungis þess 487 lán séu tryggð með fasteignaveði. og í þeim tilfellum einum gæti þetta frv. haft einhver áhrif. Þess vegna er þetta frv. yfirleitt engin hjálp bændum til handa almennt í greiðsluskorti þeirra gagnvart kreppulánasjóði. Sem hjálp er þetta einskis virði, en víst er, að frv. leiðir ógagn mikið af sér með því að stuðla að því að taka jarðir af bændum.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta. Upphæðin, sem um er að ræða, er ekki svo geysilega há að óttast þurfi hana verulega. En þetta er miðað við þær erfiðu kringumstæður, sem nú eru hjá mönnum, sem mest kveður vitanlega að í harðindasveitum, og varna mönnum að standa í skilum með sínar skuldbindingar.