05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Það er eins og oft vill verða, þegar líður á þing, að það er naumur tími til þess, að athuga mál í n. Það er svo með þetta mál, að það hefir legið stuttan tíma hjá n., og þegar n. tók það fyrir á fundi, þá gat einn nm., hv. 2. þm. Rang., ekki mætt. Aðstaða hans til málsins er því ekki viðurkennd og ekkert um hana sagt í nál. Hinsvegar erum það við tveir nm., ég og hv. 4. landsk., sem leggjum til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.

Ég ætla nú ekki að hefja almennar umr. og hugleiðingar um það, hvernig bezt sé komið fyrir eignarrétti á jörðum í landinu. Ég ætla frá mínu sjónarmiði sérstaklega að geta þess, að ég er þessu frv. fylgjandi einmitt af þeirri ástæðu, að ég óttast, að eins og nú standa sakir, sé töluverð hætta á því, að það þurfi að selja jarðir vegna þess, að ekki verði staðið í skilum með vexti og afborganir af lánum þeim, sem á þeim hvíla. Ég veit, að það hefir töluvert borið á því, og ég óttast, að það geti leitt til þess, að selja þurfi jarðirnar, stundum einstaklingum, en stundum lenda þær í eigu þeirra lánsstofnana, sem aðallega eiga veð í jörðunum. En hvort sem það kemur fyrir, að einstaklingar kaupa jarðirnar eða lánsstofnanirnar eignast þær, þá álít ég miklu minni tryggingu fyrir því, að þeir, sem á jörðunum búa og vafalaust þyrftu á því að halda að geta búið á þeim áfram, fái það. Það er sérstaklega þessi ástæða, sem veldur því, að ég álít það nauðsynlegt, að lagafrv. eins og þetta sé samþ. núna. Að því leyti, sem ríkið annars getur komið því við að kaupa slíkar jarðir, þá fengist miklu meiri trygging fyrir því, að þeir af núverandi ábúendum jarðanna, sem þyrftu að búa á þeim áfram, fái aðstöðu til þess með kjörum, sem þeim reynast miklu kleifari heldur en þeim reynist nú sá ábúðar- og eignarréttur, sem þeir telja sig hafa á jörðunum.

Að öðru leyti skal ég ekki að þessu sinni fjölyrða um þetta frv. En eins og sést á þskj. 510, þá leggjum við tveir nm., sem erum í meiri hl., til, að frv. verði samþ. óbreytt.