05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. 2. þm. Rang. hefir nú lýst afstöðu sinni til þessa máls, og er hún sú, að hann vill, að frv. sé fellt. Ég hafði nú reyndar búizt við því og kom það því ekki á óvart.

Hann sagði, að hann hefði ekki getað búizt við því, að Framsfl. mundi fylgja svona frv. (PM: Fyrir nokkrum árum). Ég býst við, að um nokkur undanfarin ár hafi ég verið eins kunnugur í Framsfl. og hv. þm., og ég minnist þess, að það hafa síðan verið uppi raddir um, að það væri ekkert athugavert við það að samþ. frv. eins og þetta. Það er ekki verið að tala um það að kaupa allar jarðir, en aðeins þær, sem eru til sölu. Það er ekki verið að tala um að taka jarðirnar af mönnum nauðugum.

Ég get sagt hv. þm., að það eru fjöldamargir bændur úti um allt land, sem fagna þessu frv., og ég gæti trúað, að þeir væru til í flokki hv. þm. líka, og það ekki svo fáir.

Ég hefi gert grein fyrir því áður, hvað það er sérstaklega, sem gerir það að verkum, að mér finnst brýn ástæða til þess að samþ. þetta frv. núna.

Hv. þm. N.-Ísf. talaði dálítið undarlega um þetta. Hann var að tala um, hvort það væri alvara í þessu máli, og í því að samþ. frv. Ég ímynda mér, að hv. þm. reki sig á það, að það fylgir því alvara að gera frv. að lögum. Það er alvara hjá mörgum mönnum að reyna að stuðla að því, að bændur geti haldizt við á jörðum sínum og geti búið þar á þann hátt, sem þeim er haganlegast. Og þó ég mótmæli því ekki, að það geti verið gott, að bændur séu í sjálfsábúð, þá fullyrði ég hitt, að það er líka gott fyrir fjölda manna í landinu, sem vilja stunda búskap, að þeir séu losaðir við að búa í sjálfsábúð. Ef það er nú á annara landi, sem þeir búa, þá ætti ríkið að hafa hægust heimatökin um það að gera þeim ábúðina haganlega, og ég veit ekki betur en að það sé gengið vel frá því, að ábúðin á löndum ríkissjóðs verði í framtíðinni allt önnur en hún hefir verið fram að þessu.

Þá talaði hv. þm. N.-Ísf. um, að margir vildu selja skipin sín, og hvort ekki væri sjálfsagt, að ríkið keypti þau. Hann getur borið fram frv. um það, ef hann vill. Mér er ekki kunnugt um, að ríkið hafi átt veiðiskip, en ríkið hefir átt og á jarðir. Hann sagði, að bændur myndu varla fallast á það, ef þeir yrðu að því spurðir, að jarðræktarsjóður yrði rýrður á þennan hátt, ef hann mætti þá missa nokkurt fé.

Ég ætla, að í jarðræktarsjóði sé nokkurt fé, og hann hafi yfir nokkru fé að ráða, og ég efast um, að hv. þm. hafi rétt fyrir sér í því, að bændum muni þykja fé hans verr varið svona en á annan hátt.

Ég sé ekki ástæðu til að þrátta mikið um þetta mál. Ég veit, að menn skipta ekki um skoðun, þó að það sé rætt meira. Það mætti ræða þetta frá fleiri hliðum en ég hefi gert, en ég sé hvorki þýðingu þess né þörf, að svo sé gert.