05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

99. mál, jarðakaup ríkisins

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla ekki að taka mikinn þátt í þessum umr. En ég vil segja fáein orð út af ummælum hv. þm. S.-Þ. um, að ekki bæri að skilja flokk hans svo sem hann vildi sækjast eftir, að ríkið keypti jarðirnar, heldur væri þetta gert til þess að hjálpa bændum. Ég vildi benda á aðra leið, sem liggur nær, ef að hjálpa ætti frændum þeim, sem eiga erfitt með að standa í skilum. Og það er sú leið að hjálpa þeim með afborganir í ár, sem tæpastir eru, og svo aftur að ári, ef með þyrfti, og sjá hvort ekki rættist úr kreppunni.

Frá sjónarmiði þeirra manna, sem ekki þykjast vilja, að ríkið eignist jarðirnar, er réttara að grípa til þessa ráðs. Er það illa til fallið að taka einmitt erfiðasta tímann til þessara jarðakaupa, því með því er verið að svíkjast aftan að bændum og taka af þeim möguleikana til að halda jörðunum.

Ef það á að hjálpa bændum, þá er þetta ekki rétta leiðin, heldur hitt, sem ég gat um. Og það er ekki ákaflega stór upphæð, sem þarf. Var það upplýst við umr. í hv. Nd., hve há þessi upphæð væri, og er sýnt, að hún er ekki hærri en svo, að hægt er við hana að ráða.

Náttúrlega er hægt fyrir ríkissjóð að komast yfir margar jarðir, þegar þær eru teknar fyrir það eitt, sem á þeim hvílir, en fyrir vaxta- og afborganagreiðslu þarf þó að hugsa.

Hv. þm. S.-Þ. nefndi verðhækkun á jörðunum vegna umbóta á þeim. Það er náttúrlega ekki undarlegt þó að þær hækki í verði af þeim sökum. Eða hver skyldi leggja á sig að gera umbætur á jörðunum, ef ekkert kæmi á móti í verðhækkun? Hitt er það, að verðsveiflur vegna stríðsins koma ekki þessu máli við, vegna þess að enginn maður gat við þær ráðið, og þær hefðu komið jafnt, þó aðeins hefðu verið leiguliðar. Það er hægt að segja, að þessar sveiflur hafi verið tap fyrir þjóðfélagið, en þó er það meira á yfirborðinu en raunverulegt. Það, sem gerðist, var aðallega flutningur verðmæta milli landsmanna. Má í þessu sambandi minna á þá daga, að kaupamannskaupið var 100 kr. á viku og mjólkurlítrinn 1 kr. En það er ómögulegt að segja, þó að mjólkurlítrinn sé nú 30–40 aurar og kaupmannskaupið 35 kr. á viku, að mismunurinn sé tapaður. Mér sýnist það vera ólíkt skynsamlegra að hjálpa bændum með því að hlaupa undir bagga með greiðslu vaxta og afborgana í eitt eða tvö ár, þar sem ekki þarf nema tiltölulega litla upphæð, en að rjúka í að kaupa jarðirnar. Og ég er viss um, að bændur mundu verða glaðari yfir því en þeim boðskap, að þeir geti selt ríkinu jörð sína, a. m. k. er ég sannfærður um þetta að því er snertir þá bændur, er ætla sér að búa áfram. En hitt getur verið rétt, sem hv. frsm. sagði, að þeir bændur verði glaðir yfir frv. þessu, sem ætla sér að yfirgefa jarðir sínar og flytja í kaupstað, og ég held, að það sé þeirra málstaður, sem verið er að styðja með frv. þessu.