31.03.1936
Neðri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

73. mál, fræðsla barna

*Eiríkur Einarsson:

Þar sem þetta frv. er flutt af meiri hl. menntmn., að ótilgreindu, hver sá meiri hl. er, vil ég taka það fram, að ég er ekki meðal flm. þessa máls. — Ég efa það ekki, að þetta frv. hefir mörg þörf og góð ákvæði að geyma og getur sjálfsagt um margt horft til bóta frá því, sem er. En vegna sérstakra atriða, sem eru aðalatriði, þá gaf ég ekki verið flm. málsins. Það, sem ég rak augun í og þótti athugavert, það var, að mér þótti ekki tímabært að lögfesta skólaskyldualdurinn þannig, að öll börn í landinu skuli skólaskyld frá 7–l4 ára aldurs. Ég er þeirrar skoðunar, að það verði að gæta mjög hófs í að færa skólaskyldualdurinn niður. Það mun í flestum tilfellum verða happadrýgst að láta heimilin sjálf kenna börnunum, að svo miklu leyti sem þau eru þess um komin. — Annað atriði er það í frv., að allsstaðar í landinu skuli vera heimavistarskólar. Þetta atriði er mjög um deilt, hvað hentast muni í þessu efni. Ég veit, að flm. gengur allt gott til með þessu og að þeir álíta, að þetta muni bezta ráðið til að lagfæra barnafræðsluna í landinu. En ég veit, að fjöldinn allur af fólki er á móti þessu fyrirkomulagi, og margir halda alveg því gagnstæða fram, að takmarkið eigi að vera heimangönguskólar. — Þriðja atriðið er það, sem fjmrh. hefir bent á, og það er fjárhagsatriði þessa máls, og það er ekki hægt að gera það að aukaatriði þessa máls. Ég vil ekki lengja umr. um þetta frv., en þessi 3 meginatriði, sem ég drap á, eru þess valdandi, að ég treysti mér ekki að vera flm. þess.