31.03.1936
Neðri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

73. mál, fræðsla barna

*Sigurður Einarsson:

Þó að ég sé einn af þeim nm., sem standa að flutningi þessa máls, þá vil ég strax við þessa umr. láta það í ljós, sérstaklega um einn kafla frv., að ég tel, að hann megi tæplega standa óbreyttur. En því miður hefir mér ekki unnizt tími til vegna annríkis við önnur þingstörf að ganga frá brtt., sem ég hyggst að bera fram við þennan kafla. Þetta er 7. kafli frv., þar sem talað er um námsstjóra. Þar er svo ákveðið, að umsjón með kennslunni hafi á hendi svokallaðir námsstjórar, sem skipaðir séu af kennslumálaráðh. Það er gert ráð fyrir, að landinu verði skipt í 6 eftirlitssvæði með einum námsstjóra á hverju svæði. Það er sérstaklega eitt atriði í 24. gr., sem ég vil vekja athygli hv. d. á og ég mun bera fram brtt. við við 3. umr. hað segir í gr., að til námsstjórastarfsins skuli velja hina hæfustu menn úr stétt ísl. barnakennara, og skuli þeir ráðnir til 5 ára í senn. Í fyrsta lagi hefi ég það við þetta að athuga, að sé valinn hinn hæfasti maður í starfið, þá sé hann ekki ráðinn nema til 5 ára í senn. Það er yfirleitt ákaflega hæpið, að nokkur fáist til þess að leggja á sig aukanám og vinnu í að kynna sér þessi mál sérstaklega, sem þörf er á, ef svo á að ganga þannig frá högum hans að skipa hann aðeins til 5 ára í senn. Mér skilst, að hið opinbera verði að taka á sig samskonar áhættu hér og í öðrum tilfellum, þegar það skipar embættismenn til einhvers starfa. — Það, sem ég hefi annað við þetta að athuga, er það, að námsstjórinn eigi endilega að vera úr stétt ísl. barnakennara. Það er ekki svoleiðis, að ég álíti ekki marga úr þeirri stétt hæfa til þessa starfa, en það er engum vafa bundið, að margir þeirra, sem mest hafa numið í uppeldisfræði, þurfa ekki endilega að vera úr stétt barnakennara. Mér er kunnugt um, að nýlega hefir lokið háskólaprófi í uppeldisvísindum einn Íslendingur, frábær dugnaðarmaður. Með þessum ákvæðum mundum við ekki geta notað þennan mann fyrir námsstjóra. Og yfirleitt þó að einhverjum stúdentum t. d. þætti fýsilegt að búa sig undir þetta starf, þá kæmu þeir ekki til greina. (HannJ: Er hægt að lifa á þessu starfi?). Það stendur ekkert um það hér í frv. Það eru engin ákvæði um, hvort menn geta lifað eða dáið af því. — Í 23. gr. segir, að skólastjórar kaupstaðaskólanna skuli vera námsstjórar yfir þeim, m. ö. o., þeir eiga að vera námsstjórar yfir sjálfum sér. Þessir skólastjórar eiga svo að eiga heimting á að fá aðstoð til að vinna sitt eigið embættisstarf, skólastjórnina, til þess að geta framkvæmt eftirlitið með sjálfum sér. Ég efast ekki um, að þetta ákvæði er þarna inn komið af þeim orsökum, að skólastjórarnir við stærri skólana hafa sótt þetta nokkuð fast, að öðrum væri ekki falið eftirlit með þeim en þeim sjálfum. Ég verð að segja, að mér finnast þessi ákvæði óhafandi eins og þau eru í frv. Ég vildi ennfremur vekja athygli hv. d. á því, að námsstjórum er eftir ákvæðum frv. ætlað að takast á hendur þó nokkurn hluta af störfum, sem nú heyra undir fræðslumálastjóra. Allur þessi skilningur á hlutverki námsstjóra er ekki á rökum reistur. Námsstjóri á að vera fyrst og fremst leiðbeinandi um dagleg störf og fyrirkomulag kennslunnar. En að mínu áliti á sjálf yfirstjórn skólanna að heyra undir fræðslumálastjórnina sjálfa.

Ég hefi ekki, eins og ég áðan tók fram, haft tíma til að semja þessar brtt., en ég vænti þess, að 7. kafli þessa frv. megi verða betur úr garði gerður en hann nú er.