18.04.1936
Neðri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

73. mál, fræðsla barna

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það frv., sem hér liggur fyrir, er ekki nýr gestur hér. Það kom fram á síðasta þingi og var þá lítið við það gert. Ég leyfi mér einnig að fullyrða, að sá undirbúningur, sem málið hefir fengið, sé harla einhliða í samanburði við það, sem vera ætti, þegar það er haft í huga, að mál þetta á að ná inn á hvert heimili í landinu. Það hefir líka verið upplýst, og var reyndar gefið, þegar athugað er, hverjir unnu að þessu máli í svokallaðri mþn., sem hafði málið til meðferðar, að þeir mundu líta nokkuð sérhliða á málið. Því að það mun hafa verið svo, að til starf, þessa hafa verið valdir einungis skólamenn, sem ekki eru úr héruðum utan kaupstaðanna. Það má í öðru lagi segja, að furðu gegni, hversu hljóti hefir verið um þetta mál á Alþingi, hversu lítið hv. þm. hafa látið það til sín taka yfirleitt, sem ég tel, að hofi komið fram í júní, að nú fyrst, alveg á síðustu stundu þessa þings, sem er annað þingið, sem mál þetta liggur fyrir, nú á allra síðustu stundu þessa þings er farið að bera fram brtt. við þetta frv. Málið er þannig lagt fram nú, að því fylgir engin grg. önnur en sú, sem í öndverðu fylgdi því, en það er vísað til hennar. Hv. menntmn. þessarar d. hefir ekki séð sér fært að sinna málinu neitt. Það lítur út fyrir, að menntmn. hafi ekki haft lyst á að taka málið alvarlega. Meiri hl. þeirrar n. bar að vísu málið fram. En maður er nú orðinn því svo vanur, að menn beri fram hin og þessi mál, þó að þeir sömu menn séu í raun og veru þeim ekki samþykkir, og enginn flm. vilji helzt vera ábyrgð sjálfur á flutningi málanna. Þegar einhver meiri hl. n. ber þannig fram mál, því eru þau vísast þannig til komin, að ríkisstj. vilji ýta málunum áfram, kannske af áhuga fyrir málunum og kannske of skyldutilfinningu, þó merkilegt sé um hæstv. núv. stj. Ég hafði vænzt þess, að n. hefði unnið betur að málinu. Ég vil heyra frá þeim hl. n., hvað hann vill leggja til þessara mála, sem ekki taldi sig í meiri hl. í n. Því að það er kunnugt, að á þessu þingi hafa ýmsir þm., sem eru í fleiri n., svo mikið að gera, að þeir munu ekki hafa tíma til að kynna sér öll mál svo sem skyldi, sem liggja fyrir þeim n., sem þeir eru í, svo sem kunnugt er. Og þannig hefir það orðið fyrir mér. Ég hefi ekki haft tíma né verulega löngun til að blanda mér í þetta mál, fyrr en á elleftu stundu, er það var sýnt, að enginn mundi taka sig til og kryfja það alvarlega. Og þess er ekki að vænta af meiri hl. n., Að hann taki það alvarlega. — Þetta er formáli minn fyrir því, að ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 283, sem eru að sumu leyti allvíðtækar.

Þessar brtt. taka nú til ýmissa atriða og ýmissa ákvæða frv., sem eru meginatriði þess. En það má segja, að í frv. og þessum brtt. beri mest á fjórum atriðum, þ. e. a. s., það eru 4 atriði í frv., sem ég tel höfuðatriði þess.

Skylt er að vísu að geta þess þegar, að menntmn. virðist hafa vaknað, þegar þessar brtt. komu frá mér, og síðan hefir hún sýnilega farið að fara í gegnum frv. og gera við það brtt., sem nú eru komnar fram allýtarlegar á þskj. 354 og 367, sem snúast um sömu meginatriði og brtt. mínar á þskj. 283. Og mínar brtt. á því þskj. hafa verið teknar upp í brtt. n. í meginatriðum, og er ekkert nema gott um það að segja. Að því leyti er tilgangi mínum náð, úr því að n. hefir einum rómi tekið til greina það, sem ég hefi hreyft. En að sumu leyti hefir n. þó ekki tekið allskostar í sama streng og ég, og mun ég víkja að því síðar.

Þessi fjögur atriði, sem að mínum dómi eru höfuðatriði frv., en líka mikill ásteytingarsteinn fyrir mig og aðra, sem sjá víðar en aðeins yfir kaupstaðalóðirnar, eru þau, sem nú skal greina.

Í fyrsta lagi skólaskyldualdurinn. Það er engin nýlunda, að talað sé um skólaskyldu hér, og heldur ekki nýlunda, að uppástungur komi fram um að haga henni á ýmsa lund. Þessar uppástungur hafa gjarnast gengið í þá átt eina, að þessi svo kallaða skólaskylda barna byrjaði á sem allra yngstum aldri. Það hafa verið færð rök fyrir því, að þetta geti haft fullan rétt á sér á einstökum stöðum, og þessir staðir eru kaupstaðirnir. Það er vitað, að það er allt öðru máli að gegna, þegar talað er um börn í kaupstöðum, sem eru dögum og mánuðum saman á mölinni í kaupstöðunum og götum bæjanna, heldur en um börn í sveit. Engum manni, sem er kunnugur í sveit, dettur yfirleitt í hug að bera saman kjör kaupstaða- og sveitabarna að þessu leyti eða að segja, að það sé jafnsjálfsagt, að öll börn í sveit eigi að vera skólaskyld eða fara í skóla og njóta handleiðslu kennara utan heimili, þeirra á ýmsum tímum árs, eins og um kaupstaðabörn. Það má segja, að nokkur og sumsstaðar full nauðsyn sé á þessu í kaupstöðum landsins. Ég hygg líka, að mönnum komi yfirleitt saman um það, að það sé mikils virði, að kaupstaðabörn gætu verið sem mest uppi í sveit, jafnvel mestan hluta þess tíma, sem við köllum sumar. En þó að hægt væri að ráða fram úr þessum málum, þá mundi engum koma til hugar, að kennari þyrfti að fylgja börnunum upp í sveitina. Ég held, að menn við það að athuga þetta gætu orðið sammála um, að náttúran sjálf, og að öðru leyti góð aðbúð barnanna, gæti orðið börnunum bezti kennari og leiðbeinandi, og að heilsu barnanna væri um leið bezt borgið með því, að börnin fengju þannig að lifa í náttúrunni. En börn í sveit geta lifað og hrærzt í náttúrunni heima í sínum heimilum, og er þess vegna því minni ástæða til að láta þau hafa kennara yfir sér yfir sumarið, og þó lengri tími sé tiltekinn.

Ég og margir aðrir telja, að börn á mjög ungum aldri eigi að vera undir handleiðslu heimilanna, en ekki kennara utan heimila þeirra; það síðartalda sé þeim óhollt. Þetta er mín skoðun, og tala ég þar ekki út frá neinu heimaalningssjónarmiði, heldur þykist ég vera í góðu samræmi við reynsluna, er ég fyllyrði, að það sé ekki hollt börnum á aldrinum 7–10 ára að vera undir hendi kennara utan heimila sinna yfir lengri tíma, kannske kúguð til að sitja við lexíulærdóm. Á þeim aldri er þeim eðlilegra að hafa annað fyrir stafni. Það þori ég að fullyrða, að ef börnin, hvað sem öðru líður, fá að þroskast sem eðlilegast og bezt á þessum aldri, þá er það áreiðanlega sá bezti undirbúningur undir það nám, sem bíður þeirra við 10 ára aldurinn, sem er núverandi skólaskyldualdur þeirra. Það er sannarlega nógu langur tíminn, sem börnin eru látin vera innan húss til þess að reyna að troða í þau fróðleik úr bókum svo miklum, að enginn sér fram á, að börn geti tileinkað sér á þeim aldri neitt svipað því.

Ef hægt væri að uppfylla aðrar skynsamlegar kröfur um barnafræðslu, þá held ég, að börnum væri vel borgið með það, að skólaskyldualdur þeirra, væri 4 ár, eins og verið hefir, til þess að nema inni í skólastofum undir hendi kennara bókleg fræði. Það getur verið, að börn innan við 10 ára aldur, sem eru í kaupstöðum og ekkert er hægt að gera við, svo vel sé, heima á heimilum þeirra yfir daginn að vetrinum, sé gott að hafa undir handleiðslu góðra manna á vissum til þess ætluðum stöðum, hvort sem það nú þyrftu að vera kennarar eða það væru einhverjir aðrir yfir þeim til þess, að þau nemi undirstöðuatriði þess, sem þeim er í lífinu nauðsynlegt að vita deili á. En slíka fræðslu væri enganveginn endilega nauðsynlegt að veita með bóknámi. En það er sannarlega nóg, að þau fari að sitja yfir bókum, þegar þau eru orðin 10 ára.

Skólaskyldualdur er og má veru frá 7 til 14 ára í kaupstöðum. En ég legg áherzlu á það, að það má engan veginn ætlast til þess, að aldurinn innan við 10 ár eigi að notast til að læra þá mestmegnis bóklega fræði, þ. e. a. s. til bókalestrar. Menn tala réttilega um það, að undirstaðan undir allri fræðslu sé það að kenna að lesa. Má um það deila, hvenær sé hentugast að byrja að kenna börnum að lesa, því að börn eru mjög misjöfn að þroska, sem kunnugt er. En þó að börn að sjálfsögðu eigi að vera orðin læs 10 ára, þá er hinu enganveginn þar með slegið föstu, að þau eigi að byrja á að læra að lesa svo og svo ung. Það fer mikið eftir upplagi, hvenær hentast er að þau byrji á því. Og svo framarlega sem heimilin nú og verða um langan tíma að annast lestrarkennsluna, þá tel ég, að heimilin eigi að vera alveg sjálfráð um það, hvenær þau byrji að kenna börnum að lesa, hvort það er byrjað þegar börnin eru 4–5 ára eða 6–8 ára. En nú er því til að svara, að allur þorri heimila keppist um að láta börn byrja að læra að lesa mjög snemma. Samt sem áður verður það tíðara með hverju ári sem líður, að börn koma illa læs í skóla 10 ára, verr læs heldur en áður var, að sagt er. Sé svo, þá getur það ekki komið til af því, að heimilin öll slái slöku við lestrarkennsluna frekar en réttmætt væri. En ég hygg, að þar sem þetta á sér stað, þá eigi það rót sína að rekja til þess, að öll löggjöf virðist miða að því að taka þessa kennslu úr höndum heimilanna og fá hana í hendur einstökum mönnum utan þeirra. Þessi stefna í löggjöfinni getur og hefir verkað þannig á sumt fólk, að það fer að hugsa sem svo, að það taki því ekki að fara að pína börnin til þess að læra það heima hjá aðstandendum þeirra, sem eftir l. er hægt að láta kenna þeim í skóla. þessi óholli hugsunarháttur virðist vera að færast í auka, ekki sízt í kaupstöðum.

Hv. þm. V.-Ísf. taldi það sjálfsagt takmark, og sem óðfluga yrði keppt að, að stofna heimavistarskóla um landið þvert og endilangt. En ég og fleiri hv. þm. erum á móti því, og það er langt frá, að landslýðurinn yfirleitt álíti það sem sjálfsagt takmark.

Brtt. mínar fara í fyrsta lagi fram á það, að breyta ákvæðunum um skólaskyldu barna þannig, að aðeins í kaupstöðum og kauptúnum með 5000 íbúa eða fleiri séu börn skólaskyld á aldrinum 7–14 ára, en á öðrum stöðum 9–l4 ára. Þótt ég teldi öllu borgið, þó að miðað væri áfram við aldurinn 10–l4, þá geri ég þetta að till. minni og tel það mega að skaðlausu.

Nú hefir hv. n., þegar hún fór að taka málið alvarlega, horfið að nokkuð líku og tekið þessa till. til greina, en orðað hana nokkuð á annan hátt. Tel ég, að við það megi hlíta, því að eftir till. n. er ákvæðið um, að skólaskyldualdur skuli vera 7–14, en hitt sem undanþága. Yrði það þá svo, að úti um land yrði sú undanþága sem aðalregla, og kemur það frá mínu sjónarmiði í sama stað niður.

Þá eru það heimavistarskólarnir. Í 6. gr. frv. er svo fyrirskipað, að heimavistarskóla skuli hafa fyrir öll þau börn, sem sökum vegalengdar geta ekki gengið í skóla. Þetta lítur sæmilega út á pappírnum, en þegar betur er athugað, hver er höfuðtilgangurinn með þessu, þá er bert, að það liggur á bak við, að það er verið að gera það að aðalreglu, að heimavistarskólar séu upp teknir. Þá fer þetta að verða nokkuð óákveðið og undir valdi annara komið en þeirra, sem mestu eiga hér að ráða, því að það er og verður álitamál, hvenær börnin geta ekki gengið í skólann sökum vegalengdar.

Ég tel þess vegna óheppilegt, að þetta „skulu“ sé látið standa í gr., og fyrir því hefi ég komið með brtt. um, að þetta skuli orða svo: „Heimavistarskóla má stofna fyrir öll þau börn, sem ekki geta gengið í skóla sökum vegalengdar, þegar samþykkt hefir verið um það gerð af öllum réttum aðiljum.“ Þar vísa ég til 17. gr., því að rétta aðilja í þessu efni tel ég þá, sem eiga að kosta börnin. N. aftur á móti leggur til, að 2 fyrstu málsgr. orðist svo: „Í hverju skólahverfi skal gera skólahús á hentugum stað, sem fræðslumálastjórn samþykkir, heimangönguskóla þar, sem staðhættir leyfa, en heimavistarskóla þar, sem heimangöngu verður ekki við komið sakir vegalengda í skólahverfinu.“ Þetta er betra en í frv., þetta gefur meira svigrúm, því að í frv. er í raun og veru ætlazt til, að heimavistarskólarverði reistir víðsvegar um land, og síðar í frv. er ákveðið, hvernig slík skólabákn skuli reist, en þó ekki sagt nóg um það, því að með þessu frv., ef að l. verður, eru numin úr gildi fræðslul. frá 1926. Ég tel aftur, að full trygging náist ekki með till. n., heldur aðeins með minni till., því að þar er það ekki ákveðið, að heimavistarskóla skuli reisa, heldur að megi reisa þá, þegar réttir aðiljar samþ. Eftir frv. má reisa stóra heimavistarskóla, sem kæmu til með að gleypa börn af stórum svæðum, en eftir till. n. er ætlazt til, að í hverju skólahverfi skuli reisa skólahús. En um það, hvernig skuli standa straum af stofnun þeirra og starfrækslu, eru, svo sem hv. þm. mun vera kunnugt, ákvæði í 14. og 15 gr., sem bæði ég og hv. n. hefir gert brtt. við, og þá aðallega við ákvæðin um þessa sjóði, sem þar um ræðir.

Í 14. gr. er gert ráð fyrir, að í hverju fræðsluhéraði skuli vera fræðslusjóður. Það er skylt að stofna hann eftir frv. Þessi sjóður á eftir því, sem gr. segir, að standa straum af kennslunni, og í sambandi við þessa fræðslusjóði skal líka stofna skólabyggingarsjóð, en hann á að standa straum af skólabyggingunni.

Að því er snertir fræðslusjóðinn, því að hann er undirstaðan þarna, þá er ég á móti því, að það sé skilyrðislaus skylda að stofna hann, og geri því brtt. við það. Legg ég því til, að 1. málsliður 11. gr. orðist svo: „Í hverju fræðsluhéraði getur sýslunefnd að fengnum tillögum hreppsnefndar stofnað fræðslusjóð, er stendur straum af útgjöldum til barnafræðslunnar.“ Á þetta hefir hv. n. alveg fallizt, því að mín brtt. stendur orðrétt í 13. brtt. hennar. Hún er því fallin frá því, að skylda skuli ríkja um þetta, og er það vel. Hún hefir séð eins og ég, að það náði engri átt að skylda öll héruð til þess að stofna slíka sjóði og skylda héruð til þess að halda uppi þessum sjóði. Sömuleiðis hefir n. tekið upp svipað ákvæði og ég lagði til, að yrði lögfest, sem sé, að þar sem fræðslusjóðir eru ekki stofnaðir. skuli fara um greiðslu kostnaðar við barnafræðsluna eftir núgildandi reglum. Ég er því alveg þeirrar skoðunar, að n. hafi í þessu tilliti farið rétta braut. Mun ég því fylgja till. hennar eins vel og mínum að því er þetta snertir.

En svo eru ákvæði 15. gr., sem n. hefir líka gert brtt. við í samræmi við brtt. sínar við 14. gr. Hefir hún þannig lagt til, að í staðinn fyrir, að stofna skuli skólabyggingarsjóð, sé það aðeins heimilt, og það er líka alveg rétt og eftir því, sem ég tel, að vel megi við hlíta, þó að ég hafi ekki viljað orða það þannig, heldur leggi til, að þar, sem fræðslusjóðir hafa verið stofnaðir, skuli stofna skólabyggingarsjóð, því að það getur verið rétt að stofna hann þar, sem fræðslusjóður hefir verið stofnaður, en ég sló höfuðvarnaglann með a-lið till.

Þá eru ákvæðin um tekjuöflun skólabyggingarsjóðs, sem ég tel hæpið, að megi haldast óbreytt. Í 15. gr. a-lið er sjóðnum ætlað til tekna 10% af þeim tekjum sýslusjóðs, sem lagðar eru á hvern hrepp eftir skattaframtali. Þetta tel ég, að megi ekki lögfesta.

Ég tel, hvað sem framgangi fræðslumálanna líður, að það sé mjög hæpið að fara beint að skylda sýslusjóð til þess að leggja svo mikinn hluta af tekjum sínum í þennan sjóð, og ég vil ekki vera með í því. Og þótt till. n. nái fram að ganga, sem ég tel réttmætt, þá mun ég ekki geta fylgt því að taka eigi þetta framlag, en verð að hlíta b- og c-liðnum. D- og e-liður virðast mér mest út í loftið, þar sem talað er um tekjur sjóðsins af sektum, samskotum og gjöfum. Virðist mér það vera sett mest til að prýða upp á tekjuöflun frv., án þess að menn geri sér miklar vonur um tekjur þar af. Sérstaklega álít ég a-liðinn varhugaverðan, sem gerir ráð fyrir, að 10% af tekjum sýslusjóðs skuli fara í þennan sjóð. (PHalld: Allt að 10%). Já, en maður þekkir nú það um slík ákvæði, að það er ekki venjan að fara í það lægsta, sem heimilað er, en fremur haldið sig við hámarkið.

Þá er 4. höfuðatriðið, sem ég tel, að frv. hafi inni að halda og ég geri brtt. við. Það er um hina svokölluðu námsstjóra eða eftirlitkennslu. Eins og kunnugt er þeim, sem lesið hafa frv., þá er 7. kafli um þessa eftirlitskennslu. Þetta er ekki nýtt atriði, því að nú eru til l. um þetta efni, þó að framkvæmd þeirra hafi verið frestað á ýmsan hátt. Þessi ákvæði eru í l. nr. 35 frá 1930, og legg ég til, að þau l. verði nú felld úr gildi, svo að ekki verði til tvennar reglur um þetta efni. En ég tel, að ekki sé rétt að lögleiða, að skylt skuli að halda uppi þessari eftirlitskennslu eða hafa þessa námsstjóra, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég vil því, að þessu sé þannig hagað, að það sé heimild, — fræðslumálastjórn geti sameinað tiltekna hluta landsins utan kaupstaðanna í eftirlitssvæði, ef meiri hluti skólanefnda á svæðinu og fræðsluráð æskja þess. Ég tel þetta sem sé enga lífsnauðsyn, ef kennarar eru sæmilegir, sem yfirleitt má gera ráð fyrir, þar sem þeir hafa verið undir handleiðslu hinna færustu fræðimanna í þessum greinum. Ég tel því enga þörf á því, að hafðir séu þeim til eftirlits menn, sem eru kannske ekkert betur vaxnir starfinu en þeir sjálfir. Við sem börnin eigum, erum ef til vill ánægð með þessa kennara og þurfum því engan til þess að segja þeim til. Hinu er ég ekkert á móti, tel, að það geti verið og megi hafa þessa eftirlitsmenn hlaupandi út um götur í kaupstöðunum. Frv. gerir ráð fyrir, að skólastjórar séu námsstjórar hver í sínum skóla, en ég vil hafa þar hausavíxl og láta þá lyfta sér upp með því að fara hver í annars skóla, en ekki láta hvern líta eftir sjálfum sér. N. leggur aftur á móti til í sínum seinni till., að námsstjóra skuli skipa, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Má vel við það hlíta, því að þá ræður Alþingi í hvert sinn, hvort þessir menn eiga að vera hlaupandi, gangandi eða farandi um landið.

Fundartíma er nú að verða lokið, og hleyp ég því yfir ýmislegt, sem þörf hefði verið að minnast á. Vil ég þó benda á það, að n. hefir ekki séð sér fært að hreyfa við 18. gr., sem ég hefi séð ástæðu til að hreyfa við. Hún ræðir um þá skóla, sem eru einstakra manna eign. Ég álít, að skólar geti verið góðir, þó að það séu ekki landsins skólar. Ég tel því óþarft fyrir löggjöfina að leggjast á þessa skóla með ákveðnum tilgangi og setja þá á lægri bekk. Þess vegna hefi ég komið með brtt. við þessa gr., og þá fyrst við enda 1. málsgr., þar sem stendur „enda lúti slíkir skólar sama eftirliti og sömu reglum og aðrir barnaskólar“, en ég vil segja: „enda lúti slíkir skólar eftirliti fræðslumálastjórnar.“ Getur þá fræðslumálastjórn ráðið með samkomulagi við hlutaðeigendur, hvernig þessum skólum er hagað, eða verið um það einráð. Ég tel ekki brýna nauðsyn á því, að þessir skólar lúti sömu reglum og landsins skólar. Þeir geta verið góðir, þó að þeir hafi einhverjar aðrar reglur.

Í annan stað tel ég réttara, að 2. málsgr. sé ekki orðuð eins og hún er í frv., þar sem segir, að kennarar við slíka skóla verði að uppfylla öll skilyrði, sem sett eru eða sett kunna að verða um rétt til að kenna í barnaskólum landsins. Mér finnst duga, að þeir hafi samþykki fræðslumálastjórnarinnar til að annast kennsluna. Hér er ekki um neina háskóla að ræða, heldur aðeins barnaskóla, og þá fyrst og fremst smábarnaskóla. Frv. heimtar kennaramenntun af þessum kennurum, svo að enginn má halda á barni og láta það lesa, nema hann hafi próf þar upp á. Eins og við, sem höfum leyfi til þess að tala hér á þingi, eigum ekki að fá að ráða, hverjum við felum að kenna börnum okkar að lesa. Við þurfum ekkert lagaboð til að vísa okkur til vegar þar. Þess vegna vil ég kveða svo að orði, að kennarar við slíka skóla skuli hafa samþykki fræðslumálastjórnar, enda þótt þeir hafi ekki uppfyllt öll skilyrði, sem heimtuð eru af kennurum við skóla ríkisins, sem verða að hafa gengið í gegnum kennaraskóla eða kennaraháskóla.

Ég á ýmislegt eftir, en nú slær klukkan, og mun ég því láta staðar numið að þessu sinni, en mun taka aftur til máls, ef þurfa þykir, þegar málið verður aftur tekið til umr. hér í d.