20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hefi ekki mörgu að svara, en þó gefur ræða hv. þm. Borgf. mér ástæðu til þess að segja nokkur orð. Það er ekki svo oft, sem það kemur fyrir, að hann og hv. þm. S.-Þ. séu sammála, að það er full ástæða til að þykja slíkt bræðralag grunsamlegt og ætla, að eitthvað sérstakt búi undir. Og því ríkari er þessi ástæða, þar sem þeir eru nú sammála um það, að setja bráðabirgðalög um barnafræðslu í landinu. Bráðabirgðalög er venjulegast að setja um tolla eða skatta eða eitthvað, sem á að afnema aftur. En bráðabirgðalög um barnafræðslu virðast tæpleg, koma til greina, nema það sé tilætlunin að afnema hana á næstunni, eins og þegar tollur er felldur úr gildi. — Nei, annaðhvort verða þau lög, sem nú gilda um barnafræðsluna, að haldast, eða önnur ný að koma í staðinn til frambúðar. Þar verður ekkert millispor stigið.

Brtt. hv. þm. V.-Sk. þarf ég ekki að tala um né heldur svar, ræðu hans, því að hún var öll miðuð við frv. óbreytt, en ekki eins og það er með brtt. menntmn. Hann hafði um frv. ýms óvingjarnleg orð, sem ég get ekki verið að tína upp.

En ég vil fullyrða það, að þetta mál er vel undirbúið eftir því, sem gerist um mál á Alþingi, þótt ekki fylgi nál. frv. Því fylgdi í stað þess álit mþm. þeirrar, sem undirbjó málið og samdi frv., og loks álit allra skólanefnda, sem hafa kært sig um að láta það í ljós. Ég held, að mál séu ekki betur undirbúin en þetta á Alþingi að öllum jafnaði.

Menntmn. hefir orðið sammála um að breyta ýmsum ákvæðum frv. í heimildir. Ég get ekki séð neina ástæðu til þess, að við þessu sé amazt. því að þær verða ekki notaðar af öðrum en þeim, sem það vilja. Fyrst þegar almennt er farið að nota heimildirnar, verða þær gerðar að föstum reglum. Ég tek til dæmis heimildina um 7 ára skólaskyldualdur. Það er augljóst, að hún myndi ekki geta orðið að lögum, fyrr en eftir allmörg ár. Eins og stendur er þörf á slíkri skólaskyldu í kaupstöðum og þorpum, og sennilegt, að hún verði fljótlega notuð þar, en síður í sveitum. Þó væri mjög æskilegt, að einhver sveit vildi gera slíka tilraun. Úrslitin færu svo auðvitað eftir reynslunni. Hér er ekki um neinn klofning að ræða milli skóla og heimila eða milli mæðra og skóla. Ég hefi ekki orðið þessa klofnings var, en hinsvegar oft þakklætis mæðranna til skólanna. Margar mæður í sveitum óska eftir meiri hjálp um fræðslu og uppeldi barna sinna og telja sig standa illa að vígi. Náttúran veitir að vísu gott uppeldi, en í nútíma þjóðfélagi er það ekki einhlítt að verða sterkur og umgangast skepnur. Á þessum tímum geta fáir þrifizt í þjóðfélaginu án einhverrar skólamenntunar. Allir, sem eiga fyrir börnum að sjá eða bera ábyrgð á þeim, verða að nota skólana, og fæstum finnst of mikil sú aðstoð, sem þeir veita. Skólarnir þykja aldrei of margir eða víðtækir, fyrr en er farið að ræða kostnaðarhliðina á þeim.

Ég þarf ekki að tala langt mál um heimildina til að stofna fræðslusjóði og byggingarsjóði.

Þetta er aðeins heimild, og ég býst við því, að fáar sýslur noti sér hana. En reyndi ein heimildina, og reyndist hún vel, er líklegt, að fleiri kæmu á eftir.

Hér er yfirleitt ekki um að ræða neinar öflugar fyrirskipanir, heldur heimildir til handa sem flestum, sem vilja stefna í rétta átt. En þó er því miður ólíklegt, að þessar hugmyndir geti orðið að veruleika, fyrr en eftir alllangan tíma. Því að jafnvel þótt héruðin vildu nota sér heimildirnar, er framkvæmd þeirra komin undir fjárveitingum Alþingis. Það yrði stórfé, sem Alþingi þyrfti að veita á hverju ári til skólabygginga. Nú veitir það aðeins 1/5 af því, sem hreppar og bæir óska. Ég held, að andstæðingarnir ættu að láta sér þennan hemil nægja.

Ég kann því illa, að verið sé að hnýta í kennarana. Þeir vinna erfitt starf og vinna vel fyrir lítil laun. Þeir eiga að fá lengri starfstíma og laun að því skapi. Það er í þágu þeirra og barnanna.

Um námsstjórana þarf ég ekki að tala langt mál. Um þá er aðeins heimild, og framkvæmdir komnar undir fjárveitingu Alþingis. En að þeir séu óþarfir, svarar sér sjálft, þar sem starfsemi þeirra hefir verið rekin um tugi ára í nágrannalöndunum og þykir sjálfsögð og ómissandi.

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir afstöðu hans til málsins og get fullvissað hann um það, að n. hefir reynt að taka tillit til óska hans. N. gerir ráð fyrir 33 vikna kennslu + 5 vikna fríi. Það verða 38 vikur, eða 9½ mánuður. Kostnaður við kennsluna er miðaður við þennan tíma. Ég tel, að það muni vera erfitt að segja um það, hvað mikill kostnaðarauki verði af þessu frv., vegna þess að það er ómögulegt að segja með vissu, hvað verður um hvert einstakt hérað, og hvenær hægt verður að losna við einn og einn kennara. Ýms af ákvæðum frv. er ekki hægt að framkvæma, fyrr en kennarafækkunin fer fram, og ýmsir kennarar þurfa að búa við þau skilyrði, sem þeir hafa nú, og hafa skemmri kennslutíma heldur en frv. ákveður, þangað til kennarafækkunin er alveg komin fram.

Það var líka ein stór breyt., sem við gengum inn á, en mér var að vísu tregt um, og það var að heimila undanþágu frá skólaskyldu í þorpum og kaupstöðum, og yfirleitt við heimangönguskóla utan kaupstaða. En þessi breyt. hefir ákaflega mikil áhrif á það, að kostnaðarauki af þessu frv. verður minni heldur en ella hefði orðið, vegna þess að utan kaupstaða nær skólaskylda nú ekki neðar en 10 ár, en í kaupstöðum öllum nær hún niður í 7 eða 8 ár, svo að lengingin, sem af þessu frv. stafar, mun hvergi vera meiri en 1 ár í kaupstöðum.

Ég vil vænta þess, að þetta mál fái góðar undirtektir hér í d., því ég hygg, að allir aðiljar hafi bezt af því, bæði þeir, sem eiga að annast kostnaðinn af barnafræðslunni, og svo börnin sjálf og kennararnir, og þess þarf sannarlega með að gera einhverjar ráðstafanir til að bæta þeirra kjör frá því, sem nú er.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að svo stöddu, vegna þess að margt af því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði í sinni ræðu, var ekki beint viðkomandi þessum ákvæðum, sem hér er um að ræða, heldur svona almenns efnis, og það mundi taka allt of langan tíma að fara út í allt það.