20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

73. mál, fræðsla barna

*Pétur Ottesen:

Ég vildi aðeins segja örfá orð út af ummælum hv. þm. V.-Ísf., sem fannst það dálítil grunsamlegt, að við skyldum nú vera á sömu skoðun, ég og hv. þm. S.-Þ. Þessi ummæli hv. þm. skyldu nú ekki vera af afbrýðisemi sprottin, því eins og kunnugt er, þá hefir hann fylgt hv. þm. S.- Þ. lengur og dyggilegar heldur en ég hér á Alþingi. Ég veit ekki, hvaða ástæða önnur en þessi geti verið fyrir þessu tali hv. þm.

En út af því, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði, að hér gæti ekki verið um neina bráðabirgðabreyt. að ræða. þá finnst mér það dálítið skrítið, því það má yfirleitt segja það um allar breyt., sem gerðar eru, að maður veit ekki, hvað þær standa lengi. En hinsvegar virðist mér í þessu falli fullkomlega réttlætanlegt, að sveitunum sé gefið nokkurt tækifæri til þess að átta sig á því, hvort færa eigi málið inn á þessa braut, sem gert er í þessu frv. Og þá sé ég ekki — ef sá réttur sveitanna er á annað borð viðurkenndur til frekari athugunar á þessu máli —, að neitt sé því til fyrirstöðu að breyta lögunum í smærri atriðum, sem menn geta almennt komið sér saman um, að horft gætu til bóta fyrir barnafræðsluna í landinu.