20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

73. mál, fræðsla barna

*Gísli Sveinsson:

Síðan ég talaði hér í gær um þetta mál hafa talað af hálfu n. bæði hv. frsm. og hv. 9. landsk., og mun ég víkja máli mínu til hans og þeirra orða, sem hann viðhafði, og þá sérstaklega um mínar till. samanborið við till. n. Hann gat þess, að menntmn. hefði komið fram með sitt nál. og till þá fyrst, er hún hafði tök á að sinna málinu. Ég býst við því, að n. hafi átt fyrr tök á því að sinna málinu, því eins og kunnugt er, þá hefir þetta mál legið hér fyrir áður, og þeir, sem sæti eiga í menntmn., eins og hv. frsm. og hv. 9. landsk., hafa því átt fullan kost á að kynna sér málið og gera glögga grein fyrir sinni skoðun. Þessi afsökun hv. þm. hefir því ekki við neitt að styðjast. — Hv. þm. vildi líka neita því, að brtt. n. ættu nokkuð skylt við mínar brtt. Hann má gjarnan, ef honum þykir það henta, segja það, sem hann veit sjálfur, að er rangt. Hann hefir gert það áður. En það er bersýnilegt, enda er það viðurkennt af n., og er ég ekki neitt að undrast yfir því, að mínar till. gáfu tilefni til þess, að n. fór að koma með sínar brtt., sem nógu lengi var búið að standa á, og fóru þær að sumu leyti inn á það sama og mínar brtt., og voru meira að segja sumstaðar teknar upp orðréttar gr.

Það var að heyra á hv. frsm., að hann teldi óviðeigandi, að ég miðaði að nokkru leyti mál mitt við frv. En ég veit ekki betur en að það sé frv., sem liggur til grundvallar fyrir þessum umr., en ekki þær brtt., sem fram koma og raska frv. En með þessu játar hv. frsm., að hann hefir kannske frá upphafi verið þeirrar skoðunar, að frv., eins og það er úr garði gert, sé ekki hæft til þess að verða að lögum, og það sýna líka brtt. hv. nm. Í þessu atriði erum við þá sammála, að frv. er ekki hæft til þess að verða að lögum, eins og það er úr garði gert. Það sýna í fyrsta lagi orð þessara hv. þm. og í öðru lagi áþreifanlega þeirra brtt., sem þeir telja, að geri það að verkum, að nú megi við hlíta að lögleiða ákvæði frv. með þeim breyt., sem þeir vilja vera láta. En því ber ekki að leyna, að þeirra breyt. eru í mikilli andstöðu við sumt af því, sem grg. frv. í upphafi telur stefnu þess. Stefna frv. er í fyrsta lagi sú, að keyra skólaskyldualdurinn niður í 7 ár, í öðru lagi að koma á heimavistarskólum um land allt mjög bráðlega, í þriðja lagi að skylda menn til að stofna fræðslusjóði og skólabyggingarsjóði og í fjórða lagi að innleiða hreina skyldu fyrir svokallaða námsstjóra. Þetta er höfuðatriði frv., en úr þessu öllu er dregið bæði í mínum brtt. og einnig í brtt. n. En það er hlutverk okkar hér á Alþingi að kanna það fyrst, hver er stefna þessara eða hinna mála, sem fram konur, og ekki sízt, þegar um er að ræða mál eins og þetta, því það er svo viðkvæmt mál, að ekki ber að stíga á það með neinni hörku, og í öðru lagi er þetta svo mikið fjárhagsatriði, að ekki er hægt — sízt á þessum tímum — að ganga svo fram eins og allt sé í lófa lagið. Og í þriðja lagi eru mjög skiptar skoðanir manna í þessum efnum. Á hverju ári heyrir maður talað um nýjar stefnur og rökræður um þær, og er þar hver höndin uppi á móti annari, því það er ekki hægt að ætlast til, að við Íslendingar tökum hverri stefnu afdráttar- og gagnrýnislaust, jafnvel þó að að henni standi menn, sem að sumu leyti er trúandi til að vita nokkur deili á þessum efnum. Og ég neita því ekki, að kennarar ættu að vita nokkur deili á þessum efnum, en það er þó ekki nema að nokkru leyti, því þeir hafa sitt viðhorf. og við almenningur höfum líka okkar viðhorf, og engum kennara dettur í hug að neita því, að það viðhorf hafi nokkurn rétt á sér. En ef hægt er að sameina bæði þessi viðhorf, þá má við una, en fyrr ekki. Kennarastéttin er ekki bættari með því að fá löggjöf, sem allur almenningur er óánægður með. Það er öðru nær. Og sízt væri það akkur fyrir yfirstjórn fræðslumálanna að fá slíka löggjöf, og þar býst ég við, að hv. frsm. mætti renna blóðið til skyldunnar, því hann er svo að segja æðsti maður þar, þó hann hafi ráðuneytið sér til hægri handar.

Hv. frsm. talaði um málið í gær sem eindreginn talsmaður einnar stéttar, en ég vil nota tækifæris til að benda honum á, að það er hann ekki. Hann er að vísu yfirmaður kennarastéttarinnar, en hann er fræðslumálastjóri, og það hefir mikið víðtækara svið, og ég sakna þess, að hann virðist ekki hafa það nógu ríkt í huga, að hann er a. m. k. að hálfu leyti yfirmaður hins aðiljans, alls almennings í landinu, sem stendur að fræðslunni, foreldra barnanna. — En fyrir utan foreldra, börn og kennara, þá er hér allur almenningur, sem verður að koma til sögunnar, því þetta hefir kostnað í för með sér, og hann ekki alllítinn, og þess vegna finnst mér ekki hægt að ganga framhjá því, hvað héruðin segja, og er komið inn á það í brtt. mínum, þar sem ég legg til, að eigi skuli vera skylda að stofna fræðslusjóði, heldur skuli það vera heimilt. Nú gat hv. frsm. þess réttilega, að n. væri gengin inn á það, að þetta skyldi aðeins vera heimilt, en ekki skylda, en hann verður að athuga það, að þetta var skylda í frv., og hann hreyfði ekki andmæli gegn því, fyrr en á elleftu stundu, þegar menn voru orðnir úrkula vonar um, að nokkuð kæmi frá n. En hann virðist ætla, að þetta heimildarverk n. gangi lengra heldur en það gerir. Í mínum brtt. er skólaskyldan ákvörðuð misjafnt, annarsvegar fyrir kaupstaði og hinsvegar fyrir sveitir, og það tel ég réttast. En n. lætur þessi ákvæði halda sér, að skólaskyldan skuli vera þetta, sem í frv. er ákveðið, en svo heimilar hún undanþágu, og það er nokkuð annað. Ég vil eins og nú er komið láta fastákveða, að annað gildi í sveitunum, eða að heimilt sé að færa þar niður skólaskyldualdurinn, ef mönnum sýnist svo. Og erum við þá komin að því, sem hv. þm. Borgf. tók fram — sem reyndar allir vita —, að lögin, sem nú gilda í þessum efnum, heimila þetta, og sú heimild hefir mikið verið notuð í kaupstöðum landsins. Ég tel, að þessi lög, sem endurskoðuð voru 1926, séu vel við hlítandi og geti gert allt, sem menn vilja láta gera, en ef eitthvað á að breyta til, þá verður að gera það svo gætilega, að einskis réttur verði fyrir borð borinn. Ég tók það fram í gær, að við slíkar undanþágur væri e. t. v. hlítandi, ef n. vildi lýsa því yfir, að þær ættu að vera aðalreglan, þannig að hvarvetna sem héruðin færu fram á slíkar undanþágur, þá skyldu þær verða veittar. Þá væri þessu vel borgið, því þá réðu héruðin, en ella ekki.

Hv. 9. landsk. vildi halda því fram í gær, að það hefði komið í ljós með skólaskyldualdurinn, að fólkið í sveitunum hefði unnvörpum óskað þess, að hann væri færður niður. Ég veit ekki, hvað hann meinar með þessu, nema ef komið hafi fram óskir um þetta. En ég fullyrði, að svo sé ekki. Mér er kunnugt um, að það hafi verið notuð þessi heimild að færa niður skólaskyldualdurinn, en þó ekki niður í 7 ár, og heldur ekki 8 ár, nema á Ísafirði, en þar er líka ríkjandi hinn sósíalistíski andi, sem vill keyra þetta allt í sömu hespuna. Alþýðuflokkurinn mun fyrirfram hafa gert ályktun um það að keyra þetta mál í gegn nú á þessu þingi. Í Alþýðublaðinu frá 15. apríl, þar sem einn kennari fær birt viðtal við sig, stendur, að Alþfl. hafi samþ. að fylgja málinu fram til afgreiðslu á þessu þingi. En væntanlega er sá flokkur nú ekki einráður um að keyra þetta mál í gegn. Annars segir þessi kennari, að stefnan sé sú, að setja skólaskyldualdurinn allsstaðar niður í 7 ár og að stofna heimavistarskóla um land allt. Og í laugardagsblaði Nýja dagblaðsins segir skólastjóri austurbæjarskólans, sem staðið hefir að samningu þessa frv., að síðasti farskólinn eigi að víkja fyrir heimavistarskóla eftir svo sem 10–15 ár. Nú vil ég biðja hv. frsm. að taka eftir þessu, því hann talaði um það, að einhvern tíma í framtíðinni mundi e. t. v. nálgast það takmark, ef héruðin vildu, að heimavistarskólar kæmu víðast á í staðinn fyrir farskólana, en nú segir þessi höfundur frv., að stefnan sé sú, að síðasti farskólinn eigi að víkja fyrir heimavistarskóla eftir svo sem 10–15 ár. Er þá ófyrirsynju, að við tölum hér um stefnu frv. og hvað á bak við það liggur? Ennþá er frv. þannig orðað, að það segir „það skal“ í öllum gr.

Það hefir verið nokkuð talað hér um þann mun, sem á því er, hvar barnið er. Ég tel eðlilegt, að um kaupstaðabörnin gildi að ýmsu leyti annað en sveitabörnin, og fellst fyllilega á, að rík ástæða geti verið til ýmislegs hér í Reykjavík og víðar í kaupstöðum, sem ekki getur átt við sumsstaðar annarsstaðar, og svo er um skólaskyldualdurinn. Ég legg talsvert upp úr því, sem hv. 9. landsk. vildi ekki gera mikið úr, að náttúran og aðbúðin í sveitunum hefir mikið að segja, bæði vetur og sumar. Úti um sveitir þarf ekki á þessum hörðu og óheppilegu ákvæðum að halda, fyrir utan það, að foreldrar vilja ekki finna sig í því, að skólaskyldan sé gerð svo gagngerð, og ekki fyrr en í ýtrustu nauðsyn ganga inn á að senda börnin út af heimilinu, allra sízt ef skólaskyldan byrjar við 7 ára aldur. Menn vilja ekki allsstaðar senda börnin mikinn tíma af árinu burtu af heimilunum í einhvern samsvæling hér og þar, þessa svokölluðu heimavistarskóla, þó þeir geti átt við annarsstaðar, þar sem aðstaðan leyfir og samkomulag er að öllu leyti um þetta.

Ég skal játa, að ég hefi ekki haft tök á að kynna mér til hlítar reynsluna, sem fengin er af þeim tiltölulega sárafáu heimavistarskólum, sem hér eru til. En það hefir komið hér fram, sem maður vissi áður, að það er öðru nær en hægt sé að fullyrða, eins og gert er í einn blaði bæjarins, og einnig hér af hv. 9. landsk., að reynslan af þessum skólum sé eindregin og öll í þá átt, að heimavistarfyrirkomulagið blessist betur heldur en annað kennslufyrirkomulag. Það stendur í þessu blaði, þar sem skólastjóri austurbæjarskólans talar um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta: „Ég hefi margt gott um þessa skóla heyrt og síðast nú fyrir nokkrum dögum ummæli alþm. úr Árnessýslu, sem eru skólum þessum kunnugir. Voru þeir sammála um, að þessir heimvistarskólar hefðu þegar haft þýðingarmikil menningaráhrif hver í sinni sveit.“

Þarna er vitnað til þm. Árnessýslu, þar sem talið er, að liggi við borð eða sé ákveðið, að foreldrar taki börnin úr öðrum heimavistarskólanum, ef ekki er skipt um kennara. Ekki er reynslan ótvíræð þar, og svona getur farið víðar, svo það getur verið varasamt að taka munninn of fullan í þessu efni. Reynslan af þessum skólum er yfirleitt stutt og sannar út af fyrir sig ekki mikið. Einn og einn skóli getur reynzt vel, en hér er um svo viðurhlutamikið atriði að ræða, að ekki má hrapa að neinn, sem stundum getur átt við, en stundum ekki. Hitt sker úr, hvort menn geta komið kennslunni fyrir, svo vel megi við una, sumpart með heimangönguskólum og sumpart með farskólum, svo ekki þurfi að grípa til óyndisúrræða fjölda mörgum til ama og leiðinda, þar sem aðiljar eru ekki ásáttir um að taka upp hina nýju skipun.

Þá kem ég að því, sem ég sakna, að hv. n. skuli ekki bæta úr með sínum till., og það er, að frv., eins og það er, vill útiloka yfirleitt allt frjálsræði og innleiða skyldu í þessum höfuðatriðum. Ég hafði búizt við, að einhverjar breyt. kæmu fram í þessu efni frá n. hálfu. Frv. gerir ekki ráð fyrir því, nema til bráðabirgða, að farkennslan geti verið við lýði í landinu. Hvaðan kemur þessum mönnum áræði til þess að bera það fram, að það skuli, ef ekki nú strax, þá a. m. k. innan lítillar tíðar, afnema alla farkennslu í landinu? Ég veit ekki betur en víða hagi svo til, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn að halda við farkennslu, nema því aðeins að byggja eigi heimavistarskóla á hverjum útkjálka og beita kúgun við landslýðinn, ekki aðeins í persónulegu tilliti, heldur líka til fjárútláta, sem er óforsvaranlegt, þegar aðrar leiðir eru færar. Hver er kominn til að segja, að úti um sveitir landsins sé barnakennslunni svo áfátt, að grípa þurfi til þessa? Ég veit ekki betur heldur en kennt sé og troðið í börnin eins og fyrirskipað er, líka í þeim fræðsluhéruðum, þar sem farkennsla er. Og nú eru menn yfirleitt að verða betur og betur sammála um það, að of miklu sé troðið í börnin, skólasetan sé of löng og að allt annað þurfi að gera til þess að tryggja framtíð, heilsu og manngildi fólksins heldur en kúga það til langrar skólasetu á unga aldri til þess að læra utanað það, sem hver maður getur séð í bókum hvar sem er. Með þetta fyrir augum sé ég ekki, hvaða þýðingu það hefir að rjúka í að ákveða, að heimavistarskólarnir skuli vera eina kennslufyrirkomulagið. Því ég vil meina, að þetta sé ekki aðeins stéttarmál barnakennara, til þess að bæta álit og kjör kennarastéttarinnar. Því mótmælir raunar enginn, að æskilegt sé að bæta kjör kennara, en það er bara ekki á þessu þingi verið að bæta kjör neinna stétta. Vilja hv. þm. halda fram, að barnakennararnir séu eina stéttin, sem verðskuldar kjarabætur, eða sem nauður rekur til að hjálpa? Ég held, að þeir verði að vera samferða öðrum stéttum, svo að þeirra vegna getum við látið okkur rólega um málið og gefið okkur tóm til að undirbúa það.

Það hefir verið hneykslazt á því hér, að hv. þm. Borgf. tók svo til orða, að hér væri komið fram í hv. Ed. annað frv. um barnafræðslu, sem gengi nokkuð á snið við þetta frv., eins og einnig er vitnað til í hinni rökstuddu dagskrá. Það frv. er sérstaklega um afstöðu kennaranna; á að gera verksvið þeirra víðara og jafnframt bæta kjör þeirra. Sé ég ekki, að það sé nein goðgá að vitna í frv., þó það sé komið frá hv. þm. S.-Þ., og hv. þm. Borgf. vék að því á hóflegan hátt. Ég verð að hryggja hv. þm. V-Ísf. ennþá meira með því að lýsa yfir, að heldur mundi ég fylgja því frv., ef ég ætti að velja á milli þess og frv., sem hér liggur fyrir. Er það þó ekki nema eins og bráðabirgðatilraun, og allt heldur lauslopalegt, en það mætti laga. Það er tilraun til þess að koma fram þeim atriðum, sem sumir virðast telja höfuðatriði í þessu máli, án þess þó að farið sé inn á það svið, sem við teljum, að ekki megi fara inn á, að ganga harkalega að því að fyrirskipa langa skólasetu utan kaupstaða og útrýma farkennslu. Ég get því gengið inn á anda frv. í höfuðatriðum, og hv. þm. S.-Þ. má eiga það, að hann hefir sýnilega skilið þetta atriði miklu betur en þeir, sem að því frv. standa, sem nú liggur fyrir.

Ég hefi borið fram brtt. við þetta frv., sem allar miða í þá átt að heimila það, sem í frv. er gert að skyldu. Geri ég það í því skyni að gera frv. betra, ef það ætti að ná fram að ganga. Einnig get ég gengið inn á eitthvað af brtt. n., af því að ég tel þær frekar til bóta, en hinsvegar er ég engan veginn fylgjandi frv. og mun greiða atkv. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem fram er komin og mér finnst rökstyðja það vel, að málið eigi ekki að ná fram að ganga á þessu þingi, eins og allt er í pottinn búið.

Þeir vilja telja, hv. þm., að heimavistarskólarnir séu þróunarstefnan í þessu efni og æskilegasta lausnin í fræðslumálunum. Hefir maður raunar heyrt það fyrri, en ég bjóst ekki við þessu eins eindregnu eins og það kom fram frá hv. frsm., m. a. af því, að hann stöðu sinnar vegna getur ekki tekið svona einskorðaða afstöðu. Hann vitanlega hefir sitt samvizku- og skoðanafrelsi, en mér þykir miður, hvað hann er yfirleitt einsýnn í þessu máli eftir því, sem fram hefir komið hér. Ég býst við, að hann verði auðveldari í „praksis“ til samkomulags, og þeir, sem hér eiga hlut að máli, geti áfram átt hauk í horni, þar sem hann er, að því er þeirra hagsmuni snertir. En mér þykir leiðinlegt, ef hann er yfirleitt kominn á þá skoðun, að þetta sé æskileg og sjálfsögð stefna, að allt verði kreppt í þessa fjötra; að börnin skuli vera í skóla, nema undanþága komi til á vissu ári, að þau skuli vera tekin af heimilunum og færð í þessar kvíar, sem heimavistarskólarnir vitanlega verða. Hér á ekkert „skal“ að vera, því allt er á hverfanda hveli, og ekki heppilegt að hnoða neitt upp, sem harðnar svo, að það verður ekki umsteypt. Aðeins þær breyt. er rétt að gera, sem menn fyllilega játa, að eigi að vera til bráðabirgða eða sem tilraun til umbóta. Ég fullyrði, að á þessu sviði er ekkert „absolut“.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði frv. frekar heldur en ég gerði í ræðu minni í gær. Ákvæðin um námsstjórana eru nú aftur orðin eftir till. n. heimild, og ekki mikið um þau að fást. Ef frv. á að komast út úr þessari hv. d., fer það væntanlega ekki miklu lengra á þessu þingi. En ég vil geta þess, að það er ekki úrslitaorð í þessu efni eða öðrum, þó hægt sé að segja, að það, sem um er að ræða, viðgangist einhversstaðar annarsstaðar. Hv. frsm. veit, að það er svo margt, sem viðgengst einhversstaðar annarsstaðar. Ég veit ekki betur en allar stefnur, sem fram hafa komið í fræðslumálum, séu einhversstaðar praktiseraðar úti um heim. Allar hafa þær sína skóla við að styðjast. Hver vill svo halda fram, að aðeins eitt sé nauðsynlegt, að aðeins eitt sé sannleikur í þessum efnum? Hvað námsstjórana snertir, þá skoða ég það aðeins sem tilraun. Ég tel, að kennarar hér á landi séu yfirleitt starfi sínu vaxnir, enda sýnir niðurstaðan af barnaprófunum ekki annað. Og nú er farið að hafa sambærilegt próf allsstaðar, svo það ætti að koma í ljós, hvar ómögulegir kennarar eru, og vera hægt að skipta um þá. En að kosta menn til að vera á ferðinni til að heimsækja alla skóla álít ég ekki nauðsynlegt. Þó nauðsyn gæti verið á slíku í kaupstöðunum, ætti ekki að þurfa að taka þetta svona stranglega úti um land. Ég hefi ekki trú á, að það sé mikil bót í því, þó einn maður heimsæki hvern skóla einu sinni á ári og dvelji þar einn dag. Hvað hefir það að segja? Hvað getur ekki kennslunni verið áfátt alla hina daga ársins? Þegar svo kennararnir hér í Reykjavík eiga eftir frv. að vera sínir eigin námsstjórar, því mega þá ekki kennararnir úti um landið vera það líka?

Hv. 9. landsk. vildi gera lítið úr því, að fólkið, foreldrarnir, ættu að ráða í þessum efnum, og sagðist vita dæmi til þess, að foreldrarnir hefðu verið ánægðir með ómögulega skóla. Ég veit nú ekki betur en að bæði eftir guðs og manna lögum séu foreldrarnir fyrst og fremst ráðamenn barnanna. Eftir okkar landslögum eru engir meiri forráðamenn barnanna heldur en foreldrarnir sjálfir. Undantekningar þar frá eru aðeins í tveimur tilfellum. Önnur er í fræðslulegu tilliti og nokkuð almenn, en hingað til hefir ekki verið álitið gerlegt að hafa fræðsluskylduna meiri en góðu hófi gegnir, og góðir menn hafa sagt fram að þessu, að því aðeins verði þessum málum komið í gott horf, að frjálsræði sé og góð samvinna milli allra aðilja. Hin undantekningin er það, að taka verður frá foreldrum í sumum tilfellum börn, sem eru vangæf eða óviðráðanleg, eða sem fallið hafa af einhverjum ástæðum út í glæpsamlegt athæfi. En það er yfirleitt standandi vandamál, hvenær eða hvort yfirleitt nokkurntíma er ástæða til að taka ráðin af foreldrum. Það getur verið sök heimilanna, að þörf sé á slíku, og það getur verið sök barnanna, en það mega ekki vera nema undantekningar. Nú stefnir einmitt í þá átt að hverfa aftur til náttúrunnar á sem flestum sviðum, og í öllum löndum er verið að mynda foreldrafélög til þess að annast hag heimilanna og barnanna gegn þeim yfirgangsofsa, liggur mér við að segja, gegn þeirri ýtni, sem fram hefir komið af hálfu sérfræðinganna í fræðslumálum. Því þá ekki að viðurkenna hér það skipulag, sem enn er þjóðskipulag, að foreldrarnir eigi að hafa mest að segja um uppeldi barnanna? Ég fullyrði, að því sé bezt komið á þann veg, að því sé aldrei bezt komið með því að setja börnin í kvíar burtu frá heimilunum, venja þau undan, svo þau geti vanizt á annað sem fyrst, sem ég og margir aðrir telja óheilbrigt skipulag, þó það sé við lýði í Rússlandi.

Þetta mál er nú því miður við 3. umr., svo að þó eitthvað yrði fellt af till., sem betur mætti fara að samþ., væri enginn til að bæta úr því, ef hv. þm. eru svo fullir af offorsi að vilja keyra málið út úr þessari d., sem ég teldi miður fara. Hv. n. hefir heldur ekki að mínum dómi rækt sitt starf eins og vera ber. Hún hefir látið reka á reiðanum þangað til á elleftu stundu, og þá er tíminn ekki nægur. En þó svo vilji til, að frv. fari út úr d. með þeim ágöllum, sem ekki ættu að vera á máli, sem ekki er neitt hégómamál, má gera ráð fyrir, að það strandi á einhverju tundurdufli uppi í hv. Ed.