20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það eru aðeins örfá orð í tilefni af hinum skrifl. brtt. hv. þm. N.-Þ., sem hann gerði grein fyrir áðan í ræðu sinni. Ég mun greiða atkv. á móti þessum brtt., en vil þó bera fram skrifl. brtt. við þær, ef svo fer, að fyrsta brtt. hv. þm. verður samþ. Hin skrifl. brtt. mín hljóðar á þessa leið: „Nú hefir skólahverfi vanrækt fræðslu barna, og getur þá fræðslumálastjórnin fyrirskipað skólaskyldu barna á aldrinum 7–10 ára í hverfinu.“ — Þetta er gert til þess að fræðslumálastjórnin hafi vald til að kippa barnafræðslunni í lag, þar sem hún kann að vera gersamlega vanrækt. En verði fyrsta brtt. hv. þm. N.-Þ. ekki samþ., mun ég taka þessa till. mína aftur, því að þá er hún óþörf.