20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

73. mál, fræðsla barna

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það eru aðeins örfá orð til þess að taka það skýrar fram, sem hv. þdm. hafa vafalaust tekið eftir, að það er blátt áfram ósvífin blekkingartilraun hjá hv. frsm., þm. V.-Ísf., að nokkur þdm. hafi leyft sér að telja eftir þá fræðslu, sem börnin hafa fengið í þessu landi. Ef hv. þm. hefir nokkuð fylgzt með því, sem sagt hefir verið um málið, þá má hann vita, að rætt hefir verið um þann stefnumun, hvort það á að innleiða skólaskyldu fyrir börn, þar sem nú er aðeins heimild í lögum til að koma henni á, utan kaupstaða, því að í kaupstöðunum er hún sjálfsögð, eins og allir vita. Það er deilt um, hvort nú eigi að útvíkka þessa skólaskyldu til sveitanna. Í umr. hefir verið bent á, að þetta væri óþarft, því að þeir, sem vildu, hefðu heimild til að lengja skólaskyldualdur barna. En bæði frá persónulegu og fjárhagslegu sjónarmiði þykir mörgum þetta athugavert. Þetta veit hv. þm., og hann veit það einnig ofur vel, að engum hefir dottið í hug að telja eftir þá fræðslu, sem börnum er almennt veitt, hvorki þeir langskólagengnu, sem hér eiga sæti í þd., né aðrir. Annars heyrir hv. þm. V.-Ísf. sjálfur til þeim flokki, sem hann þykist nú þurfa að eiga í höggi við og átelja. Hann hefir verið að hjakka á námsbraut hinna langskólagengnu eins lengi og ég, og veit ég ekki, hvort hann hefir borið þar meira frá borði. — Þessar umr. eru nú að verða búnar, og þær hafa sýnt, að hv. þm. V.-Ísf. skilur ekkert í þessu atriði, sem er þó í sérgrein hans sem embættismanns.