07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1937

*Jakob Möller:

Mér þykir leitt, hvernig hæstv. fjmrh. tekur í þessa till., sem ég bar fram. Ég veit að vísu, að till. kom seint fram, þó að það sé ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að hún hafi ekki komið fyrr en á 12. stundu, því að ég ætla að klukkan hafi ekki verið nema rúmlega 10, því að ég gekk af fundi kl. 10½ og það var þó nokkru eftir að till. var komin fram og leitað var afbrigða. Það er rétt, að ýmsir þm. hafa gengið af fundi síðan og kannske einhverjir áður. (JAJ: Eða ekki mætt vegna þinganna!). Já, en þeir hv. þm., sem voru við þegar afbrigða var leitað fyrir till., hafa enga afsökun, þó að þeir hafi gengið af fundi, enda geri ég ráð fyrir, að þeir hafi þá þegar myndað sér skoðun um till. Því að þetta mál, þó að það hafi ekki verið rætt á þingi, er svo alkunnugt, að ég geri ráð fyrir, að flestir geti verið nokkuð fljótir til þess að taka ákvörðun um, hvort þeir eigi að styðja framgang þess eða ekki.

Hæstv. fjmrh. áfelldist mig mikið fyrir það, að hafa látið allan þingtímann líða þannig að gera ekkert í málinu. En sannleikurinn er sá, að allan þingtímann hefir verið unnið að rannsóknum á því og borunum haldið áfram að svo miklu leyti, sem unnt hefir verið. Og það hefir lítið skeð í málinu, en nú fyrst er full vissa fyrir því, að framhaldsrannsóknir geti gengið greiðlegar heldur en áður, því að það hafa verið lögð drög að því að fá nýjan og stærri bor til þess að framkvæma boranir, og það má gera ráð fyrir, að þegar sá bor er fenginn, þá gangi rannsóknirnar fljótar heldur en hingað til.

Hér er eins og ég gat um áðan aðeins um heimild til ríkisstjórnarinnar að ræða, og ég skil ekki í því vantrausti, sem hæstv. fjmrh. hefir lýst á sjálfan sig í sambandi við málið, þar sem hann taldi sér ekki fært að taka við þessari heimild, sem hann svo sjálfur á að ráða um, hvort verður notuð eða ekki.

Hinsvegar er það kunnugt, að áhugi fyrir að framkvæma þetta verk er afarmikill hér í bænum, og m. a. hefir það komið fram í blaði hæstv. ráðh., að það hafi mikinn áhuga fyrir þessum málum. Þess vegna vona ég, að hæstv. fjmrh. komist við nánari athugun að annari niðurstöðu og beiti sínum áhrifum að því, að hv. þm. veiti þessa heimild í fullu trausti til hæstv. ráðh. af þeirra hálfu, að hann láti ekki teygja sig út í neina vitleysu í sambandi við þessa heimild.