20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

73. mál, fræðsla barna

*Pétur Ottesen:

Ég veit ekki, hvort það hefir átt að skilja orð hv. 2. þm. Árn. svo, að hann vildi neita því, sem ég bar hann fyrir, um árekstur þann, sem orðið hefði í Árnessýslu milli kennara í heimavistarskólum og foreldra barnanna. Hann kveðst ekki hafa sagt neitt um það í þingræðu, og það er rétt, en hinsvegar hefir hann sagt það í viðtali við mig, að þetta væri rétt, og auk þess hefi ég heyrt hann skýra öðrum frá því. Ég verð að segja það, að ég hefi þá ekki skoðað þennan hv. þm. í réttu ljósi, ef hann neitar þessu. Ég benti á þetta til sönnunar því, sem ég taldi vera kost á frv. hv. þm. S.-Þ. í Ed., um breyt. á fræðslulögunum, fram yfir það frv., sem hér er til umr., að heimilað er að skipta um kennara við heimavistarbarnaskóla. En í þessu frv. er gert ráð fyrir, að barnakennarar í sveitum geti haldið því starfi óslitið æfilangt. Það var aðeins þetta, sem ég vildi láta koma skýrar fram. Annars mátti skilja hv. 2. þm. Árn. svo, að hann vildi neita þessum framburði sínum og viðurkenndu sannindum.